07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Minni hl. er sammála meiri hl. um það, að nauðsyn sje á að reisa nýtt betrunarhús: (SE: En letigarð?). Jeg kem að því seinna. En það er svo margt, sem þarf að gera hjer á landi, að spurningin er einkum, á hverju eigi að byrja og hvaða röð eigi að hafa á framkvæmdunum. Jeg skal viðurkenna, að betrunarhús verður að reisa áður en á löngu líður. En þetta frv. er enganveginn nægilega undirbúið. Það er heimild fyrir stj. til að verja 100 þús. kr. til að undirbúa og láta reisa betrunarhús o. s. frv. En ef slíkt hús á að reisa, svo að í lagi sje, nægja þessar 100 þús. kr. alls ekki. Og ekki heldur, þótt stj. hugsi sjer að taka Eyrarbakkaspítala, auk þess sem það er þá rangt í frv. að tala um að reisa betrunarhús, þegar húsið er reist. Jeg vil minna á alt það, sem ráðgert er að gera á næstunni. Það á að byggja strandferðaskip fyrir 700–800 þús. kr. Nýlega er búið að samþ. heimild fyrir stj. til að koma upp útvarpsstöð, sem ekki kostar minna en ½ miljón. Jeg veit og ekki betur en kaupa þurfi nýtt miðstöðvarborð fyrir landssímann, og eftir því, sem landssímastjóri segir, mun það kosta um ½ miljón. Líka er nauðsynlegt að bæta við símahúsið, og það kostar ekki minna en 200 þús. kr. svo er betrunarhús og letigarður áætlað í þessu frv. 100 þús. kr., en verður áreiðanlega miklu meira. Þá er landsspítalinn, sem ríkissjóður er með samningi skuldbundinn til að leggja stórfje næstu árin. Þá kemur sundhöllin, og þar er hluti ríkissjóðs 100 þús. kr. Enn mætti margt telja, t. d. framlag til byggingar- og landnámssjóðs, sem eflaust verður samþykt á þessu þingi. Rætt hefir verið um heimavistir við hinn almenna mentaskóla. Heimildarlög eru til um að leggja mikið fje í hafnargerð í Borgarnesi. Fyrir Alþingi liggur frv. til laga um heimild til að byggja hús undir opinberar skrifstofur. Það mundi kosta um 200 þús. kr. Jeg gæti eflaust fundið margt fleira, ef jeg leitaði vel.

Jeg sje engar líkur til, að öllu þessu verði komið í framkvæmd á næstunni. Því verður að vinsa úr það, sem mest þörfin er fyrir. En þörfin á betrunarhúsi er ekki svo brýn, þótt hún sje mikil, að ekki sje óhætt að bíða, meðan rannsakað er, hvar húsið á að vera og hvað kosta muni að koma því upp. Jeg er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að kostnaðurinn verður margfalt meiri en hjer er ráðgert, ef þessi stofnun á að verða svo góð, sem menn mundu kjósa og sem hún verður að vera. Það versta, sem hægt er að gera í opinberum framkvæmdum, er að vinna allskonar hálfverk, reisa stofnanir, sem altaf þarf að vera að lagfæra, en menn eru þó altaf óánægðir með.

Jeg lít svo á, að tal frumvarpsins um letigarð hafi litla þýðingu, og það því fremur, ef samþykt verður frv. það, sem fyrir Alþingi liggur, um að hegna mönnum, sem fyrir leti og slæpingsskap hafa ekki ofan af fyrir sjer. Með því að gera þetta að sjerstökum glæp — og það er síður en svo, að jeg hafi neitt á móti því — er ákveðið, að þessir menn skuli dæmdir til vistar í betrunarhúsi eða fangelsi, svo sem aðrir glæpamenn. — En ef þetta væri ekki gert að sjerstökum glæp og fara ætti að byggja yfir slæpingjana, þá væri þeim vissulega gert of hátt undir höfði. Þeir verðskulda sannarlega eitthvað annað frekar en að ríkið byggi undir þá stórhýsi. Þeir eiga hvergi betur heima en í steininum.

Að því athuguðu, hve margt þarf að gera á næstu árum, sýnast engar líkur til þess, að það tefji framgang málsins, þótt það verði athugað betur og lagt síðan fyrir næsta þing. Eins og á stendur, má það teljast nær óhugsandi hvort sem er, að nokkuð verði farið að gera fyrir þann tíma. Og jeg fyrir mitt leyti vil vita fyrir víst, hvað lagt er út í, áður en hafist er handa. — Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. dómsmrh. finnist sjer ekki sýndur neinn fjandskapur með afstöðu minni hl. allshn. í þessu máli, því að eftir orðum hæstv. forsrh. mega teljast litlar líkur til, að í bygginguna verði ráðist á þessu ári.