03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

27. mál, bændaskóli

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. landbn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls. Það er vel farið og æskilegt, að breytingar þessar komist á, og það sem fyrst, af því að ráðstafa þarf skólabúinu þegar í vor og skólastjórastarfinu fyrir næsta haust. En jafnframt því að þakka hv. nefnd fyrir skjóta afgreiðslu málsins vildi jeg víkja fáeinum orðum að ræðu hv. frsm.

Hann mintist á, að í frv. eins og stj. lagði það fyrir hefði verið heimild til að setja á stofn lýðskóladeild við skólann, en hjelt því hinsvegar fram, að það mundi hafa orðið til þess að draga úr hinni almennu bændamentun. En því var yfirlýst af mjer í hv. Nd., að það hefði alls ekki verið meiningin. Þessa heimild vildi stj. setja með það fyrir augum, að lítil aðsókn hefir verið að skólanum undanfarið, en taldi ekki fullvíst, að aðsóknin ykist, þótt skólanum yrði breytt í þetta horf. Hinsvegar þótti stj. rjett, af því að þarna er nóg húsrúm og góðir kenslukraftar, að gefa ungu fólki kost á aukinni fræðslu með lýðskólasniði. En jeg hefi ekki gert þetta að neinu kappsmáli, vegna þess að jeg lít á þessa breytingu sem bráðabirgðaráðstöfun, eins og milliþinganefndin í landbúnaðarmálum gerir einnig ráð fyrir.

Þá mintist hv. frsm. á þá breytingu, sem gerð var á búnaðarskólunum fyrir rúmum 20 árum, og sagði, að þá hefði illu heilli verið horfið frá verklegu námi, en bóklegt tekið upp í staðinn. Jeg býst nú við, að sá sje dómur manna nú, en áður var það alment álitið, að þörf væri á þessari breytingu, og því var hún upp tekin. Jeg hefi farið í gegnum sögu þessa máls í þinginu, og er það eftirtektarvert, hvað menn eru einróma um það á Alþingi 1905 að breyta skólunum í þetta horf. sjerstaklega var það þó sr. Sigurður heitinn Stefánsson, frsm. þessa máls í hv. Ed., sem rakti nauðsyn þess og taldi sjálfsagt að taka meira bóknám upp við skólana en verið hafði þá um langt skeið.

Aftur á móti dróst það inn í umr. í hv. Nd., að þeir tveir hv. þm., sem frv. fluttu þar, vildu nú stíga sporið alveg öfugt við það, sem gert var 1905. Þeir og ýmsir fleiri vildu skipa báðum skólunum í það horf, sem þeir voru fyrir 20 árum. En á móti því lagðist jeg og vildi ekki stíga sporið fult að þessu sinni, heldur taldi jeg heppilegra að gera aðeins tilraun um verklegt nám við annan skólann.

Þá vjek hv. frsm. að atriði, sem talsverðar deilur urðu um í hv. Nd., till. þeirra hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Skagf. um átta vikna verklegt nám sem skilyrði til þess að fá upptöku í eldri deild skólans. Það er rjett, að þessu var breytt þann veg, að slíkir nemendur skyldu sitja fyrir öðrum. Jeg benti einmitt á, að þetta ákvæði mætti ekki vera of þröngt, ekki einskorða við þetta átta vikna verklegt nám, því að þá gæti svo farið, ef aðsókn væri lítil, að sætin í eldri deild stæðu auð, en það má helst ekki eiga sjer stað, ef kostur er, og því er betra að slaka á inntökuskilyrðunum.

Annars er hjer ekki um löggjöf að ræða, sem standa á lengi. Hjer er verið að tjalda aðeins til einnar nætur, því að á næsta þingi má gera ráð fyrir, að lögin verði endurskoðuð.