07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1543 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tek undir með hv. þm. Dal. um það, að mjer þykir undarlegt, að hæstv. stjórn skuli ekki vilja taka á móti rökstuddu dagskránni, því að hún er algerlega áreitnislaus í stjórnarinnar garð, eins og framsöguræða mín einnig var. Um það er enginn ágreiningur, að þörf sje á nýju betrunarhúsi. Það viðurkenna allir. En þar með er ekki sagt, að ráðast eigi í byggingu þess án nákvæmrar rannsóknar. Við í minni hl. allshn. höfum það eitt á móti betrunarhúsbyggingunni, að undirbúningur sje ekki nægilegur. Og það er viðurkent af hæstv. dómsmrh. Hann sagði, að rannsaka ætti málið í vor og í sumar. En hvernig á þá að vera búið að gera nokkuð fyrir næsta þing?

Hæstv. ráðh. talaði um, að sjúkir fangar hefðu verið geymdir í sjúkrahúsum, og líkaði það ekki vel. En það mun haft svo víða erlendis, og jeg sje ekki, að annað sje hægt við þá að gera, því að í vinnustofnun geta þeir ekki verið.

Það er að vísu rjett, að fangarnir geta oft ekki komist að þegar í stað, og að umsóknir hafa legið fyrir frá þeim um það. En það er nú svo, að þeir vilja fá að komast að, þegar best hentar þeim sjálfum. Þeir vilja síður vera inni á sumrin, um hábjargræðistímann, eins og þeir segja. En það er mikið vafamál, hvort rjett er að fara nokkuð eftir óskum sakamannanna í þessu efni. Mjer virðist, að um þetta beri aðeins að líta á þarfir og hentugleika þjóðfjelagsins, en ekki þeirra, sem sekir hafa orðið um lögbrot gegn því.

Jeg var á lögfræðingafundi þeim, sem hæstv. dómsmrh. talaði um, og fór hann rjett með, að þar var mikill áhugi fyrir fangelsismálum. En svo sem jeg sagði áður, eru engar líkur til, að fyrir næsta þing verði hægt að snúa sjer að nokkrum framkvæmdum, þar sem í svo mörg önnur horn er að líta.

Hæstv. dómsmrh, gaf það í skyn í ræðu sinni, að ríkissjóður myndi vinna upp aftur nokkuð af því fje, er hann lagði í Eyrarbakkaspítalann, ef að því ráði væri horfið að stofna þar betrunarhús og letigarð. Mjer þykir þessi orð hæstv. dómsmrh. meira en lítið vafasöm og að hann hafi í raun og veru tekið undir kröfu hv. 2. þm. Árn. Jeg held, að hæstv. dómsmrh. ætti heldur að halda því fram, að enginn annar en Landsbankinn eigi þetta hús, því ef ríkissjóður á eitthvert tilkall til þess, þá á Árnessýsla það líka með sama rjetti. Nei, slíkri kenningu ætti hæstv. ráðh. ekki að halda fram, enda er það svo, að enginn nema Landsbankinn á þetta hús, þar sem hann hefir keypt það á nauðungaruppboði.

Þá sagðist hæstv. ráðh. ekki búast við því, að þetta yrði nema til bráðabirgða, því síðar væri hugsanlegt, að hentugra þætti að taka þetta hús fyrir spítala handa þeim föngum, er veikjast. Jeg er hræddur um, að hyggilegra sje að rannsaka þetta mál alt betur niður í kjölinn en þegar hefir verið gert, áður en framkvæmdir eru hafnar í því. Og jeg er sannfærður um, að þó frv. verði samþykt nú, þá fer svo mikill tími til að rannsaka þetta mál til hlítar, að framkvæmdir verða ekki hafnar í því fyrir næsta þing. Kæmi þá að því leyti í einn stað, hvort frv. eða dagskrártill. verður samþ. Við þessa rannsókn gæti það og komið í ljós, að breyting og umbætur á Eyrarbakkahúsinu yrðu svo dýrar, að betur þætti borga sig að reisa nýtt hús á hentugum stað að nýju.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að slæpingjarnir ættu að vinna fyrir sjer í fangahúsunum. Þetta er rjett, og frv., sem hjer hefir verið til umr. áður, gerir einmitt ráð fyrir því, að slíkir menn sjeu látnir vinna. En það þarf ekki að stofna neina sjerstaka deild handa þeim, því þeir eru í raun og veru ekki annað en glæpamenn og þarf engan greinarmun á þeim að gera. Ef það á að fara eitthvað sjerstaklega með þá, þá er þeim að óþörfu gert hærra undir höfði en öðrum glæpamönnum, en jeg get ekki sjeð, að ástæða sje til þess.

Út af ræðu hv. 2. þm. Árn. þarf jeg ekki annað að segja en það, að mjer skilst, að hann vilji vernda rjett Árnesinga til þess að þeir á sínum tíma geti heimtað endurgreiðslu á því, er þeir hafa lagt í þetta hús á Eyrarbakka. Hann sagði ennfremur, að ef engin mótmæli kæmu fram gegn þessari kröfu, þá skoðaði hann það svo, að þá hefðu Árnesingar kröfurjett á hendur ríkissjóði um jafnhátt fjárframlag til nýs spítala og þeir hafa lagt í þennan spítala. Jeg skil það nú vel, að þessi hv. þm. vilji vernda rjett Árnesinga. Það er að vissu leyti eðlilegt. En ef uppfylla skal þessa kröfu, þá fer nú böggull að fylgja skammrifi, og gæti þá þetta hús orðið nokkuð dýrt, áður en lýkur. Hygg jeg, að hæstv. dómsmrh. megi ganga vel frá samningunum gagnvart Árnesingum. En eins og jeg hefi áður tekið fram, þá hygg jeg, að Árnessýsla eigi engan kröfurjett til þessa húss og að bæði sýslan og landið tapi tvímælalaust því fje, er þau höfðu lagt í spítalann. Jeg skal taka það fram í þessu sambandi, að legið hefir fyrir munnlegt tilboð frá Landsbankanum, að hann mundi selja húsið fyrir það verð, er hann gaf fyrir það, en það voru rúmar 20 þús. kr. Jeg vona, að hæstv. dómsmrh. geti við nánari athugun fallist á það, að dagskráin verði samþykt, þar sem lítil líkindi eru til, að tími vinnist til að hefjast handa um þessa framkvæmd fyr en eftir næsta þing.