10.02.1928
Efri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1559 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

25. mál, kynbætur nautgripa

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv., sem er stjórnarfrumvarp, er í öllum aðalatriðum sniðið eftir lögum um kynbætur hesta, sem samþ. voru á Alþingi 1926. Landbn. hefir athugað frv. og lítur svo á, að ekki sje minni þörf á að kynbæta nautgripi en hross, og því fremur beri að snúa sjer að því, sem líkindi eru til þess, að fljótari og betri árangur náist af kynbótum nautgripa en hrossa, þar sem þessir gripir eru undir daglegu eftirliti og umsjá manna.

Löggjafarvaldið hefir áður sýnt, að það telur vel forsvaranlegt að setja ákvæði og fyrirskipanir um þessi mál. Og með því að landbn. felst á þetta frv. í öllum aðalatriðum, leggur hún til, að það sje samþykt. En hún leyfir sjer jafnframt að koma fram með 3 brtt., sem hún telur rjett, að verði samþ.; þær gera á frv. nokkrar, en þó ekki stórvægilegar breytingar.

1. brtt. er við 2. gr. frv. og er aðeins málsrjetting.

2. brtt. er við 3. gr. frv., en þar eru fyrirmæli um það, hvernig kynbótanefnd eigi að koma fyrir kynbótum innan síns hrepps. Er svo að orði komist, að hún skuli kaupa eða taka á leigu undaneldisgripi, eftir því sem hún hefir heimild til og telur rjett, og verður að skilja svo, að ekki sje hægt að fara fleiri leiðir. En nefndinni virtist 3. möguleikinn vera fyrir hendi og vill nú opna þá leið með þessari brtt. Er þá gert ráð fyrir, að kynbótanefnd geti samið við einstaka menn um, að þeir haldi undaneldisnaut fyrir víst gjald á hverja kú, er þeir sjálfir innheimti eða kynbótanefnd fyrir þeirra hönd. Þetta ætti að verða allmikil fyrirgreiðsla fyrir kynbótanefnd, að komast hjá að taka naut í sínar vörslur og sjá um fóður og hirðing á þeim.

Í þessari sömu brtt. er ný málsgrein, sem nefndin telur nauðsynlegt að setja inn. Hún ræðir um þá hreppsbúa, er búa einangraðir og geta þar af leiðandi ekki notað sama naut handa kúm sínum og aðrir sveitarbændur. Það er alkunna, að sumar jarðir eru svo afskektar, að bændur, sem þar búa, verða að hafa undaneldisgripi fyrir sig. En þar sem frv. kveður svo á, að þann kostnað við kynbótastarfsemina, er fram úr fer 8 kr. á kú, skuli greiða úr sjóði viðkomandi hrepps, þykir landbn. varhugavert að láta þetta ákvæði ná til bænda, er svo er um háttað sem fyr segir. Það gæti orðið ekki alllítil fúlga, er hreppssjóður yrði þannig að borga, ef honum væri skylt að greiða kostnað við fóðrun nauts, er notað væri aðeins til fárra kúa. Þykir því rjett, að kynbótanefnd hafi leyfi til að undanskilja þá bændur, er ekki geta notað naut í samlögum við aðra.

3. brtt., sem landbn. flytur og er við 7. gr. frv., er í raun og veru aðeins afleiðing af 2. brtt. Ef kynbótanefnd semur við einstaka menn um nautahald, svo sem brtt. við 3. gr. fer fram á að heimilað sje, þá má gera ráð fyrir, að nautaeigendur hafi sjálfir innheimtu á hendi.

Jeg hefi þá skýrt þær breytingar, er landbn. vill gera á þessu frv., og þarf ekki að segja fleira um málið að sinni.