27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

25. mál, kynbætur nautgripa

Frsm. (Lárus Helgason):

Mjer finst hv. 1. þm. N.-M. (HStef) líta nokkuð svörtum augum á þetta frv. og erfiðleikana, sem jeg skal játa, að eru talsverðir í sambandi við framkvæmd þeirra ákvæða, er það setur. Hv. þm. mintist á, að miklar girðingar þyrfti fyrir nautin til þess að þau væru í fullri vörslu. Jeg er þeirrar skoðunar, að slíkt sleifarlag hafi til þessa átt sjer stað hvað það snertir, að tími sje til kominn að bæta úr því, þótt það kunni að kosta nokkurt fje. sömuleiðis bjóst hv. þm. við, að margfalda þyrfti þann 8 króna skatt, sem gert er ráð fyrir í frv., að greiða skuli á hverja kú. Jeg er ekki á þeirri skoðun, og það því síður, sem gert er ráð fyrir í frv., að sveitarfjelagið komi til, ef þessar 8 kr. nægja ekki. Þá er að vísu gengið út frá því, að þetta mál sje þess virði, að það borgi sig fyrir sveitarfjelagið í heild að ljetta undir með einstaklingunum um þann kostnað, er af því kann að leiða.

Hv. þm. dró í efa eftir upplýsingum um nautgriparæktarfjelögin, að starfsemi þeirra hefði borið svo mikinn árangur, sem menn hefðu vænst. Um þetta er mjer að vísu ókunnugt, en býsna ótrúlegt þykir mjer það. Við vitum það allir, að það er misjafnt með einstaka gripi, hversu mikið afurðamagn þeirra er. Og þá væri stórt spor stigið, ef það tækist á nokkrum tíma að bæta kúakynið svo, að lökustu kýrnar væru ekki verri en þær betri nú.

Eins og jeg tók fram áðan, þá eru erfiðleikarnir ekki svo gífurlegir sem af er látið. Í 2. málsgr. 3. gr. frv. er tekið fram, að þeir, sem búa svo afskektir, að þeir geta ekki notað naut í samlögum við aðra, skuli vera undanþegnir því að vera háðir þessum lögum. Jeg tel víst, að þetta ákvæði megi nota nokkuð víða.

Jeg fæ ekki betur sjeð en full þörf sje á að rumska eitthvað við því framkvæmdaleysi, sem ríkt hefir og ríkir á þessu sviði búnaðarmálanna. Jeg vænti þess því, að hv. 1. þm. N.-M. verði við tilmælum hæstv. forsrh. að geyma dagskrártill. til 3. umr. og að hv. deild fallist þá ekki á hans rökst. dagskrá, heldur á frv.