07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hv. 2. þm. Árn., sem jeg að vísu heyrði ekki, þar sem jeg var bundinn við umr. í Ed., en mjer hefir verið sagt efnið úr, vil jeg taka það fram, að jeg er samdóma hv. 1. þm. Skagf. um það, að Árnesingar hafi engan kröfurjett til Eyrarbakkaspítalans. Jeg átti aðeins við það í ræðu minni áðan, að ef húsið væri tekið til notkunar af ríkinu, þá ynnist máske óbeint upp nokkuð af því fje, er ríkissjóður hefir til þess lagt og tapað, að því leyti sem ríkið gæti eignast þarna ódýrara fangelsi heldur en að þurfa að byggja upp að nýju. Jeg tel því, eins og hv. 1. þm. Skagf., að enginn eigi nú neina rjettarkröfu til þess, nema Landsbankinn.

Það er nú sannað, að þarna getur aldrei orðið spítali fyrir hjeraðið, vegna þess hve húsið var bygt óhæfilega stórt. En eins og ríkissjóður leggur nú fram fje til sjúkrahúsa í ýmsum hjeruðum, þá er og sjálfsagt, að Árnesingar fái styrk til sjúkrahúss, þegar þeir fara fram á það og leggja fje á móti, auðvitað án tillits til þess, er þeir hafa áður lagt í Eyrarbakkaspítalann.

Þá skal jeg geta þess, að jeg tel ekki rjett að samþykkja rökstuddu dagskrána, sem fyrir liggur, um að vísa málinu til stjórnarinnar til undirbúnings fyrir næsta þing. Jeg álít þetta mál svo aðkallandi, að flýta þurfi framkvæmd þess, eftir því sem rannsókn leyfir. Málið hefir nú þegar verið rannsakað nokkuð, en þarf þó enn frekari rannsóknar við, og leiði sú rannsókn það í ljós, að hagfelt sje að byrja þetta verk, þá er ekki rjett að binda framkvæmd þess sumarlangt. Jeg vonast til, að hv. 1. þm. Skagf. rengi ekki umsögn bæjarfógetans hjer í Reykjavík, og viti það enda sjálfur sem fyrv. dómsmrh., að framkvæmd hegningarlaganna er í aumasta ólestri. Greinar, sem birst hafa í dagblaðinu „Vísi“ undanfarna daga og eru eftir guðfræðing einn hjer í bænum, sýna líka, að frá því sjónarmiði, sem þar er lýst, er ástandið, sem nú er, alveg óviðunandi.

Jeg vil bæta við einni röksemd enn, sem styður það mál, að þessari hegningardeild verði komið upp í þessum stað. Einhverjir mestu erfiðleikarnir á að skipa þessu máli vel eru fólgnir í því, hve fámenn þjóð vor er, og að — sem betur fer — fáir eru dæmdir fyrir glæpi. Er því erfitt að ná því marki, sem aðrar þjóðir, t. d. Danir, keppa nú að, en það er að flokka fangana eftir aldri, kyni o. fl., þannig, að það fólk eingöngu sje saman í fangelsi, sem líkt er ástatt um, t. d. unglingar í einni, fullorðnir í annari og forhertir glæpamenn í þeirri þriðju o. s. frv. Það er því margt, sem mælir með því að hafa ekki alla fanga saman á einum stað. T. d. þurfa letingjar að jafnaði ekki sömu aðbúð sem morðingjar og stórþjófar. Að vísu er hjer lítið um morðingja, sem betur fer, en getur þó altaf komið fyrir, sje þessi skifting höfð í huga, er sennilegt, að skoðun mín og bæjarfógetans hjer í Reykjavík sje rjett, að sje Eyrarbakkaspítalinn lagfærður fyrir hegningarhús, þá muni hann duga um nokkurt árabil, en að síðar megi svo nota hann sem eina deild fangelsa, t. d. sem letigarð og sjúkrahús. — Eins og nú er, þá eru hin mestu vandræði með að geta látið sjúkrafanga taka út hegningu. svo er það t. d. með berklafanga. Jeg get tekið það sem dæmi, að í fyrradag var berklaveikur maður dæmdur í eins árs fangavist. Nú hefir lögfræðingur einn farið fram á það, að hann verði náðaður, og færði fram sem rök fyrir þeirri beiðni, að hann færi hvort sem væri aldrei í „steininn“. Aðstaðan er því ekki góð, þar sem aðstandendur mannanna koma og segja þetta með fullum rjetti. Hvað skal gera, þegar ekkert húsnæði er til fyrir þessa menn? Er þá ekki hreinlegast að náða þá? Í raun og veru er hegningarlöggjöf okkar brotin á bak aftur með þessu ástandi. — Jeg veit, að hv. 1. þm. Skagf. er vel kunnugt um þessa erfiðleika, því það mun hafa komið fyrir áður, að berklasjúklingar, sem höfðu læknisvottorð, hafa verið látnir sleppa við refsingu. Og það er ekki hægt að átelja það, því aðstaðan leyfði í raun og veru ekki annað.

Jeg vil segja hv. þm. Dal. það, að hans góða hjarta hefir leitt hann á glapstigu í þessu máli. Hann vill ekki, að slæpingjunum sje hegnt sem hverjum öðrum afbrotamönnum þjóðfjelagsins og finst það bera vott um hörku og tilfinningaleysi, ef svo er gert. En hjer erum við hv. 1. þm. Skagf. á sama máli, og sennilega meiri hluti þingsins. Og jeg get sagt hv. þm. Dal. það, og vil fullyrða það, að þeir menn, sem eiga börn, skilgetin eða óskilgetin, og vilja á engan hátt vinna fyrir þeim, eru viss tegund afbrotamanna. En þessum mönnum, sem þannig hafa brotið við þjóðfjelagið, hefir ekki verið hægt að hegna, vegna þess, að alla aðstöðu til þess hefir vantað. En nú er þingið sammála um það, að þetta sje hegningarvert. Og þessu er einnig fylgt með athygli af hugsandi mönnum víðsvegar um land, og það jafnt íhaldsmönnum sem öðrum. Einn flokksmaður hv. 1. þm. Skagf. sagði t. d. við mig núna rjett fyrir fundinn, að hann ætlaði að greiða atkvæði með dagskránni, af þeirri ástæðu einni, að sjer þætti jeg vera of seinlátur í þessu máli. Hann vildi setja letigarðinn strax á fót. Þetta er því áreiðanlega ekki gert gagnstætt vilja þjóðarinnar, að hrinda þessu máli í framkvæmd. En markmiðið með því og aðalgagnið, sem af því ætti að leiða, er þó ekki það, að hafa þarna fult hús af slæpingjum, heldur hitt, að við svona fangelsi ætti þessum mönnum að fækka.

Það, sem mælir með því að taka Eyrarbakkaspítalann til þessa, er meðal annars það, að kringum kauptúnið er ágætt kartöfluland, og auk þess hefir Landsbankinn lofað að selja jörð, sem liggur að spítalanum og vel er fallin til ræktunar. Þarna má því vinna að kartöflurækt og almennum búskap, a. m. k. til framleiðslu handa föngunum. Á vetrum má svo vinna að smíðum, vefnaði o. fl., og auk þess að vegagerð, sjóvarnargörðum, girðingum, sandgræðslu o. fl. skilyrði fyrir vinnu eru því ágæt þarna. Hið eina, sem enn þarf fyllri rannsóknar við, er það, hvort það muni borga sig að nota þetta hús, vegna þeirra breytinga, er verður að gera á því.

Jeg vil því biðja hv. þdm. að athuga það, að ef þeir fella dagskrá minni hl., en samþykkja frv., sýna þeir a. m. k. viðleitni til þess að láta fylgja fram lögum landsins.