07.03.1928
Neðri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (602)

12. mál, betrunarhús og vinnuhæli

Magnús Torfason:

Jeg verð að játa, að orð hæstv. dómsmrh. fjellu nokkuð kuldalegar en jeg hafði búist við. Rjett eins og hann hefði orðið fyrir áhrifum af gusti þeim, er stóð af hv. 1. þm. Skagf. til Eyrarbakkaspítalans. En jeg verð að minna hæstv. dómsmrh. á það, — reyndar hjelt jeg, að hæstv. dómsmrh. væri svo minnugur, að þess myndi ekki þurfa —, að Árnesingar eiga í þessu máli nokkra hönk upp í bakið á ríkinu. Það stendur svo af sjer, að ríkið hafði lofað 80 þús. kr. til þess að fullgera spítalann. En af þeirri upphæð voru teknar 50 þús. kr. og látnar í hít Íslandsbanka, án þess til væri ætlast og þvert á móti mínum vilja og tillögum. Ef þessar 50 þús. kr. hefðu verið látnar ganga til spítalans, eins og vera bar, þá væri hann nú kominn upp og fullgerður. Hæstv. dómsmrh. sagði, að spítalinn hefði verið reistur svo stór, að hann hefði orðið hjeraðinu ofviða. Þetta er nú rjett að vissu leyti. Hjeraðið hefði ekki verið þess megnugt að kosta rekstur hans fyrst um sinn. En þess hefði heldur ekki þurft, því það lá fyrir tilboð um það frá St. Josephssystrum að sjá um rekstur spítalans, þegar hann væri kominn upp, hjeraðinu að kostnaðarlausu.

Það er ekki rjett farið með hjá hv. frsm. minni hl. (MG), þar sem hann taldi, að jeg hefði krafist fullrar endurgreiðslu á öllu því fje, er lagt hafði verið fram í spítalann. Jeg sagði aðeins, að sýslan mætti einskis í missa, og ef hún rjeðist að nýju í spítalabyggingu, þá þyrfti hún að fá sitt endurgreitt. En það sjá allir, hver munur væri á að reisa sjúkrahús með 10 rúmum eða þetta, sem átti að hafa 36 rúm. Jeg vænti nú, að þessar upplýsingar hafi dregið kuldann úr svari hæstv. dómsmrh., svo svar hans verði hlýrra næst.

Jeg sje ekki, hvað það getur skaðað, að frv. þetta verði gert að lögum, því það stendur ekki einungis í frv., að stjórnin skuli fá heimild til að reisa betrunarhús og letigarð, heldur líka, að hún skuli láta rannsaka málið, en til þess þarf fje. Er því rjett að samþykkja þetta frv. þegar á þessu þingi.