21.01.1928
Efri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

16. mál, búfjártryggingar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallason):

Jeg vil mega gera ráð fyrir, að þetta mál geti á sínum tíma orðið mjög þýðingarmikið fyrir landbúnaðinn. Það hefir áður verið til umræðu tvívegis á Búnaðarþingi, hið fyrra sinn 1925, og hafði þá fengið undirbúning af Theodór Arnbjarnarsyni ráðunaut, og fjekk þar nokkra afgreiðslu og alment fylgi, að það næði fram að ganga. Eins og frv. liggur nú fyrir er það samið í samráði við hlutaðeigandi starfsmenn Búnaðarfjelags Íslands.

Á Búnaðarþingi var meðal annars vakin athygli á því, að safna þyrfti ýmsum gögnum, t. d. um vanhöld á búpeningi, til þess að reikna út iðgjöld o. s. frv., áður en hafist yrði handa. Einn ráðunauta Búnaðarfjelagsins tók sig því til og skrifaði öllum hreppstjórum á landinu og leitaði upplýsinga hjá þeim í þessu efni. En reyndin hefir orðið sú, að einir 37 hafa svarað fyrirspurnunum, sem til þeirra var beint, um vanhöld á skepnum.

Búnaðarfjelag Íslands hefir ekki vald til að heimta af hlutaðeigandi yfirvöldum, að þau láti í tje skýrslur um þetta efni.

Tilgangurinn með þessu frv. er meðal annars sá, að veita stjórninni heimild til þess að skylda hreppstjóra til þess að afla vitneskju á þessu sviði og safna skýrslum um það.

Jeg geri ráð fyrir, að ekki þurfi að eyða mörgum orðum að hinni almennu hlið þessa máls. Engum mun blandast hugur um, að nauðsynlegt sje, að búfjártryggingar komist á. Stefna tímans er sú, að koma tryggingum að alstaðar sem hægt er. Hjer í höfuðstaðnum er t. d. skylduvátrygging á húsum. Og einstaklingar, að minsta kosti þeir, sem eiga fyrir öðrum að sjá, munu telja það siðferðislega skyldu sína að vátryggja þær eigur, sem þeir hafa undir höndum.

Eins ætti þessu að vera háttað í landbúnaðinum. Hinsvegar er vafamál, í hve ríkum mæli hægt er að koma tryggingum við, hversu há iðgjöld eiga að vera o. s. frv.

Mjer dettur ekki í hug, að hjer sjeu sett lög, sem standi um aldur og æfi. Þetta frv. ber aðeins að skoða sem byrjun til þess að hrinda af stað víðtækari löggjöf. Því er það fyrst og fremst látið ná til verðmestu gripanna, kynbótagripa o. s. frv.

Hinsvegar á það að skapa aðstöðu til þess að geta fengið skýrslur og annað það, er heyrir til undirbúningi þess, sem kept er að, en það er almennar búfjártryggingar.

Jeg vil leggja fram frv. á þessum grundvelli, er jeg hefi nú frá greint. Jeg vænti þess, að háttv. landbn., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, taki því vel og leggi í það góða og mikla vinnu. Er jeg sannfærður um, að við getum með þessu frv. lagt fyrsta steininn í farsæla byggingu, er verða mun landi og lýð til mikillar nytsemdar, ef upp kemst.

Að lokum vil jeg leyfa mjer að leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til landbn.