06.02.1928
Efri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg skal nú ekki verða eins margorður og hæstv. dómsmrh. En jeg vil þó leiðrjetta nokkur atriði í ræðu hans, sem hann fór skakt með. Hæstv. dómsmrh. sagði, að ríkissjóður hefði lagt í Eyrarbakkaspítalann 80 þús. kr. Þetta tvítók hann. En það er ekki rjett. Það mun hafa verið, ef jeg man rjett, 50 þús. kr., sem hann fjekk. Hæstv. ráðh. ætti að geta, með hægu móti, aflað sjer upplýsinga um þetta atriði og skýrt rjett frá því. Þá sagði hæstv. ráðh., að ef spítalahúsið á Eyrarbakka, vegna umhverfis síns, væri óhæft fyrir fangahús og letigarð, þá hefði það líka verið óhæft sem sjúkrahús. En þetta er algerlega gripið úr lausu lofti, því hjer er ekki um sömu kröfur að ræða í báðum tilfellum. Letigarðurinn eða fangahúsið gerir kröfur um hentugt land til útivinnu, sem sjúkrahús gerir vitanlega ekki. Þá liggur vegur mjög nærri, sem er stór ókostur við fangahús, sem þarf að standa afskekt, en vegurinn er þó ekki svo nærri, að friði sjúklinga sje hætta búin af skarkala frá honum. Þetta sýnir, að hann hefir alls ekki gert sjer það ljóst, hverjar kröfur beri að gera til slíkrar stofnunar. — Hæstv. sami ráðh. sagði tvisvar, að þetta mál væri ekki hægt að rannsaka, en það sýnir bara, að hann hefir ekki hugmynd um, hvernig á að rannsaka mál. Hann sagði í sambandi við þetta, að menn væru hættir að bera traust til áætlana þeirra, er verkfræðingar gerðu, og tók rafveituna hjer í Reykjavík til dæmis. En jeg verð að segja, að það dæmi var mjög óheppilega valið, því sú áætlun stóðst að öllu öðru leyti en því, sem verðlag hafði breytst frá því hún var gerð og þar til verkið var framkvæmt, og betur er ekki hægt að gera og meira má ekki krefjast.

Þá sagði sami hæstv. ráðh., að stj. hefði oft verið treyst til þess að fara með stærri fjárupphæðir en þessi er. En það er alls ekki vegna þess, hve upphæðin er mikil, sem óviðkunnanlegt er að veita þessa heimild, heldur vegna þess, að hjer er um algerlega nýja stofnun að ræða, sem allar áætlanir vantar um, hvað kosta muni, og til hverra nota muni verða og hvort það muni ekki verða helst til þungur baggi. Jeg er hræddur um, að ef heimildin verður veitt og þarna verður sett á fót betrunarhús og letigarður, þá sje stofnað til stórra útgjalda um langt árabil og að þessar 100 þús. kr. verði eins og fjöður af fati, þegar öll kurl koma til grafar.

Mjer þótti vænt um að heyra hæstv. ráðherra segja það, að væntanlega hefði engum komið til hugar að setja þessa stofnun á fót á Eyrarbakka, ef þetta spítalahús hefði ekki verið komið þar, og að hann enn væri í vafa um, hvort hverfa ætti að því ráði. Jeg vil því gefa hæstv. dómsmrh. eitt ráð, sem jeg sjálfur hefi jafnan reynt að fylgja, og það er að hafa það hugfast, þegar hann ræðst í einhverjar framkvæmdir, að gera þær svo vel sem framast er kostur á, enda þótt tækifæri sýnist til að spara fje í bili. slíkt má aldrei láta villa sjer sýn, því þá getur farið svo, að verkið beri frá upphafi í sjer ófullkomleika, er ávalt haldist, stofnkostnaðurinn gleymist fljótt, og eiginlega strax og fyrirtækinu er lokið. En gallarnir minna ávalt á sig. Þetta ráð er gefið í algerðri einlægni, og veit jeg, að hæstv. ráðh. skilur það, að svo er.

Þetta mál má vitanlega rannsaka, svo hægt sje að komast nærri hinni raunverulegu þörf. Það má finna það með útreikningum og samanburði við aðrar þjóðir, hve mörgum föngum þarf að ætla húsnæði. Þá má einnig athuga það, hvort refsivistin krefur meira húsrúms hjer en annarsstaðar. Þetta má alt rannsaka til hlítar, t. d. eins og gert er með sjúkrahús. Það þarf aðeins að fá mann, er vill sökkva sjer niður í rannsókn á þessu máli. Eins má rannsaka þörfina fyrir letigarð. Það má láta sveitarstjórnirnar vita, hve mikið þær þurfi að borga með slíkum mönnum, og fá það á móti uppgefið af þeim, hve marga menn þær vilji senda þangað. — Allir þeir erfiðleikar, sem hæstv. dómsmrh. taldi vera á rannsókn þessa máls, sýna einungis það, að hann hefir ekki hugsað málið til hlítar.

Þá talaði hæstv. dómsmrh. um lögreglu í sambandi við þessa stofnun og taldi hennar ekki þörf. Hann vitnaði í, að í Danmörku hefðu verkstjórar einir umsjón með föngunum, sem væru látnir vinna. En þetta er ekki sambærilegt. Í Danmörku er svo þjettbýlt, að þar má alstaðar ná í lögregluna með örstuttum fyrirvara, jafnvel innan klukkutíma.

Jeg tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Að lokum vil jeg geta þess, að jeg viðurkenni, að fullkomin þörf sje á að byggja nýtt betrunarhús, en hinsvegar álít jeg mjög ósanngjarnt að ámæla fyrv. stj. fyrir að hafa ekki leyst það verkefni.

Hjer hafa altaf legið fyrir svo mörg og stór verkefni, að það er hverri stj. ofvaxið að leysa úr þeim öllum, enda finst mjer, að engin stjórn þurfi að kvarta undan því, þótt skilin sjeu eftir verkefni handa henni til þess að framkvæma.