25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1486 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

27. mál, bændaskóli

Jón Sigurðsson:

Hv. 1. þm. Árn. er að bregða okkur flm. um kappgirni í þessu máli. Jeg hygg, að mjer sje óhætt að skjóta því undir dóm deildarinnar, hvorir hafi beitt meira kappi, við eða landbn. Mjer kom það dálítið undarlega fyrir sjónir, þegar hv. 1. þm. Árn. stóð upp með þjósti og sagði, að hjer væri aðeins um heimild að ræða fyrir stj. Það er eins og hv. þm. treysti stj. svo illa, að ekki sje til neins að veita henni heimild. (JörB: Þetta er ekki rjett). Jú, við erum þetta kröfuharðari, að vilja veita stj. heimild til að setja viss skilyrði. (JörB: Það er skipun). Ef hv. þm. ber frv. saman við brtt., sjer hann, að hjer er aðeins um heimild að ræða. Hv. þm. sagði, að seinni liður brtt. væri kominn undir geðþótta skólastjórans á Hvanneyri. Mjer er ekki kunnugt um, að hann hafi vald til að hindra breytingar á reglugerð skólans nje heldur að hann geti ráðið meira en hæstv. ráðh. (JörB: Hann er ráðinn með ákveðnum skilyrðum). Já, alveg rjett, en jeg veit ekki betur en að hann sje skyldur til að veita tilsögn í verklegu námi.

Þetta átti að vera stutt aths. og jeg vil ekki misnota leyfi hæstv. forseta. En jeg vona, að hv. deild sjái, að við setjum merkið hærra, gerum meiri kröfur og heimilum hæstv. ráðh. að ganga lengra en landbn.