25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1487 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

27. mál, bændaskóli

Hákon Kristófersson:

Það er rjett hjá hv. 1. þm. Árn., að sumir hafa beitt kappi í þessu máli, en jeg er með hv. 2. þm. Skagf. í því, að kappið hafi verið meira hjá andstæðingum brtt. en flm. Og jeg verð að lýsa yfir því, að mjer finnast brtt. þeirra þakkaverðar, en get sagt það um leið, að jeg tel þær ganga of skamt. Jeg skil ekki í því hjá hv. 1. þm. Árn., að erfiðara verði að koma breytingunum á á Hvanneyri en Hólum á þessum byltingaárum, sem nú eru. Því skyldi hæstv. ráðh. ekki geta komið ekki meiru í verk hliðstætt með Hóla og Hvanneyri? Þó að ef til vill sje það ekki góðgjarnt, verð jeg að leyfa mjer að segja það, að viljaleysi sje til að dreifa. Og ef brtt. 267 er lítils virði, hvers virði er þá frv. sjálft? Jeg fæ ekki sjeð, að það sje nokkurs virði, og allra síst, ef lagt er til grundvallar það, sem margir hv. þm. hafa sagt, að málið fari til rannsóknar í milliþinganefnd, sem skili till. sínum fyrir næsta þing. Jeg skil orðið „heimilast“ í brtt. 267 sem kurteislega ábendingu tillögumanna til stj. um, að þeir ætlist til, að stj. framkvæmi þetta, og jeg vil þakka þeim fyrir að hafa beint málinu inn á rjettan farveg, sem er meiri verkleg kensla í skólunum en verið hefir. Og jeg sje ekki, að menn hafi áhuga fyrir aukinni verklegri kenslu, ef ekki er frambærilegt, að hún standi 8 vikur; áhuginn er þá ekki fyrir öðru en einhverju skólatildri. Ef til vill er ekki hægt að búast við viðunandi kenslu í búfjárgeymslu og þess háttar, en jeg efast ekki um, að nóg kensla fáist í jarðrækt og meðferð vjela. Að vísu hefir maður frá þessum skóla gert sljettu í túni hjá mjer, og það er sú eina, sem hefir mistekist. Jeg vil lýsa yfir því, að jeg er með brtt. 267, en hinsvegar, þar sem aðeins er um eitt ár að ræða, tel jeg ekki úr vegi að bíða og finst því dagskrártill. háttv. þm. Borgf. frambærilegust. Að það sje vörn í málinu, að breytingar standa fyrir dyrum á Hólum, fæ jeg ekki skilið. Mjer finst það aukaatriði. Sá maður, sem tekur við, verður að gera ráð fyrir að halda búi og skóla með því skipulagi, sem vænta má, að muni verða.

Ef brtt. verður feld, tel jeg frv. einskis virði. Jeg sje ekki betur en brtt. byggist á fullkominni hugsun og einlægum vilja, og eigi því fram að ganga, svo fremi menn álíti þetta nauðsynjamál, sem beri að hraða. — B-liður frv. er nægilegur þyrnir í mínum augum til þess, að jeg treystist ekki til að vera með, enda er hægt að teygja það og toga vegna ríkissjóðs.