25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

27. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Ólafsson):

Flm. brtt. á þskj. 267, og sjerstaklega hv. þm. Mýr., leggja ákaflega mikla áherslu á það, að það verði að vinda bráðan bug að því að koma á verklegu námi við þennan skóla. Við nefndarmenn erum honum sammála um það, að það þurfi að gera alt, sem hægt er, til þess að auka verklegt nám, svo sem nauðsynlegt er og sanngjarnt er að heimta. En við erum alveg sammála hv. þm. Borgf. um það, að ekki liggi á því nú, þar eð sú breyting geti ekki komið til framkvæmda við þennan skóla, sem hjer er um að ræða, á næsta ári eða næsta skólaári, þannig að milliþinganefndin og næsta Alþingi geti verið búin að ganga endanlega frá þessu máli áður en gert er út um þetta atriði. Það er alveg eins og hv. flm. brtt. 267 hafi alt í einu fundið þetta púður, að það þyrfti nauðsynlega að drífa þetta í gegn. En mjer er spurn: Er ekki þetta mál búið að vera svo lengi á döfinni, búið að liggja svo lengi órætt og óhugsað, að það þoli enn þessa bið? Því að málið hefir að kalla má legið órætt og óhugsað þangað til á síðasta Búnaðarþingi.

Jeg býst nú við, að þessir tveir hv. þm., hv. 2. þm. Skagf. og hv. þm. Mýr., muni báðir eiga sæti hjer í þessari deild, þegar tillögur milliþinganefndarinnar koma, og fái þá kost á því að segja álit sitt á því, að hve miklu leyti beri að auka verklega námið, hve mikið eigi að heimta af nemendum oss. frv. En þeir hljóta að viðurkenna það, sem hv. þm. Borgf. benti rjettilega á, að það getur ekki komið að notum fyr en á næsta skólaári, þótt það væri lögleitt nú.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um, að c-liðurinn í frv. sje óþarfur, en þar er talað um að gera þær breytingar á kennaraliði skólans og reglugerð, sem nauðsynlegar eru. Þetta má líka bíða. En það er gert ráð fyrir þessu með tilliti til þess, að eitthvað verði gert til þess að auka verklegt nám, og er þá eðlilegt, að ekki dugi þeir kenslukraftar, sem áður voru fyrir, og afleiðingin yrði sú, að breyta þyrfti um kenslukrafta. Þetta er meinlítið atriði, og höfum við nefndarmenn því ekki sjeð sjerstaka ástæðu til þess að fella það burtu úr frv.

Þótt við nefndarmenn sjeum sammála háttv. þm. Borgf. um það, að verklegt nám muni ekki komast í framkvæmd, á næstu skólaárum, þá getum við ekki mælt með því, að dagskrá hans verði samþykt. Því að það er búist við því, að skólastjórinn, sem nú er á Hólum, muni láta af því starfi á næstunni, og er þá eðlilegt, að gerðar verði þær breytingar, sem álitnar eru heppilegar í heild sinni, og er þá að minsta kosti ekki bagi að því að hafa heimildina til þess.

Það var ekki nema stutt aths., svo að jeg læt þetta nægja að sinni.