13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Magnús Torfason:

Jeg vildi aðeins taka það fram, að landsstjórninni kemur það talsvert við, hvernig komið er með þetta hús á Eyrarbakka. Jeg skal fullkomlega játa, að það er vandræðamál, en það er alls ekki svo að skilja, að sýslunefndin eigi ekki nokkra sök á því. Jeg verð að líta svo á, að það sje engu síður hlutverk landsstjórnarinnar að sjá um það, að þetta steinhús standi ekki þarna eins og einhverskonar minnisvarði yfir fyrri stríðsvitleysu, heldur en Eyrbekkinga, sem við þetta mál hafa fengist. Ástæðan til þess er sú, að hjer á þingi voru einu sinni veittar 80 þús. kr. til þess að fullkomna spítalann, en svo, í staðinn fyrir að nota þá peninga til þess, voru 50 þús. kr. af því fje látnar ganga til Íslandsbanka upp í skuld, sem á húsinu hvíldi. Jeg skal nú ekki deila um það, hver eigi sök á þessu. (MG: Hvenær var þetta?). Það var fyrir árið 1923, eða að minsta kosti fyrir þingið 1924. spítalinn hefði ábyggilega komist upp, ef fjeð hefði verið látið ganga til spítalabyggingarinnar.

Þetta kemur því ríkisstjórninni mikið við. Jeg lít svo á, að um spítalasjóð eigi að minsta kosti að fara svo, að hann missi einskis í, ef byggingin skyldi verða tekin til landsþarfa.