29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

25. mál, kynbætur nautgripa

Frsm. (Lárus Helgason):

Hv. þm. Barð. (HK) endaði ræðu sína með því að segja, að þetta frv. yrði ónýt lög, ef brtt. sínar kæmust ekki að. Þykir mjer hann taka nokkuð mikið upp í sig þar. Hann getur auðvitað sagt, að sjer sýnist svo. En landbn. sýnist brtt. hans óþarfar.

Þá vil jeg svara háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) fáum orðum, þótt hæstv. atvmrh. (TrÞ) hafi tekið fram nokkurnveginn það, er jeg vildi sagt hafa. Hv. þm. (HStef) var að tala um árangur af kynbótum nautgripa samkvæmt heimildarlögunum gömlu, og kvaðst vita til þess, að hann væri næsta lítill. Um það má deila. Jeg get eins sagt, að hann sje mikill. Kynbótafjelag hefir starfað 15–20 ár í mínu kjördæmi, Mýrdal, og kunnugra manna dómur er sá, að kúakyn hafi mjög batnað á þeim slóðum þessi ár. En það er satt, að þessi heimildarlög eru helst til þung í vöfum og hafa ekki komið að fullum notum nema á fáum stöðum.

Eins og hæstv. atvmrh. hefir þegar tekið fram, er ekki hægt að segja annað en það, að þetta mál er komið frá rjettum aðilja, Búnaðarfjelagi Íslands. Um hitt má lengi deila, hvenær það sje nægilega undirbúið. Ef bíða á þangað til allir bændur í landinu hafa verið spurðir álits, mundi það tefja framgang málsins meira en góðu hófi gegndi. Tel jeg það ekki rjetta leið.

Það er vitanlegt, að við bændur erum alt of daufir til framkvæmda, sem við þó jafnvel vitum að eru nauðsynlegar og arðvænlegar. Jeg sje því ekkert á móti því, að við fáum dálítið aðhald, til þess að koma því í verk, sem horfir okkur til heilla. Þótt það kosti fje og fyrirhöfn, er ekki í það horfandi.

Háttv. 1. þm. s.-M. (SvÓ) tók í sama streng og háttv. 1. þm. N.-M. (HStef). Hann vill láta bændur ráða sjálfa um framkvæmdir í þessu, hvern fyrir sig. Telur sig því fylgjandi hinni rökstuddu dagskrá og vill ekkert láta aðhafast í málinu.

Það má benda á, að heimildarlögin hafa svo lítið verið notuð, að árangurinn er ekki að marka. Áhugi manna þarf að skerpast fyrir þessu nauðsynjamáli, og hann gerir það best með því, að bændur fái það aðhald, sem í þessu frv. felst, verði það að lögum.

Um brtt. háttv. þm. S.-Þ. (IngB) er það að segja, að jeg get frekar fallist á hana en brtt. háttv. þm. Barð. (HK) eins og hún kemur fyrir. Jeg veit að vísu ekki, hvað landbn. í heild sinni hefði sagt, ef hún hefði um hana fjallað. En mín vegna má brtt. gjarnan ná fram að ganga, þó að jeg telji hana ekki nauðsynlega.