27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

25. mál, kynbætur nautgripa

Halldór Stefánsson:

Mjer skilst á áliti landbn. um þetta frv., að henni þyki samþ. þess vera örðugleikum og annmörkum bundin. Nefndin fer þó ekkert inn á það, í hverju örðugleikarnir eru fólgnir. Mjer líst, eins og hv. nefnd, að örðugleikar á framkvæmdum nautgripakynbóta á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, sjeu æðimiklir. En jeg álykta út frá þeirri skoðun minni nokkuð á annan veg en nefndin hefir gert. Hún vill samþ. frv., en það vil jeg ekki. Frv. er sniðið eftir lögum um hrossakynbætur. En hjer gegnir nokkuð öðru máli, því að það er miklu erfiðara að fylgja þeim reglum, sem lögin setja um nautgripi, en hross. Auk þess vil jeg benda á það, að svo mikill kostnaður og óþægindi mundu fylgja slíkum reglum, að jeg tel mjög vafasamt, að það vinnist upp með þeim ávinningi, sem jeg skal ekki neita, að gæti fengist. Naut yrðu ekki fóðruð á sumrin nema í girðingu eða húsum. Gömul naut yrðu varla fóðruð nema í húsum, því að girðingar væru ekki tryggar og ekki hættulaus umferð um þá staði, þar sem þau ljeku lausum hala, ef þau slyppu úr girðingu. Vegna þess hve hæpið er að eiga undir að þurfa að sækja naut um langan veg, þá mundi þurfa margar girðingar og það yrði mjög kostnaðarsamt, svo að það nær engri átt, að þær 8 kr., sem gert er ráð fyrir í frv., hrökkvi til kostnaðarins. Vegna kostnaðarins er jeg hræddur um, að menn mundu reyna að hafa nautin sem fæst, en þá gæti hæglega komið fyrir, að kýr mistu fangs, en af því mundi leiða meira tjón en sem nemur þeim ávinningi, sem af lögunum yrði. Það hefir verið í lögum heimild um samþyktir fyrir nautgriparæktarfjelög, en lítið verið notuð. Þó hefir nokkur reynsla fengist um árangur, og hefir komið í ljós, að hann hefir verið mjög seinvirkur. Mjer er sagt, að meðalnyt í nautgriparæktarfjelögum sje 2200 lítrar. Jeg á bágt með að trúa þessu, því að fyrir mörgum árum var talað um, að hún væri þetta sama. Mjer þykir ólíklegt, að engin framför hafi orðið. En til samanburðar skal jeg geta þess, að jeg veit um fjölda bænda, sem eru ekki í nautgriparæktarfjelögum og vildu ekki eiga þær kýr, sem ekki mjólkuðu meira en þetta.

Mjer finst mjög tvísýnt, að þetta beri að setja í lög nú þegar. Jeg veit ekki til, að bændur úti um land hafi nokkuð rætt um þetta fyrirkomulag sín á milli, og þeir búast alls ekki við lögum eins og þessum. Jeg skal ekkert um segja, að svo geti ekki farið, að menn vilji fallast á þessar tillögur seinna meir, og þá ef til vill eitthvað breyttar. En óneitanlega hefði mjer þótt viðkunnanlegra, að bændur fengju að melta þetta svolítið með sjer, áður en það yrði sett í lög.

Jeg fæ ekki sjeð, að brýna nauðsyn beri til að samþykkja þetta frv. endilega nú á þessu þingi, og með skírskotun til þess, er jeg hefi þegar sagt, vil jeg leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi rökst. dagskrá:

Þar sem framkvæmd nautgripakynbóta eftir ákvæðum frv. þessa er sýnilega ýmsum annmörkum og erfiðleikum háð og bændur landsins hafa ekki átt kost á að láta uppi álit sitt um efni frumvarpsins, þá þykir deildinni ekki rjett, að frv. verði afgreitt á þessu þingi, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.