06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Eins og greinargerð þessa frv. ber með sjer, liggur ekki fyrir neinn undirbúningur undir þetta mál eða neinar skýrslur um það, að slíkur venjulegur undirbúningur hafi farið fram.

Út af þessu kom hæstv. dómsmrh. á fund allshn., og var hann þar spurður um það, hvort ekki lægju fyrir neinar skýrslur frá einhverjum sjerfróðum mönnum, sem látnir hefðu verið gera till. til stjórnarráðsins, svo sem vani er í slíkum málum, viðvíkjandi fyrirkomulagi þessarar væntanlegu stofnunar, stærð hennar o. s. frv. Hæstv. dómsmrh. upplýsti það, að ekki hefði farið fram annar undirbúningur en sá, að það hefði verið athugað af sjer, hvort gerlegt mundi að taka hinn hálfgerða Eyrarbakkaspítala til þessarar notkunar. En hann kvaðst þó ekki hafa komist að neinni endanlegri niðurstöðu um það, hvort það mundi tiltækilegt eða ekki. Eftir þessum upplýsingum, og þær eru þær einu, sem unt er að fá, verð jeg að álíta, að hreint enginn undirbúningur hafi átt sjer stað, og jeg minnist þess ekki, að nokkurn tíma í minni tíð á þingi hafi jafnalvarlegt og að mörgu leyti merkilegt mál sem þetta er verið lagt fyrir þingið jafnundirbúningslaust og þetta.

Hv. frsm. meiri hl. þótti það ekki meira en oft áður hefði átt sjer stað, þótt stjórninni væru nú heimilaðar 100 þús. kr. Hann benti í þessu sambandi á það, að stærri upphæðir en þetta hefðu áður verið heimilaðar stjórnum. En það, sem hjer um ræðir, er ekki einungis það, að stjórninni sjeu heimilaðar 100 þús. kr., heldur er henni um leið gefið fult og ótakmarkað leyfi til þess að ákveða alt um legu og fyrirkomulag þessarar stofnunar. Ávalt hingað til, þegar stjórn hefir farið fram á slíka heimild, hefir hún talið sjer skylt að láta áður framkvæma rannsókn af sjerfræðingum eða þeim mönnum öðrum, sem best eru til þess færir, og leggja álit þeirra fyrir þingið. Þar eð jeg hefi ekki átt kost á að sjá neitt slíkt, verð jeg að ræða málið með þeirri mjög ófullkomnu þekkingu, sem jeg hefi getað um það fengið. Það virðist þá fyrst og fremst liggja í augum uppi, að þótt þessi stofnun yrði mjög smá, þá mundi þessi tiltekna upphæð, 100 þús. kr., alls ekki nægja. Hingað til hefir ekki verið hægt að fá hjá hæstv. dómsmrh. neinar upplýsingar um það, fyrir hve marga heimamenn þessi vistarvera á að vera sniðin. Það eitt er upplýst, að ef Eyrarbakkaspítali verður notaður, þá verður stærð þess húss látin ráða. Verði hinsvegar bygt nýtt hús á einhverjum öðrum stað, þá mætti ætla, að stærð þess yrði eitthvað í líkingu við spítalann. Nú var gert ráð fyrir því, að hann yrði handa 30 sjúklingum, en sennilega kæmust þar varla fyrir jafnmargir fangar, vegna þess, að líklega þyrfti fleiri einbýlisstofur í fangelsi en í spítala. Þó gæti maður ímyndað sjer, að hæstv. landsstjórn hefði hugsað sjer, að þarna yrði nálægt 30 vistarverum. Og eftir því, sem byggingarkostnaður svo stórra húsa er nú, má ekki vænta þess, að 100 þús. kr. mundu hrökkva langt. Þótt landið tæki Eyrarbakkaspítala fyrir þær 30 þús. kr., sem hvíla á honum í Landsbankanum og annarsstaðar, hygg jeg, að 100 þús. kr. mundu engan veginn nægja til að fullgera hann sem fangahús. Til er áætlun um kostnað við að ganga frá húsinu sem sjúkrahúsi, og nemur hún 120 þús. kr. Nú er það auðsjeð, að þar sem húsið má kallast fullgert að utan og innveggir allir eru þegar steyptir, þá mundi kosta enn meira að breyta því nú í fangahús, því að til þess þyrfti að rífa mikinn hluta innveggjanna. Auk þess þyrfti að kaupa nauðsynleg verkfæri til þess, að hægt væri að halda þarna uppi vinnu sumar og vetur. sjálfsagt mundi það þó kosta enn hærri fjárhæð að byggja hús alveg að nýju, enda þótt það verði vafalaust niðurstaðan. Því að Eyrarbakkaspítali er mörgum þeim ágöllum haldinn, sem gera hann óhæfan, að minni hyggju, til þessara nota. Það stendur svo á, að spítalinn stendur í útjaðri fjölmenns sjávarþorps, fast við eina alfaraveginn til þorpsins. Húsið sjálft stendur mjög lágt og er bygt í votlendu landi, að heita má niðri í tjörn mestallan tíma ársins. Jeg fæ ekki sjeð, að þarna sje einu sinni hægt að gera garð til venjulegrar, daglegrar útivistar fanganna, nema með því að fylla upp nokkurn hluta tjarnarinnar. — Hinum megin tjarnarinnar háttar að vísu svo til, að þar er nokkur sjávarkambur, sem hefði ekki verið óálitlegt svæði til kartöfluræktar, ef hann hefði verið fast við húsið. En nú er tjörnin á milli og þessi kambur inni í sjálfu þorpinu. Þar yrðu fangarnir því altaf á almannafæri við vinnu sína. Og jeg hygg, að það sje ekki rjett gagnvart þeim mönnum, sem í þá ógæfu hafa ratað, að komast í þessa stofnun, að láta þá altaf vinna fyrir allra augum. Jeg veit ekki betur en að alstaðar erlendis sje sú regla viðhöfð að láta fangana vinna svo mjög út af fyrir sig, sem kostur er á.

Þá er og annað, sem gerir það óaðgengilegt að nota þennan stað. Það er það, hve gæsla fanganna hlyti að verða dýr. Þarna er ekki til neinnar lögreglu að leita, ef eitthvað skerst í odda með gæslumanni og föngunum eða letigarðsbúum. Jeg hygg, að það sje beinlínis frágangssök að byggja stofnunina annarsstaðar en þar, sem aukin lögregla er nærtæk, ef á þarf að halda.

Jeg býst nú við, að sjerfróðir menn hefðu getað gert betri grein fyrir sumum þessara atriða heldur en mjer hefir verið unt. Jeg er hissa á því, að hæstv. dómsmrh., sem fyrir nokkrum mánuðum brá sjer til Eyrarbakka með fríðu föruneyti, skuli ekki geta eða vilja leggja fyrir Alþingi álit sjerfræðinga á þessum efnum. Þó sýnist svo, sem nægur tími hefði verið til að afla þeirra. Jeg álít, að Alþingi geti ekki annað gert, eins og málið liggur fyrir, en að æskja eftir betri undirbúningi þess fyrir næsta þing. Að vísu er ekki hægt að fortaka, að hæstv. stjórn kynni að geta bætt eitthvað úr þessu undirbúningsleysi meðan þing situr. En þó gerði jeg ekki ráð fyrir, að svo yrði, og gerði því ekki þá kröfu í nefndinni, að hún frestaði að skila áliti sínu. Af þessum ástæðum hefi jeg komið með rökstudda dagskrá, svo hljóðandi:

„Þingdeildin skorar á landsstjórnina að rannsaka og undirbúa byggingu nýs betrunarhúss fyrir landið og að rannsaka, hvort tiltækilegt muni að hafa letigarð í sambandi þar við. Í því trausti, að rannsókninni verði lokið fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Út af letigarðinum vil jeg aðeins geta þess, að jeg er í miklum vafa um, hvort yfirleitt er tiltækilegt að reka hann í sambandi við betrunarhúsið. Ekki liggja heldur fyrir neinar upplýsingar um það, hvort yfirleitt sje þörf á honum, hvað kosta muni uppihald letingjanna eða rekstur garðsins, hve margir megi búast við að verði þar, hvort sveitarstjórnir vilja nota hann eða telja sig hafa þörf á honum, o. s. frv. Því hefi jeg ekki getað myndað mjer neina rökstudda skoðun um það, hvort rjett gæti talist að ráðast í byggingu letigarðs.

En hinu verður áreiðanlega ekki skotið á frest lengur, svo að neinu nemi, að byggja nýtt betrunarhús. Jeg get skýrt frá því, eftir upplýsingum frá hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), að í fangahúsinu við Skólavörðustíg eru 8 fangaklefar, og auk þess tvær skonsur, þar sem stinga má inn óróamönnum næturlangt. Það er auðsjeð, að þetta húsnæði er ekki meira en nauðsynlega þarf vegna lögreglubrota í bænum. Það er ekki stærra en svo, að það getur hæglega fylst á einni nóttu. Má því í raun rjettri segja, að landið sje algerlega fangelsislaust.

Hv. frsm. meiri hl. vildi ekki gera mikið úr þeirri mótbáru gegn Eyrarbakkaspítala, að hann væri ekki nothæfur fyrir gæsluvarðhald handa Reykjavíkurdómþinghá. Það er nú að vísu alveg rjett hjá hv. frsm., að það þarf ekki nauðsynlega að fara saman, fangelsi landsins og gæsluvarðhald Reykjavíkur. En fangahúsið hjer er orðið svo lítið, að á næstu árum verður að sjá Reykjavík fyrir öðru húsi til gæsluvarðhalds, ef ekki verður hægt að nota hið nýja betrunarhús landsins í því skyni. Jeg álít óhentugt að skjóta því þannig á frest að leysa úr annari þörfinni, því að þá þyrfti þegar á næstu árum að fara að hugsa um byggingu gæsluvarðhalds fyrir dómþinghá Reykjavíkur. Yrði fráleitt sparnaður að þeirri skiftingu. Ummæli hv. frsm. meiri hl. álít jeg því aðeins enn eina sönnun þess, að málið er engan veginn svo undirbúið, að viðunandi geti talist.