29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

25. mál, kynbætur nautgripa

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir leitt, að háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) hefir við nánari athugun komist að þeirri niðurstöðu, að rjett væri að halda fast við dagskrártill. sína. Því miður heyrði jeg ekki, hvað hann færði því til stuðnings. En jeg vil minna á út af þeirri atkvgr., er nú fer í hönd um það, hvort vísa skuli frá þessu máli eða ekki, að það er þegar vel undirbúið og kemur frá rjettum aðilja, sem er Búnaðarfjelag Íslands. Og það ætti ekki síst að hvetja til löggjafar sem þessarar, að hliðstæð lög um kynbætur hrossa hafa verið sett fyrir skömmu og borið mikinn og góðan árangur um land alt.

Háttv. þm. (HStef) sagði seinunnar kynbætur á nautgripum og nefndi til dæmi. En reynsla annara þjóða í þessu efni er sú, að þær sjeu öruggar, ef rjett er að farið. Og nythæð og afurðamagn má hækka um 25–50%. Í fótspor þeirra eigum við að feta með aðstoð þess opinbera. Með þeim leiðbeiningum, sem til þarf, fáum við þessu framgengt. Að við höfum ekki náð eins langt og aðrar þjóðir, er meðal annars því að kenna, að ekki hefir. verið að því unnið með eins myndarlegum ráðstöfunum.

Háttv. þm. (HStef) hjelt því fram, að það væri heldur snemt ennþá að setja þessi lög, en var ekki frá því, að seinna gæti það komið til mála. Jeg skal ekki um það deila. Jeg hefi með mjer þá, er að þessum málum hafa starfað og mesta þekkingu hafa á þessu sviði.

Um brtt. á þskj. 323 get jeg sagt það, að hún spillir ekki til, og hefi jeg ekkert við að athuga, að hún verði samþykt.