28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) ljet mig verða aðnjótandi lítils hluta af sinni fyrstu ræðu, en með því að svo stendur á, að hann á sem ráðherra að svara fyrir 2/3 hluta af síðasta ári, þá vona jeg, að hann taki mjer það ekki illa upp, þó að jeg fari fyrst í eldhúsið til hans.

Jeg ætla að byrja á því máli, að í seinni ráðherratíð hv. 1. þm. Skagf. — jeg ætla ekki að tiltaka hve snemma — kom fyrir sú furða í stjórnardeild hans, að hann sá sig neyddan til að bera skrifstofustjóra sinn ofurliði um afgreiðslu máls, sem var svo ófrægilegt, að skrifstofustjóri neitaði að fást nokkuð við það. Niðurstaðan varð sú, að ráðherra fjekk aðra hjálp til að afgreiða málið.

Í atvinnumálaráðuneytinu er sjóður, sem nefnist fiskiveiðasjóður. Hann er ekki mjög stór, en hlutverk hans er að styðja hinn smærri útveg. Honum er í orði kveðnu stjórnað af atvinnumálaráðherra, en í framkvæmdinni af skrifstofustjóra. Nú hefir verið fylgt svo mikilli gætni um stjórn sjóðsins, að ekkert hefir tapast úr honum, nema eitt lán, sem jeg ætla nú að skýra frá. Þessu láni var þannig háttað, að það var veitt manni hjer í bæ til rekstrar trjekyllis nokkurs með gufuvjel, er „Stefnir“ hjet. Þessi maður virðist hafa haft mjög góða aðstöðu hjá þáverandi hæstv. ráðherra, því að ráðherrann lætur hann hafa allmikla upphæð — mig minnir 15 þúsund krónur — úr sjóðnum. En þegar að afgreiðslu lánsins kom, neitaði skrifstofustjóri að framkvæma hana, af því að hann sá, að eitthvað var gruggugt við þetta. Nú ætla jeg ekki að fara út í það, sem kunnugir menn álíta, að gert hafi verið og sem ráðherra hefir eflaust ekki vitað um, að mikið af láninu hafi verið látið upp í skuld til málafærslumanns hjer í bænum, sem er háttstandandi flokksbróðir þáverandi ráðherra. Af skipinu er það að segja, að það fór á veiðar, en alt gekk í hinum mestu handaskolum. Skipið reyndist ónýtt og á það hlóðust sjóveð, sem landið verður að leysa út með nýjum og nýjum upphæðum, þannig að nú hvíla á því um 30 þúsund krónur. Það er of dýrt að hafa það á floti og niðurstaðan er sú, að það er dregið upp í dráttarbrautina í Vesturbænum, og þar stendur það, en ríkissjóður borgar með því 200 kr. á ári. Það er einkum eftirtektarvert við þetta Stefnislán, að hinn gætni og reyndi skrifstofustjóri, Oddur heitinn Hermannsson, hafði frá upphafi á láni þessu hina mestu andstygð og var þess fullviss, að það mundi tapast. Eins og jeg tók fram áðan, er þetta lán einsdæmi á tvennan hátt. Fyrst og fremst af því, að ráðherra hefir veitt það í trássi við skrifstofustjóra sinn, og í öðru lagi af því, að tapast hefir tvöföld upphæð frumlánsins. Jeg vil nú skora á hv. þm. að skýra frá því, hvaða hvatir komu honum til að veita þetta lán og hvort hann hefir einhverjar frambærilegar afsakanir fyrir þessum verknaði.

Þá kem jeg að máli, sem við höfum báðir haft afskifti af, máli, sem jeg tók að erfðum eftir hann. Það hefir ekki mikið verið talað opinberlega um þetta mál hjer á landi, en því meira erlendis. Og á meðan fyrverandi hæstv. ráðherra hafði afskifti af málinu, var það umtal síst til þess fallið að auka virðingu manna fyrir landsstjórninni íslensku eða landhelgigæslunni.

Í júlí í fyrra strandaði enskur togari, „Ohm“ að nafni, við Skaga milli Skagafjarðar og Húnaflóa. Strandið var ekki sjerlega alvarlegt og miklar líkur voru til, að skipinu yrði náð út. „Óðinn“ kom á vettvang og reyndi að ná því út, en gafst upp í bili og hvarf á burtu. Á meðan kemur annar enskur togari frá sama fjelagi og sá, er strandaði, og hjálpaði honum til að losna við kol og ís, og brátt tekst þessum togara og Óðni að draga skipið út og kemst það leiðar sinnar. Nú kom til kasta hv. 1. þm. Skagf. að ákveða, hvað ríkið skyldi taka í bætur. Hann mun hafa álitið, að hjer væri um góðan feng að ræða fyrir landhelgisjóð og skipherrann, sem fær helming af björgunarlaunum skipshafnar. Hann gerði ráð fyrir, að skipið væri meira en 200 þúsund króna virði og ljet Englendinga vita, að 50 þúsund krónur mundi stjórninni þykja sómasamlegt að fá fyrir hjálp varðskipsins. En þegar enska ábyrgðarfjelagið frjettir þetta, snýst það ókunnuglega við og þykir furðu gegna, að íslensk strandvarnarskip skuli leigja sig þannig út. Það neitar að borga upphæðina og heldur því fram við stjórnina, að krafan sje óvanaleg og mundi talin lítt sæmandi meðal siðmentaðra þjóða, því að slík skip selji ekki að jafnaði hjálp sína. Íslenska stjórnin reynir að halda kröfum sínum til streitu og lætur virða skipið. Við undirmat er það virt á 130 þúsund krónur, en við yfirmat á 127 þúsund kr. Þó voru í matsnefnd formaður Fiskifjelagsins og Jessen skólastjóri, svo að áhersla virðist hafa verið lögð á að leita álits sjerfróðra manna. Eftir þetta lækkar stjórnin kröfu sína, eins og gyðingur á prangsölu, niður í 20 þús. krónur. Farið er að skrifa í ensk blöð um málið og framferði stjórnarinnar talið hið mesta hneyksli og vöntun á mannasiðum. Þótti þetta svo mikil tíðindi, að 2000 kr. fóru í skeytagjald milli Íslands og Englands út af máli þessu! Niðurstaðan af öllu þessu varð sú, að stjórnin sá sig tilneydda að lækka enn kröfu sína niður í 12 þúsund krónur. Þannig stóðu sakir, þegar ráðherra fór frá.

Það, sem hjer hafði verið gert gagnvart þessari merku nábúaþjóð, var þess eðlis, að sennilegast var, að hún fengi ekki annað skilið en sömu skipin væru höfð til þess að elta uppi lögbrjótana við Íslandsstrendur og til þess að okra á björgun, ef eitthvert útlent veiðiskip væri svo óheppið að stranda á íslenskri strönd. Við hinu fyrra gátu útlendingarnir vitanlega ekkert sagt. Þar erum við í okkar fulla rjetti. En hvað snertir hið síðara, þá á jeg ekki nógu sterk orð til þess að lýsa andstygð minni á þessu atferli hæstv. fyrv. ráðherra; á þeim gyðingshætti, er hann þarna beitti. Hvers er að vænta á öðrum sviðum? Verður að segja það til hróss lögfræðingunum hjer í bænum, að mörgum þeirra þótti framkoma íhaldsstjórnarinnar hrein og bein landsminkun.

Þegar jeg hafði tekið við stjórnarstörfum, varð jeg þess áskynja, að hjer hefðu verið brotnar alþjóðavenjur. Jeg aflaði mjer upplýsinga gegnum sendiherraskrifstofuna í Kaupmannahöfn og hjá Jóni Krabbe konungsritara og erlendum mönnum, fróðum í þessu efni. Niðurstaðan af þeim upplýsingum varð sú, að það væri vonlaust að halda áfram stefnu hæstv. fyrv. stjórnar. Fyrir því væri ekkert fordæmi. Englendingar þekkja ekki annað en það, að slík skip, sem eru í þjónustu landsins, telji sjer ekki sæma það að selja sig á þann hátt, er hjer hafði verið gert. Þeir líta líkt á þetta háttalag og það, ef forstjóri hæstarjettar segði ókunnugum manni til vegar á götu og setti upp krónu fyrir viðvikið. Samkvæmt embættisstöðu hans væri það honum algerlega ásamboðið.

Líkt tilfelli kom fyrir í Danmörku ekki alls fyrir löngu um skip frá Eistlandi. En danska stjórnin hafði fallið frá að gera kröfu til björgunarlauna. Annað dæmi er frá 1908. Þá bjargaði Islands Falk enskum togara af grunni við Íslandsstrendur. Venjulegt skip hefði fengið 600 sterlingspund fyrir björgunina. Danska stjórnin tók 200 sterlingspund handa skipshöfn Fálkans, en fjell frá að gera frekari kröfu.

Niðurstaðan varð sú, að núverandi stjórn reyndi að gera hið besta úr því, sem komið var, og gaf líknarsjóði í Hull þessa 2/3 björgunarlaunanna, sem eftir stóðu, en 1/3 fjell að sjálfsögðu til skipshafnarinnar, þar af helmingur til skipstjóra og hinn helmingurinn til háseta.

Þetta segi jeg aðeins til þess að fá að vita, hvaða afsakanir hv. 1. þm. Skagf. hefir fram að færa. Þegar jeg tók við af honum, voru enskar blaðaskrifstofur og útgerðarfjelög búin að eyða stórfje, svo sem fyr er um getið, í símskeyti um þetta mál. Var það lagt þjóðinni mjög út til ófrægðar í Englandi, og mátti svo búið ekki standa. En síðan stjórnarskiftin urðu, hafa ummælin út af þessu atviki snúist á annan og betri veg. Jeg hefi fengið í hendur úrklippur úr 20–30 enskum blöðum, þar sem talað er vinsamlega um íslensku þjóðina fyrir þetta; varðskip ríkisins hafi bjargað enskum togara af grunni og björgunarlaunin verið gefin líknarsjóði í Englandi.

Þá kem jeg að öðru máli, sem hv. 1. þm. Skagf. afgreiddi 2–3 dögum fyrir stjórnarskiftin. Brjef þar að lútandi er dagsett 27. ágúst 1927, og mun þetta hafa verið eitthvert síðasta embættisverk háttv. þm. (MG) sem dómsmálaráðherra að ljúka því“ máli. Jeg á hjer við meðferð hans á svonefndum Thorcillisjóði.

Svo sem kunnugt er, var uppi um miðja 18. öld skólameistari í Skálholti, sá er hjet Jón Þorkelsson. Þegar hann var orðinn aldraður maður, gaf hann eigur sínar í sjóð, er verja skyldi til uppeldis og kenslu fátækum börnum í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Gjafabrjefið er frá árinu 1759. Sjóðurinn stóð síðan á vöxtum það sem eftir var af 18. öld og fram á 19. öld. En er á leið síðustu öld, kom sjóðurinn í góðar þarfir meðan lítið var um skólamentun. Jón Þorkelsson var ættaður úr Kjalarnesþingum og vildi hann styðja með sjóðstofnun þessari ættmenn sína og efla til menningar. Enda hefir mönnum hingað til verið ljóst, hver tilgangur skólameistara var með sjóðnum, og hefir honum verið varið til uppeldis og mentunar fátækum börnum í þessu bygðarlagi. Stóð sjóður þessi jafnan undir umsjá og eftirliti landsstjórnarinnar.

Nú kemur það fáheyrða atvik fyrir, sem vitnaðist eiginlega ekki fyr en eftir stjórnarskiftin, að fyrv. dómsmálaráðh. hefir í raun og veru afhent þennan sjóð Oddfellowreglunni og fengið konungsstaðfestingu á þeirri ráðstöfun.

Við þetta er tvent að athuga. Í fyrsta lagi það, að stjórnin, sem átti að vera ævarandi trúnaðarmaður gefandans, afhendir sjóðinn útlendu leynifjelagi með útlendri æðstu stjórn. Að vísu er íslensk deild hjer á landi, en almenningur veit ekki, að hve miklu leyti þar gætir útlendra áhrifa.

Í öðru lagi leyfir fyrv. dómsmrh., hv. 1. þm. Skagf., sjer að gerbreyta tilgangi gjafarbrjefsins. Sjóðurinn átti að ganga til fræðslu og mentunar fátækum börnum í fyrnefndum bygðarlögum. En í stað þess telur þetta leynifjelag hlutverk sitt að reka berklahæli handa börnum part úr árinu, nánar tiltekið yfir sumartímann, fyrir þessa peninga.

Hjer er því um tvöfalt brot að ræða. Fyrst trúnaðarbrot gagnvart gefandanum, er ætlaðist til, að sjóðurinn stæði jafnan undir umsjá og öryggi æðstu stjórnar í landinu, og í öðru lagi brot gagnvart þeim, er sjóðsins áttu að njóta.

Þótt ekki væri nema það að gerbreyta tilgangi sjóðsins, þá var það óverjandi. Við þurfum ekki annað en hugsa okkur, hvort Jón Þorkelsson skólameistari hafi 1759 ætlast til, að sjóðurinn yrði liður í berklavörnum Íslands, sem von er til, hefir hann lítt hugsað um þá starfsemi.

Því miður er ekki öll sagan sögð með þessu; þótt það komi minna við hv. 1. þm. Skagf., er rjett að segja þann hluta sögunnar líka, til að sýna aðstöðu umrædds leynifjelags.

Um leið og leynifjelagið biður um þessa peninga, skrifar það stjórninni 17. ágúst í sumar, er vitanlegt var, að stjórnarskifti mundu verða eftir nokkra daga. Það eru 5 menn, sem rita brjefið og fara þess á leit, að stjórnin leggi sjóðinn undir fjelagið, og fara þeir fram á það, er nú skal greina:

1. Að Thorcillisjóður byggi hæli fyrir veikluð börn.

2. Að stjórn sjóðsins verði framvegis skipuð þrem mönnum. Einn sje æðsti maður Oddfellowreglunnar hjer á landi, annar tilnefndur af honum, en samþyktur af stjórnarráðinu. Hinn þriðji valinn af stjórninni.

Þetta er skrifað 17. ágúst. Síðan líður ekki á mjög löngu, eða með öðrum orðum ekki dagurinn, þar til háttv. 1. þm. Skagf., þá dómsmálaráðh., skrifar brjef það, er jeg hefi handa á milli, þar sem hann rekur gang málsins og kemst að þeirri niðurstöðu, að það sje vel viðeigandi að gera þessa breytingu, sem til þurfi á stjórn og tilgangi sjóðsins til þess að afhenda hann leynifjelaginu. Endar hann brjef sitt til konungs á þessa leið — með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt því, sem hjer hefir verið tekið fram, leyfi jeg mjer allraþegnsamlegast að leggja það til, að Yðar Hátign mætti þóknast allramildilegast að fallast á, að gjafasjóður Jóns Þorkelssonar Skálholtsrektors (Thorcillisjóður) veiti viðtöku umræddri gjöf með tilgreindum skilyrðum og að veita gildi með allrahæstri undirskrift tilskipun þeirri um stjórn sjóðsins, sem fylgir hjer með.“

Þá vildi jeg enn mega lesa upp með leyfi hæstv. forseta 1. gr. í þessari konunglegu tilskipun. Þar segir svo:

„Í stjórn gjafasjóðs Jóns Þorkelssonar, Skálholtsrektors (Thorcillisjóðs) eiga sæti 3 menn, sem dóms- og kenslumálaráðuneytið skipar. Skal einn þeirra vera æðsti yfirmaður Oddfellowreglunnar á Íslandi og annar oddfellow, sem hann nefnir til og ráðherra samþykkir, en hinn þriðja velur ráðherra.

Síðan er bætt við, en strikað út:

„— Ef Oddfellowreglan skyldi leggjast niður á Íslandi, fellur stjórn sjóðsins undir dóms- og kenslumálaráðuneytið.“

Þetta er strikað út og sýnir, að ráðherranum hefir dottið hið góða í hug fyrst, en hið lakara eftir á, og hann síðan fylgt því, sem ver gegndi. Því að eins og tilskipunin er nú orðuð, er haldið opinni þeirri leið, að ef Oddfellowreglan legst niður hjer á landi, þá hverfi stjórn sjóðsins undir yfirmenn reglunnar í öðrum löndum.

Hv. deildarmenn hafa kannske tekið eftir því, að um leið og ráðherra biður um konungsstaðfestingu á þessari samsteypu, nefnir hann gjöf til handa sjóðnum, sem er að vísu rangt, þar sem þvert á móti er um afhending Sjóðsins að ræða. En það, sem hann á við, er 37 þús. kr. gjöf frá Berklavarnafjelagi Íslands til Oddfellowreglunnar, sem hún vill nota í berklahælið og kallar hjer gjöf til Thorcillisjóðsins. Nokkur vafi leikur á um, hvort Oddfellowreglan hafi rjett til þessa fjár, og mun bráðlega verða höfðað mál gegn Oddfellowreglunni fyrir að hafa dregið sjer þetta fje frá Vífilsstaðahælinu.

Það er kunnugt, að það hefir tíðkast um nokkur ár undanfarin, að menn, í stað kransa við jarðarfarir, gæfu nokkra fjárupphæð til Vífilsstaðahælisins og fengju dánarspjöld í staðinn sem viðurkenningu fyrir gjöfinni. Maður skyldi halda, að Vífilsstaðahælið fengi þessa peninga. En svo er ekki. Yfirlæknirinn á Vífilsstöðum hefir átt í marga ára stímabraki við háttv. 1. þm. Skagf., meðan hann var ráðherra, og máske líka bróður sinn, Jón heitinn Magnússon, fyrv. forsætisráðherra, að reyna að fá þetta fje til hælisins. Við læknirinn erum sammála um að reyna að bjarga þessu fje, þótt við sjeum kannske ekki sammála í sumu öðru.

Yfirlæknirinn leggur eindregið til, að þessu fje verði varið til þess að koma upp vinnustofu handa sjúklingum á Vífilsstöðum. Verður það að álítast mjög þarft og vel til fallið að verja því þannig.

Dánargjafir þessar hafa lent hjá þessu leynifjelagi, sem er mjög mannmargt hjer í bænum. Býst jeg jafnvel við, að háttv. 1. þm. Skagf. sje í því. En hvernig sem Sigurður Magnússon yfirlæknir hefir barist til þess að fá þessu kipt í lag, þá hefir landsstjórnin staðið með þeim, er hafa leyft sjer að draga í sjóð fjelags síns fje, er hælinu bar.

Jeg álít, að nú sje valið tækifæri fyrir háttv. 1. þm. Skagf. að skýra fyrir háttv. deildarmönnum gang þessa máls, hvernig stendur á því, að yfirlæknirinn skuli enga áheyrn hafa fengið og hversu sú furða hefir getað átt sjer stað, að dánargjafir til Vífilsstaðahælisins lentu hjá leynifjelaginu, Oddfellowreglunni, og loks, hvernig honum gat dottið í hug að gera þá undarlegu tilskipun, að afhenda Thorcillisjóðinn þessu leynifjelagi í tilgangi, sem er allur annar en sá upprunalegi, er vakti fyrir gefandanum sjálfum. Hann hefir að engu óskir gefandans og afhendir sjóðinn þriggja manna stjórn, sem að vísu er látið heita svo, að ráðuneytið skipi. En fjarri er því, að svo sje, þar sem yfirmaður stofnunar, sem er deild úr útlendu fjelagi, er sjálfkjörinn í stjórn sjóðsins, og hann velur annan mann, sem og skal vera meðlimur þessa fjelagsskapar, en stjórnarráðið fær rjett fyrir náð og legsakir að velja þriðja mann í stjórnina.

Jeg ætla ekki að segja neitt um það, hvaða skoðanir jeg hefi á gildi þessara hluta. En jeg hefi falið einum af þessum mönnum, sem er jafnframt trúnaðarmaður landsins í stjórnarráðinu, að sjá fyrir því, að ekkert verði gert í málinu í vetur af hálfu Oddfellowa. Kemur síðan til álita, hvort þessu verður ekki riftað með vorinu, og má vera, að það hafi einhver áhrif á fyrirætlanir þessa fjelags, ef það fær málsókn á hendur sjer út af Vífilsstaðadánargjöfunum.

Ef háttv. 1. þm. Skagf. er meðlimur í fjelaginu, er það viðbótarástæða fyrir hann að gera hreint fyrir sínum eldhúsdyrum. (MG: Það skal jeg gera, ef hæstv. ráðh. vill hlusta á mig). Jeg skal hlusta á háttv. þm., þótt hann vilji til morguns. (MG: Jeg verð þá að vera ódauðlegur í nótt eins og hæstv. ráðherra). Jeg vil gjarnan fyrir mitt leyti stuðla að því, að hv. 1. þm. Skagf. fái ótakmarkað málfrelsi í þessu máli, til þess að gera hreint fyrir sínum dyrum, því að ekki mun af veita.

Þá kem jeg að þriðja málinu af sama tægi og tvö hin fyrri. Það eru afskifti hv. 1. þm. Skagf. af steinolíufjelagsbákni því, er reist hefir skýli hjer suður við Skerjafjörð. Svo sem mönnum er kunnugt, þá var svo ástatt hjer á landi á stríðsárunum og lengur, að eitt útlent fjelag, Standard Oil, hafði fyrir tilstilli danskra og íslenskra leppa einræði í olíuverslun á Íslandi. Fjelagið notaði aðstöðu sína til þess að kúga Íslendinga og sjerstaklega bátaútveginn allfreklega.

Árið 1920 gerist það, að Magnús Kristjánsson, sem þá var forstjóri landsverslunarinnar, hefst handa til þess að lækka verðið hjá erlenda hringnum og byrjar að versla með olíu fyrir landsins hönd. Tókst honum að þrýsta verðinu niður um helming. Var notuð heimild um einkasölu á steinolíu, sem samþykt hafði verið 1917, og stóð svo um 3 ár. Varð þessu erlenda okurfjelagi þannig bolað úr landi og olíuversluninni komið undir íslensk yfirráð, svo að bátaútvegurinn varð óháður hinum erlenda kúgunarhring, sem áður hafði pínt hann.

En er stjórnmálaflokkur sá, er hv. 1. þm. Skagf. aðhyllist, kemur til valda, afnemur hann einkasöluna. Og hann, sem árið 1917 hafði átt nokkurn þátt í að koma henni á, flýtir sjer þá að opna landið upp á gátt fyrir útlendingum, og niðurstaðan varð sú, að gamli kúgarinn, Standard Oil, fer aftur að skjóta upp höfðinu. Hefir það gert alræmda samninga við ýmsa kaupsýslumenn, þar sem þeir eru þrælbundnir til að kaupa olíu einungis af þessu eina fjelagi um margra ára skeið. Ískyggilegast af þessu öllu er þó það, að nokkrir pólitískir samherjar og flokksbræður hv. 1. þm. Skagf. taka sjer fyrir hendur að lokka hingað stórt erlent fjelag, eitthvert stærsta olíufjelagið í heimi, og búa svo um hnútana, að það er að áliti margra vafamál, hvort sjálfstæði landsins og frelsi sje ekki af því hætta búin.

Hið hollenska og enska auðfjelag, Shell, hafði um stund átt í einhverju makki við tvo íslenska kaupmenn, og má þó fullyrða, að upptökin að þeim bræðingi hafi verið hjeðan að heiman. Af því, sem síðar kom fram, eru allar líkur til, að kaupmenn þessir hafi og staðið í leynimakki við íhaldsstjórnina, einkum atvinnumálaráðherra. Hefst nú Skeljungsþáttur þessi með því, að 16. mars 1927 ritar firmað „Hallgrímur Benediktsson &, Co.“ stjórnarráðinu svo hljóðandi brjef:

„Fyrir hönd Asiatic Petroleum Co. Ltd., London, leyfum við oss að fara þess á leit við hið háa stjórnarráð, að það samkvæmt heimild í 1. nr. 63, frá 28. nóv. 1919, veiti leyfi til þess, að ofangreint fjelag megi kaupa og fá eignarafsal að lóðarspildu við Skerjafjörð í Skildinganeslandi, að stærð alt að 240 X 200 fermetrar, en lóð þessa ætlar fjelagið að nota til þess að koma þar upp stöð til olíugeymslu.

Virðingarfylst.

H. Benediktsson.“

Þessu brjefi svarar svo atvinnumálaráðuneytið með brjefi, dags. 25. mars 1927, þannig:

„Út af erindi firmans, dags. 16. þ. m., þar sem það fer fram á það fyrir hönd fjelagsins Asiatic Petroleum Co., Ltd., London, að fjelaginu verði heimilað að kaupa og fá eignarafsal fyrir lóðarspildu úr Skildinganeslandi við Skerjafjörð, að stærð alt að 240X200 fermetrar, til þess að geyma þar olíu, vill ráðuneytið hjer með samkvæmt heimild í lögum nr. 63, 28. nóv. 1919, veita hið umbeðna leyfi.“

Undir þetta leyfi skrifar svo þáv. hæstv. atvmrh., núv. hv. 1. þm. Skagf. Hjer er ekki verið með hik eða vífilengjur um að veita hið umbeðna leyfi. Ekki hefir heldur þáverandi hæstv. atvmrh. þótt taka því að bera þetta undir þingið, sem sat hjer á þeim tíma. Hjer er þó verið að fá útlendu fjelagi, sem ætla má, að hann þekki lítið, leyfi í hendur til stórfeldrar starfrækslu hjer á landi. Og hann þarf ekki nema liðlega eina viku til að rannsaka þetta mál, áður en hann veitir leyfið. En nú fer svo, að það verður ekki þetta útlenda fjelag, sem notar leyfið til þess að kaupa þessa landspildu, eins og ráð hafði verið fyrir gert, heldur þeir Hallgr. Tulinius, Hallgr. Benediktsson, Gísli Johnsen og Björgúlfur Ólafsson. Landið, sem þeir keyptu, var 12000 fermetrar. Þeir leyfðu síðan Anglo Saxon Petroleum Co., Ltd., að byggja á þessu landi fjóra olíugeyma, sem taka samtals um 8000 tonn af olíu og bensíni. Þetta fjelag, sem byggir þessa geyma, er annar angi af Shellfjelaginu en sá, er fyrst bað um leyfið. Þessir geymar voru fullgerðir um áramót og var þá byrjað að afhenda olíu úr þeim. Þeir, sem koma suður að Skerjafirði, geta sjeð þar eitthvert mesta mannvirki hjer á landi, stóra bryggju, sem nær langt út í Skerjafjörð, og 4 stóra olíugeyma, sem taka miklu meira en ársforða handa öllu landinu. Utan um þessa geyma er öflug girðing. Þar inn fyrir er engum hleypt, sem ekki hefir brýnt erindi. Að minsta kosti var mjer neitað um að skoða þetta mannvirki. (Forsrh. TrÞ: Mjer var heldur ekki leyft að koma þangað inn!). Það er líkast því, sem einhver leyniblær hvíli yfir þessari stofnun. Jeg vona þó, að hjer sje ekki um það sama að ræða og það, sem henti Þorgils Skarða og aðra þá, er, að vísu óvitandi, urðu til að selja landið í hendur erlends valds.

Auk þessara mannvirkja við Skerjafjörð er fjelagið þegar byrjað að reisa olíugeyma í öðrum sjóþorpum, og er þegar búið að reisa geyma á þremur stöðum, sem taka til samans um 1100 tonn. Auk þess er það í undirbúningi með að reisa geyma í sjóþorpum víðsvegar um land. Nú mun þetta fjelag vera búið að leggja um 2 miljónir króna í þetta fyrirtæki. Og enn er gert ráð fyrir að leggja í það 1-1½ milj. kr. úti um land og í tankskip.

Nú má það teljast alleinkennilegt, að sótt var um kaup á landi fyrir útlent olíufjelag, en svo kaupa íslenskir menn þessa lóð og veita síðan öðru steinolíufjelagi leyfi til að byggja þar. En nú er þetta útlenda steinolíufjelag, sem þarna byggir, búið að koma fjárreiðum sínum svo fyrir, að íslenskt hlutafjelag er stofnað, sem kaupir olíugeymana og önnur mannvirki hins útlenda fjelags hjer á landi. Stofnendur fjelagsins eru þeir Björgúlfur Ólafsson læknir; Magnús Guðmundsson hæstarjettarmálaflutningsmaður, Hallgr. Benediktsson stórkaupm., Hallgr. Tulinius stórkaupm. og Gísli Johnsen konsúll.

Nú vil jeg spyrja hv. 1. þm. Skagf., hvort honum var það ljóst, þegar hann gerðist stofnandi þessa fjelags, að hjer var aðeins að formi til um íslenskt hlutafjelag að ræða. Fjelag þetta telur sig hafa innborgað hlutafje að upphæð kr. 500000,00. Samkvæmt hlutafjelagalögunum verður meira en helmingur af hlutafjenu að vera lagt fram af íslenskum mönnum, svo fyrirtækið geti talist innlent. Hvernig er svo sjeð fyrir þessu? Jú, þannig, að þessir stofnendur fjelagsins eru taldir að hafa lagt fram hlutafje þannig: Björgúlfur Ólafsson 244 þús. kr., en hinir 4 stofnendurnir sínar 2000 kr. hver. Þannig er þessu skilyrði laganna náð, þar sem upphæðin verður 252 þús. kr., eða 2 þús. kr. yfir helming hlutafjárins. Hitt er svo útlent fje. En nú hefir það komið í ljós við rannsókn á fjelagi þessu, að tilkynning fjelagsins um, að þetta hlutafje sje innborgað, er röng. Björgúlfur Ólafsson hefir játað, að hann hafi ekkert innborgað af sínu hlutafje, en býst við að fá þessar 244 þús. kr. að láni hjá hinu útlenda fjelagi og tryggja greiðslu skuldarinnar með þeim hlutabrjefum, er hann fær frá fjelaginu. Hvort hinir fjórir hafa greitt sitt hlutafje til fjelagsins, hefir ekki verið rannsakað. En líklegt er, að svo sje ekki. Er ekki ósennilegt, að þeir hafi þarna fengið það, sem kallað er „fríaxíur“, fyrir liðsinni sitt við að koma fjelaginu á fór.

Þannig er alt þetta stofnfje þessarar starfsstöðvar fjelagsins hjer á landi í raun rjettri komið frá útlendingum, nema ef vera skyldi þessar 8 þúsundir, sem þó er sennilega gjafafje. En hvort sem það er eða ekki, þá er hjer um brot á hlutafjelagalögunum að ræða og gott dæmi um það, hvernig farið er að því að smeygja inn erlendu fjármagni, sem beint getur leitt til þess að setja sjálfstæði þess lands, sem verður fyrir því, í voða. Þetta fjelag er nú sest hjer á laggirnar, fyrir aðstoð fyrv. hæstv. ráðh. (MG). Hann vann það fyrst til að verða banamaður steinolíuverslunar ríkisins. Síðan svarar hann mjög fljótt og liðlega brjefi erlends hrings, sem vill ná hjer landfestu. Hann þarf ekki meira en viku umhugsun og þarf hvorki að ráðfæra sig við þing nje þingnefndir, þó að hvorttveggja væri við hendina þá daga, sem hann veitir leyfið. Þegar þetta er athugað, þá verður manni á að spyrja, hvort hann hafi ekki áður verið kominn í makk við þetta auðfjelag, á meðan landið sjálft rak olíuverslunina? Minsta kosti þarf hann ekki langan umhugsunartíma til að svara umsókninni játandi, og það án sýnilegrar rannsóknar.

Þá lætur þessi hæstv. fyrv. ráðherra það viðgangast, að þetta fjelag, sem leyfið fær, notar það ekki sjálft, heldur þeir kaupmenn hjer í bænum, sem síðar urðu fjelagar hv. 1. þm. Skagf. í þessu máli. Og þegar svo fjelagið er stofnað, þá horfir hann rólegur á það, að þarna er verið að stofna erlent fjelag með íslenskum leppum, og gerist síðan sjálfur einn af leppunum. En hjer er ekki alt sagt enn. Ef þetta væri lítið fyrirtæki, þá mætti láta landið kaupa það upp. En nú er fyrirtæki þetta svo stórt, að innan skamms eru eignir þess hjer á landi eins miklar og nema mundi 1/3 af árstekjum ríkisins. Byggingar fjelagsins eru svo stórar, að varla er hægt að ætla, að þær sjeu miðaðar við íslenskar þarfir eingöngu. Jeg skora á hv. 1. þm. Skagf. að skýra frá því hjer, hvers vegna fyrirtæki þetta er haft svo stórt, sem raun ber vitni um.

Auk þessa fjelags, Shellfjelagsins, eru hjer líka önnur fjelög, sem búin eru að koma upp geymum eða ætla sjer það. Svo er t. d. um Standard Oil, sem hefir nú lagt samningsfjötur á mjög marga af kaupmönnum hjer í Reykjavík til margra ára, British Petroleum, sem væntanlega heldur alt að helmingi veltunnar. Þegar söluaðstaða þessara fjelaga er athuguð, þá er ekki hægt að áætla, að Shellfjelagið fái nema rúman þriðjung innanlandssölunnar. Nú hefir fjelag þetta bygt olíugeyma, sem rúma um 8000 tonn, eða meira en eyðist í landinu öllu á heilu ári. Auk þess byggir fjelagið olíuhlöður í flestum verstöðvum landsins. Það byggir þess vegna svo stórt, að það rúmar þar olíuforða, sem nemur a. m. k. því, sem fjelagið selur á þrem árum. Á Siglufirði ætlar Shell að láta tankskip liggja yfir sumartímann, sem verður nokkurskonar fljótandi olíukista.

Eins og menn vita, þá er valdið yfir olíunni eitt af heitustu deilumálum þjóðanna. Umráð þeirra yfir olíulindunum og aðstaða þeirra til að geyma hana á hentugum stöðum vegna herskipa sinna. Nú er stærð þessara íslensku geyma svo mikil, að líkast er, sem herflota sje ætlað að hafa hjer birgðir. Ef svo er ekki, þá skora jeg á hv. 1. þm. Skagf. að gefa skynsamlega skýringu á þessu.

Vjer höfum fyrir nokkrum dögum rætt hjer um sjálfstæðismál vor og orðið sammála um, að sjálfstæði Íslands beri að auka á næstu árum. En þá þurfum vjer líka að vera vel á verði gegn hverskonar erlendum áhrifum og ásælni, sem kynni að vilja leita hjer fangs og yrði til þess að veikja eða hnekkja sjálfstæði voru. En einkum er það þó umhugsunarefni, þegar ráðherra veitir voldugu heimsauðfjelagi hiklaust rjettindi og gerist síðan einn af leppum þess. Því að því er best verður sjeð, þá er hjer aðeins um leppmensku að ræða. Ekki myndi Einari á Þverá hafa þótt hyggilegt slíkt afsal á landi og rjettindum, fyrst honum þótti hætta geta stafað af erlendri eign á Grímsey.

Þá kem jeg að einu máli, sem hv. þdm. er kunnugra. Jeg tek það aðeins sem dæmi um það, hverskonar spjarir það eru, sem íhaldið lætur eftir sig í stjórnarráðinu og hv. 1. þm. Skagf. ætlast til, að núverandi stjórn fari í. En núverandi stjórn mun þó að minsta kosti aldrei fara í þá fatagarma íhaldsstjórnarinnar, er jeg ætla nú að gefa sýnishorn af, en það er eftirlit með embættismönnum landsins. Það vill nú svo vel til, að sá maður, sem jeg ætla að taka dæmi af, hefir sjálfur lýst hjer fyrir alþjóð manna lagamensku sinni og því, hve lítið hæfur hann muni hafa verið til að veita málefnum heillar sýslu forstöðu. Á jeg hjer við fyrv. sýslumann Barðstrendinga, Einar M. Jónasson, Við rannsókn, sem framkvæmd var laust eftir stjórnarskiftin, kom það í ljós, að bein sjóðþurð mun nema um 60 þús. króna. Auk þess eru dánarbú í hinni mestu óreiðu. Í því efni var komið svo langt, að hreppar voru farnir að útkljá sjálfir ýms málefni sín og viðskifti á bak við sýslumann. Þetta sá fyrv. hæstv. dómsmrh. (MG) ekki. Gott sýnishorn um fjármálastjórn sýslunnar er það, að forstöðukona Landakotsspítalans hefir engan eyri fengið borgaðan úr þessari sýslu með berklasjúklingum þaðan í full þrjú ár. Þá sá sami fyrv. hæstv. dómsmrh. það ekki heldur, hve gersamlega ófær dómari þessi sýslumaður var. Hefðu þó hæstarjettardómar einir átt að geta rekið hann úr skugga um það.

Jeg býst nú að vísu við, að þetta sje rotnasta kýlið á embættalíkamanum, eins og ástandið var þegar fyrverandi stjórn skildi við. Hún hafði að vísu skrifað þessum sýslumanni föðurleg áminningarbrjef, en án árangurs, og látið svo þar við sitja. En þegar þessi stjórn gat látið viðgangast slík býsn, sem allir vita um á Patreksfirði, og það svo að segja óátalið, þá er ekki ósennilegt, að víðar hafi misfellur getað þrifist í næði, án þess hún yrði þess vör. Háttvirt þingdeild þekkir síðustu viðskifti þessa sýslumanns við ríkissjóðinn, þar sem hann segist sjálfur, í brjefi til Alþingis, hafa tekið 24 þúsundir kr. af fje ríkisins, er hann hafði undir höndum.

Jeg skal nú ekki að sinni taka upp fleiri dæmi um þessa fatagarma, sem fyrverandi stjórn ljet eftir sig. Jeg skal nú snúa mjer að hinu eina máli, er hv. 1. þm. Skagf. taldi mjer til sektar, en það voru aðgerðir mínar í áfengismálinu.

Hv. þingdeild mun það í fersku minni, að þegar Spánarmálið var til umræðu á Alþingi, greiddi jeg atkvæði móti undanþágunni. Mjer var það þá fullljóst, að fjárhagslegur skaði gæti orðið að því að láta ekki undan Spánverjum. En jeg geri ráð fyrir því, að það hafi Belgíumönnum líka verið ljóst, þegar þeir neituðu Þjóðverjum að fara með her yfir land sitt í ágúst 1914. En hjer var líka, eins og þar, um manndómsatriði að ræða: hvort betra væri að þola stríð eða láta undan mótþróalaust. En meiri hluti þingsins vildi heldur beygja sig og kaupa sjer og sjerstaklega sjávarútveginum þannig frið. Jeg skal ekki lasta þá, sem það gerðu; þeir höfðu sína skoðun á því. Jeg hafði líka mína, studda af fordæmi Belgíumanna og allra þeirra, sem fremur vilja bíða tjón en beygja sig fyrir ofbeldi. Nú vill hv. 1. þm. Skagf. nota sjer þessa sjerstöðu mína 1923 til árásar á mig, og færir það til, að jeg hafi ekki gert neitt til að rifta samningnum við Spánverja. En þetta er alger misskilningur á minni aðstöðu. Jeg tel Spánarsamninginn sem afgert mál og dettur ekki í hug að svíkjast að þjóðinni, þó að jeg hafi þar aðra skoðun en meiri hluti þingmanna, sem um það hafa fjallað. En kæmi sú stund, að þjóðin þyrði að líta á þetta líkt og Belgíumenn gerðu, þá er kominn tími til að hreyfa við þessum samningum. Er þá fróðlegt að vita, hvort háttv. 1. þm. Skagf. þorir að segja upp Spánarsamningunum. Væntanlega skýrir hann það mál við þessa umræðu. Með þessu er í raun og veru öllu svarað. Mig furðar aðeins, að hv. þm. skuli þora að koma inn á þetta svið, því við samanburð á aðstöðu okkar í vínmálinu sjest, að þar skiftir mjög í tvö horn. Á Alþingi í fyrra var borin upp tillaga í 4 liðum. Var hver liður till. borinn upp út af fyrir sig og allir feldir. 1. liðurinn var um það, að leita samninga við Spánverja að nýju, en ekki að segja upp samningnum, eins og hjer hefir verið haldið fram. 2. liður var um það að fækka útsölustöðum. 3. um að lána ekki vín, og 4. um að birta opinbera skýrslu um vínnotkun lækna. Hv. 1. þm. Skagf. var á móti þessum till. öllum, ekki einungis þeirri fyrstu, heldur öllum. Það mætti þó ætla, að ekki væri hætta á samningsslitum við Spánverja, þó hætt væri að lána út vín, nje heldur þó skýrslur um vínnotkun lækna væru birtar. En fyrv. stjórn, eða fyrv. hæstv. dómsmrh., þorði ekki að gera þetta fyrir sínum flokksmönnum. Hann beitti meira að segja flokksvaldi sínu til að kúga einn einlægan bindindismann, flokksmann sinn í Ed., til að greiða atkvæði móti sannfæringu sinni og áðurgefnum yfirlýsingum.

Hv. 1. þm. Skagf. segir, að jeg hafi sýnt lítinn dug í áfengismálunum. En hann verður að gæta þess, að allar ákvarðanir viðvíkjandi verslunarsamningunum við Spánverja verða að byggjast á ákveðnum þjóðarvilja.

Þegar verið var að tala um uppsögn sambandslagasamningsins við Dani 1940–43 fyrir fáum dögum hjer á Alþingi, voru allir flokkar sammála um að segja þeim upp. Kæmu nú fram jafneinhuga óskir um það að segja upp samningunum við Spán, þá mundi síst standa á mjer að framfylgja vilja þjóðarinnar. En hjer er ekki um neitt í þá átt að ræða. Af þeirri reynslu, sem jeg hefi haft af þessu máli, og þeirri illvígu mótstöðu og því drengskaparleysi, sem andstæðingarnir hafa sýnt í sambandi við það, dreg jeg líka þá ályktun, að það sje jafnvel varhugavert að hrófla við nokkru eða gera nokkrar breytingar, þó þær horfi beint til bóta. Ef jeg til dæmis hefði stytt um eina stund útsölutíma vína á Siglufirði eða í öðrum þeim bæjum, sem hafa óskað eftir að losna við áfengið, þá mundi einhver af skósveinum íhaldsmanna samstundis hafa símað til útlanda þá frjett, að samningurinn væri rofinn af hálfu Íslendinga.

Það kom til dæmis fyrir í sumar, að maður, sem fylgir frjálslynda flokknum að málum, eða stendur honum nærri, en skiftir sjer annars lítið af stjórnmálum, skrifaði grein í dagblaðið „Vísi“ og kom þar fram með fáránlega tillögu um landhelgigæslu. Ljet hann um leið falla nokkur hörð orð um sendimenn Íslands erlendis. Nú hefir einhver hjer reynst svo góðgjarn að taka nokkur eintök af þessu blaði og senda það til dönsku sendisveitanna í London, Berlín og víðar, einungis til að gera okkur bölvun. Vitanlega er fyrv. stjórn alveg saklaus af þessu máli, en sem sagt, hjer er til fólk, sem legst svo lágt, að það hikar ekki við að gera þjóð sinni vanvirðu og tjón með því að senda villandi fregnir til þess að svala sjer á andstæðingunum. Og mundi ekki fremur verða tekið mark á slíku, ef einhver háttsettur íhaldsmaður símaði til Spánar, að nú væri stjórnin búin að brjóta samninginn. Síðan mundu íhaldsblöðin hefja árás á þá leið, að nú hefði stjórnin brotið samninginn við Spánverja; Spánverjar væru reiðir og afleiðingin yrði miljónatap fyrir okkur. Þetta og annað þvílíkt yrði sagt, þó að jeg gerði ekki annað en stytta útsölutíma vínverslunarinnar. Jeg hefi nú sagt það skýrt og skorinort, að jeg þekki alt mitt heimafólk og jeg legg ekki út í að gera breytingar í þessu efni, nema jeg sje vitandi vits um aðstöðu þjóðarinnar, þrátt fyrir það, að jeg geri ráð fyrir, að Spánverjum standi nokkuð á sama, hvort t. d. vínbúðin á Siglufirði er opin aðeins 4 eða 5 daga vikunnar. Annars má segja það um suma þá nýbökuðu goodtemplara, sem eru í þjónustu hv. 1. þm. Skagf. og eru að fræða menn um það, hvað jeg sje linur í þessu máli, að þeir ættu sem minst að tala um áfengismál.

En fleiri liðir voru í till. þeirra Ingvars Pálmasonar og Jóns Guðnasonar, eins og hún venjulega er kölluð. Þar var lagt til, að eigi skyldi heimilt að lána út vín, og það atriði snerti aðeins okkur sjálfa. En jafnvel þennan sjálfsagða lið feldu íhaldsmenn. Eitt af mínum fyrstu verkum eftir að jeg tók sæti í stjórninni var það að skrifa forstjóra áfengisverslunarinnar um, að öllum útsölumönnum væri hjer eftir bannað að lána einn eyri. En jafnvel þetta lítilræði gat hv. 1. þm. Skagf. ekki gert. Og jeg get sagt hv. þm. það, að fyrir þetta hafa allir þeir, sem útsölu vínanna hafa á hendi, tjáð mjer þakklæti sitt. Annað atriði, sem var jafnvel enn sjálfsagðara, hafði hv. þm. hvorki kjark nje dug til að framkvæma, og það var að láta birta skýrslu um áfengisútlát lækna. Þetta hefi jeg gert, og það hefir borið þann stórkostlega árangur, að margir læknar eru nú því nær hættir að láta úti áfengislyfseðla, en sumir hættir því með öllu. — Til þessa þurfti enga þingsamþykt; það þurfti aðeins dálítið meiri framtakssemi og vilja til umbóta en hv. þm. hefir til að bera.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg muni halda uppteknum hætti í minni ráðherratíð, og með því að láta lög ganga yfir afbrotamennina geri jeg mjer vonir um, að hægt verði að miklu leyti að útrýma læknabrennivíninu úr landinu. Jeg sje, að hv. þm. er að líta í skýrsluna, og til skýringar fyrir hann vil jeg geta þess, að eftirlitið var ekki nema 3 síðustu mánuði ársins 1927, og jeg býst við, að honum gefist síðar kostur á að líta á samanburð á mínum mánuðum og hans mánuðum að því er þetta snertir.

Hvers vegna ljet hv. 1. þm. Skagf. nú þetta ógert? Það verður ekki betur sjeð en að ástæðan hafi einungis verið þrekleysi hans og hræðsla við óþökk einstakra fylgismanna. Því verður nú auðvitað ekki neitað, að þeir læknar, sem hafa lifað á „recepta“-sölu, eiga mikið eftir að læra ennþá, en jeg geri mjer vonir um, að nokkrar málsóknir og dómar megni að kenna þeim það, sem þeir eiga eftir ólært enn.

Næst er þá að minnast á áfengið í skipunum. Það hefir hingað til verið nokkuð almenn skoðun, að ómögulegt væri að losna við það og komast hjá drykkjuskap á íslenskum skipum. Það hefir verið talið ógerlegt að hindra það, að brytarnir hefðu altaf nóg áfengi, og lítt verið litið eftir, hvernig þeir færu með það. Það hefir jafnvel kveðið svo ramt að drykkjuskap á okkar skipum, að útlendingar hafa kvartað undan því. Til dæmis hefir merkur Englendingur sagt, að hann hafi í einni ferð frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur með íslensku skipi sjeð fleiri menn drukkna en í London á heilu ári. Mjer hugkvæmdist nú að reyna, hvort ekki mætti ráða bót á þessu. Og það kom í ljós, að það þurfti ekki annað en að skrifa sýslumönnum og lögreglustjórum nokkur brjef og gefa þeim nýja lögskýringu á áfengislöggjöfinni, til þess að skipin þornuðu næstum því í einni svipan. Það verður naumast talin nein prýði fyrir okkar land að láta það viðgangast, að á skipum okkar sjeu tugir af ölóðum mönnum í hverri ferð. Þetta hefir tekist að lagfæra í minni tíð, og til þess þurfti ekki annað en dálítið af þeim kjarki, sem hv. 1. þm. Skagf. hefir altaf vantað.

Enn skal jeg minnast á það, að á undanförnum árum hefir verið safnað saman töluverðu af upptæku víni í hegningarhúsinu hjer í Reykjavík. Nú skyldu menn ætla, að skrá hefði verið færð um þetta áfengi og eitthvert eftirlit haft með því, hvað um það yrði. En við athugun kom það í ljós, að engin slík skrá hefir verið gerð og ekki hægt að sjá, að nokkurt eftirlit hafi verið framkvæmt. Þegar jeg nú kom í sæti hv. 1. þm. Skagf., fjekk jeg tvo þekta templara til að rannsaka og telja birgðirnar og gera skrá yfir þær. Verður síðar reynt með samanburði við dóma og úrskurði, sem fallið hafa um þessi upptæku vín, að athuga, að hve miklu leyti sá samanburður stendur heima. Hinsvegar er því ekki að leyna, að almenningur hefir gert sjer óglæsilegar hugmyndir um „Steininn“ í þessu sambandi. Hefir verið dylgjað um „leka“ þar í sambandi við „háttsetta borgara“. — Jeg minnist á þetta, ekki af því, að jeg leggi minsta trúnað á þann orðróm, heldur til þess að sýna, hverskonar almenningsálit hefir skapast í skjóli eftirlitsleysisins.

Háttv. 1. þm. Skagf. var að senda mjer hnútu út af því, að jeg hefði sagt starfsfólki vínverslunarinnar upp starfi og fækkað því. Er því til að svara, að verslunin hefir, ef til vill óbeinlínis fyrir mínar aðgerðir, dregist nokkuð saman og kr efst því færra starfsfólks en áður.

Áfengisbúðir á landinu munu nú vera 7 talsins. Jeg hefi kynt mjer nokkuð rekstur sumra þeirra, og er ástandið ekki glæsilegra en það, að meiri og minni vanskil hafa átt sjer stað á undanförnum árum frá hendi allra þeirra, sem athugaðar hafa verið. Á einum staðnum, þar sem áttu að vera birgðir og peningar fyrir um 20 þús. kr., voru aðeins 4 þús. kr., þegar rannsókn var látin fara fram. Verslunarstjórinn var, að sögn, fjárhagslega illa staddur um síðustu áramót. Voru því litlar horfur á, að fje landsins bjargaðist á þessum stað. En með því að ganga hart eftir og láta við liggja sakamálsrannsókn, tókst manninum, með tilstyrk annara manna, að gera full skil. Vitanlega var manninum jafnframt sagt upp starfinu. — Jeg minnist hjer á þetta eins og dæmi um það, hvernig þetta megna óreiðuástand hefir þróast undir stjórn hæstv. fyrv. ráðherra óátalið og eftirlitslaust.

Sýnir það einnig, hversu þessi hv. þm. stendur vel að vígi, er hann hefur árásir á mig út af því, að jeg hafi sagt upp mönnum við þessa verslun.

Fyrir háttv. Ed. liggur nú frv. til áfengislaga, sem er undirbúið af fimm manna nefnd, þar á meðal flokksbróður hv. 1. þm. Skagf., Sigurði Jónssyni stórtemplar. Með því frv. er reynt að setja þær skorður við misnotkun áfengis hjer á landi, sem eru samrýmanlegar við samninga vora við Spán.

Jeg geri mjer nú vonir um, að þetta frv. gangi fram, að minsta kosti ef flokksbræður hv. þm. (MG) beita sjer ekki því harðar gegn því, sem jeg ætla að vona, að þeir geri ekki. Við sjáum, hvað setur. Slíkar till. hafa aldrei komið frá fyrverandi stjórn, og af fortíð hv. 1. þm. Skagf. er ekki hægt að ráða neina hugsun í þá átt.

Jeg hefi nú rakið þennan lið nokkuð rækilega, af því að háttv. 1. þm. Skagf. hóf sókn á mig út af þessu máli, og jeg hygg, að það sje nú flestra álit, að mál þetta, eins og hin önnur, hafi nú snúist upp í sókn á hendur honum sjálfum og hæstv. fyrv. stjórn. Hefði mátt ætla, að hæstv. fyrv. ráðherra, sem hefir svo mjög vanrækt skyldu sína um eftirlit með opinberri starfrækslu í landinu, þjóðinni til tjóns og vanvirðu, og sem hefir að öðru leyti til þeirra saka að svara, sem nú hefir verið sýnt, hefði fremur kosið að dyljast í skjóli þagnarinnar hjer á Alþingi, eftir því sem hann mætti við koma, heldur en að draga þau vopn úr slíðrum, sem í upphafi þessara hjaðningavíga hlutu að snúast gegn honum sjálfum.