29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1574 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

25. mál, kynbætur nautgripa

Hákon Kristófersson:

Jeg mun ekki gera þetta deiluatriði að kappsmáli frá minni hálfu. Jeg get ekki gert að því, þótt hv. landbn. líti öðrum augum á það en jeg. Hún um sína skoðun. En jeg vil aðeins leyfa mjer að skjóta því undir dóm háttv. þingdeildarmanna, sem sennilega lesa frv. — en það verð jeg að freistast til að halda, að háttv. landbn. hafi ekki gert —, hvort nokkur þau ákvæði felist í frv., sem jeg legg til í brtt. á þskj. 323, að bætt sje inn í það og jeg verð að álíta ómissandi tryggingarráðstafanir. Í 5. gr. frv. vísar háttv. frsm. (LH). En þar er ekkert bann við því að nota þá undaneldisgripi, sem manni sýnist, svo fremi þeir ekki geri öðrum skaða. Pjetur eða Páll má hafa til notkunar hvaða óskapnað, sem hægt er að fá í nautslíki; ef hann álítur það nóg, þá hann um það. Í 3. gr. frv. segir, að kynbótanefnd skuli tilkynna hreppsbúum ráðstafanir sínar. En ekki er bannað hverjum, sem vill fara utan hjá, að hafa þær ráðstafanir að engu.

Jeg hefi gert mitt til að ráða bót á þessu. Það er opinn vegur að heimila nautahald, einungis ef kynbótanefnd samþykkir. Háttv. landbn. hyggur sig hafa sett sig inn í málið, en leggur þó til að samþykkja einskisverða löggjöf um það. En einskisvert kalla jeg þetta frv., ef það á fram að ganga án einhverra líkra ákvæða og brtt. mínar fela í sjer.