07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Magnús Torfason:

Jeg skal ekki fara út í deilu þá, er hjer hefir orðið milli nefndarhlutanna. Jeg veit, að þörf er á að auka hegningarvistir á Íslandi, og það nægir mjer til að fylgja þessu frv. — En jeg held, að það hafi ekki verið alveg rjett með farið hjá hv. 1. þm. Skagf., að slæpingjum væri gert hærra undir höfði en öðrum þegnum þjóðfjelagsins með því að byggja fyrir þá sjerstakt hús. Jeg hefi aldrei heyrt þess getið, að letigarðslimirnir væru sjerlega mikils metin stjett í neinu þjóðfjelagi, eða að keppikefli þætti að komast í þann samastað. Þvert á móti hefir fólki staðið stuggur af þessum stöðum, og þeir orðið öðrum til viðvörunar.

Ef litið er á ástandið hjer, þá er mjer sagt af skilríkum mönnum, að sumir þeirra, er hjer eiga að taka út refsingar, lifi í vellystingum praktuglega. Þeir eru að nafninu til settir í sjúkrahús, en koma moldfullir heim á hverju kvöldi. Það kalla jeg að gera glæpamönnum hærra undir höfði en öðrum borgurum, að láta þeim haldast þetta uppi.

Hæstv. dómsmrh. sagði hjer við l. umr., að Eyrarbakkalæknishjerað ætti ekki að standa ver að vígi vegna þess, að þetta hús væri tekið undir fangelsi, ef hjeraðsbúar vildu einhverntíma, byggja sjúkrahús við sitt hæfi. Þessi orð hæstv. ráðh. vil jeg undirstrika og lít svo á, sem þau sjeu samþykt af deildinni, ef enginn mælir á móti.