25.01.1928
Efri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1498 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Fyrir nokkrum dögum lagði stj. fyrir Nd. frv. um nokkrar breytingar til bráðabirgða á hegningarlöggjöfinni, og gat þess um leið, að annað frv. því skylt myndi bráðlega verða lagt fyrir þessa deild, og er það frv. það, sem nú er til umr.

Jeg býst ekki við, að um það geti verið skoðanamunur, að þörf sje á að reisa hjer betrunarhús, því að margoft hefir verið kvartað um það, bæði af bæjarfógetanum hjer og fleirum, að fangahúsið gamla hjer í Reykjavík sje með öllu ófullnægjandi og uppfylli alls ekki þær kröfur, sem hegningarfræðin gerir nú á tímum til hegningarhúsa. Er það meðal annars sökum þess, hversu mjög bygðin hefir aukist hjer síðan það var bygt. Þá má og geta þess, að múrinn í kringum það er svo lágur, að hægt er fyrir utanaðkomandi menn að tala við fangana yfir hann úr húsum, sem alveg eru bygð upp að hegningarhúsinu, því að bærinn á lóðirnar í kring og þar hafa verið bygð hús, sem auðvelt er að tala frá yfir garðinn.

Eins og jeg gat um áðan, hefir Reykjavíkurbær aukist mjög síðan hús þetta var bygt; er því oft ekkert pláss þar fyrir alla þá, sem setja þarf í „steininn“, t. d. ölvaða óspektarmenn, sem oft þarf að setja inn að næturlagi. Gera slíkir menn líka hinum föngunum ónæði, meðan ölvíman er að renna af þeim. Þá hefir það og komið fyrir, að menn, sem fengið hafa dóm, hafa orðið að bíða með að taka út hegninguna, sökum rúmleysis í fangahúsinu.

Það getur ekki komið til nokkurra mála, að hægt verði að stækka fangahús það, sem nú er, svo að koma megi þar fyrir vinnustofu fyrir fangana, en vinnustofa, þar sem hægt er að láta fangana vinna, er alveg nauðsynleg.

Í seinni tíð hefir skoðun manna um meðferð fanga allmjög breytst frá því, sem áður var. Nú er alment talið heppilegra að hafa fangahúsin ekki í kaupstöðum, heldur uppi til sveita, svo hægt sje að láta fangana stunda útivinnu á sumrum. Hvað snertir staðinn fyrir fangahús það, sem hjer er um að ræða, þá er engu slegið föstu um hann hjer í frv. Þeir tveir lögfræðingar, sem mest hafa um mál þetta hugsað, auk bæjarfógetans, hallast helst að því að hafa fangahúsið t. d. annaðhvort á Bústöðum eða í Viðey, eða að minsta kosti einhversstaðar hjer nálægt Reykjavík.

Um það hygg jeg engan skoðanamun vera, að fangahúsið eigi að vera einhversstaðar þar, sem svo hagar til, að hafa megi fangana við útivinnu á sumrin, og jafnframt sje svo um búið, að þeir geti unnið innivinnu á vetrum. Í því sambandi þykir mjer rjett að segja frá því, að stjórnin hefir látið sjer detta í hug, að nota mætti spítalabygginguna á Eyrarbakka til þessara hluta. Það mun orðið fullvíst, að sýslan rís ekki undir því að koma byggingu þessari upp. Landið hefir lagt í hana 80 þús. kr. og nú telst Landsbankinn eiga hana. Þar sem það mun nú með öllu óhugsanlegt, að bygging þessi verði nokkurn tíma notuð fyrir spítala, eins og fyrst var til ætlast, þá leyfi jeg mjer að slá þessari hugmynd fram til athugunar. Landsbankinn mun að sjálfsögðu fúslega vilja losna við þennan steinkassa, og er því fullvíst, að fá má húsið fyrir það, sem á því hvíldi til bankans, er hann tók við því. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að þarna í kring á bankinn mikið land, sem hentugt væri t. d. til kartöfluræktar. Og jeg teldi alveg frágangssök að hafa fangahúsið á þessum stað, nema því aðeins, að land þetta fengist með góðum kjörum. En sem sagt, um þetta er engu slegið föstu í frv., enda þótt fjárupphæð sú, sem nefnd er, sje frekar miðuð við það, að hús þetta verði notað, því að annars myndi hún verða og lág.

Í sambandi við þetta betrunarhús í sveit er hjer gert ráð fyrir, að verði vinnustofnun fyrir þá menn, sem ekki fást til að vinna sökum leti og ómensku. Getur líka verið gott ýmsra annara hluta vegna að einangra slíka menn frá öðru fólki. Einn tölufróður maður úr bæjarstjórn Reykjavíkur hefir sagt mjer, að Reykjavíkurbær borgi árlega út fullar 100 þús. kr. með börnum slíkra slæpingja. Jeg hefi átt tal um þetta mál við borgarstjórann hjer, og er hann málinu hlyntur. Hann telur hugsanlegt, að þessir menn, sem ekki nenna að vinna, myndu fara að vinna, þegar þeir ættu von á því að verða settir á vinnustofnun, þar sem þeir yrðu knúðir til að vinna.

Að sjálfsögðu er það ekki fullvíst, að allir þessir letingjar myndu vinna fyrir sjer á slíkri vinnustofnun, en það yrði samningsatriði við hlutaðeigandi sveitarfjelag að bæta því við, sem á vantaði.

Þá er eitt, sem miklum vandræðum hefir valdið bæði fyrir dómara og stjórnina. Það er meðferð þeirra afbrotamanna, sem útvega sjer læknisvottorð um það, að þeir heilsu sinnar vegna sjeu ekki færir um að vera í venjulegu fangahúsi. Og síðan í haust hafa nokkrir slíkir menn verið látnir vinna af sjer hegninguna í sjúkrahúsi undir eftirliti hlutaðeigandi dómara. Þannig hafa t. d. þrír einhverjir mestu vínsalar þessa bæjar verið einangraðir síðan í haust í sjúkrahúsi suður í Hafnarfirði, og nú síðast, þegar ekki fjekst þar lengur rúm fyrir þá, hafa þeir verið einangraðir í húsi, sem Hjálpræðisherinn á þar syðra. Það, sem við þetta hefir unnist, er aðeins það, að menn þessir hafa ekki getað haldið áfram sínum ólöglega atvinnurekstri. En slíkt fyrirkomulag sem þetta er óviðunandi til lengdar. Fyrir þessa menn verður að borga í sjúkrahúsunum eins og fyrir hverja aðra sjúklinga. Er uppihald þessara manna því alt of dýrt fyrir þjóðfjelagið.

Í fangahúsi, sem bygt yrði eftir kröfum tímans, væri óumflýjanlegt að hafa sjúkradeild. Kæmi þá tilhögun Eyrarbakkaspítalans í góðar þarfir að því leyti, ef að því ráði yrði horfið að hafa hann fyrir fangahús.

Að síðustu vil jeg undirstrika það, að undir öllum kringumstæðum er óumflýjanlegt að byggja nýtt fangahús, fyrst og fremst sökum þrengsla í því, sem nú er, og í öðru lagi sökum þess, að bygging þess gæti haft í för með sjer breytta meðferð á afbrotamönnum frá hví, sem nú er, í samræmi við hugsunarhátt nútímans, og það út af fyrir sig er ekki svo lítið nauðsynjamál. Að umr. lokinni legg jeg til, að frv. þessu verði vísað til allshn.