27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

25. mál, kynbætur nautgripa

Hákon Kristófersson:

Jeg get tekið undir það með hv. frsm. (LH), að tilgangurinn með þessu frv. er sjálfsagt góður, en jeg sje ekki, að þeim góða tilgangi verði náð með frv. eins og það er úr garði gert. Mjer virðist sem sje engin trygging fyrir því, að ekki verði notuð til undaneldis hvaða kálfótugt sem vera skal. Að þessu leyti er frv. ólíkt lögunum um kynbætur hesta. Kynbótanefnd þarf að hafa heimild til að ákveða, hvaða gripir skuli notaðir til undaneldis. Meðan slík heimild er ekki í lögum, koma þau að litlu eða helst engu haldi.

Í því bygðarlagi, þar sem stofnað væri til kynbótastarfsemi eftir fyrirmælum frv., er líklegast, að nokkrir menn gengju í fjelagsskap í því skyni, en aðrir bændur hirtu ekki um að notfæra sjer það hagræði, er þeim mætti hlotnast af þessu að mínu áliti nauðsynlega máli. Þar af leiðandi mundu tekjur reynast miklu minni en hugsað er með frv. að ná upp í fóður- og hirðingarkostnað af kynbótanauti.

Þar, sem jeg þekki til, hefir mikið gott leitt af slíkri starfsemi sem þeirri, er löggjöfinni er hjer ætlað að hrinda af stað og styðja. En ef vilji manna er ekki almennur, þá er lítil von til, að frv. bæti úr ágöllum, sem nú eru á ástandinu.

Jeg vildi mega skjóta því til hv. nefndar, hvort hún telji ekki hæfilegt að athuga frv. til 3. umr. viðkomandi þeim atriðum, sem jeg hefi nú bent á. Mjer hefir hugsast, að eftir 1. málsgr. 3. gr. mætti koma ákvæði eitthvað svipað þessu: og er öllum óheimilt að nota önnur naut en þau, er kynbótanefnd hefir gefið samþykki sitt til að nota mætti. Ef einhver tryggingarákvæði sem þessi vantar í frv., þá verður tilgangi þessarar löggjafar tæplega náð, eins og jeg hefi þegar bent á. Jeg er sammála hv. 1. þm. N.-M. (HStef), að 8 kr. gjaldið er helst til lágt, og sjerstaklega mun það reynast svo, ef samlagsmenn um kynbæturnar eru fáir. Þetta vil jeg biðja hv. nefnd að athuga til næstu umr., því að það er sýnilegt, að það vantar í frv. ákvæði í þá átt, er jeg hefi bent til.