08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

16. mál, búfjártryggingar

Fram. meiri hl. (Einar Árnason):

Ástæðurnar fyrir því, að meiri hl. landbn. leggur til, að frv. þetta verði samþ., eru að mestu leyti færðar fram í nál. meiri hl. á þskj. 88. Jeg sje ekki ástæðu til að fara að endurtaka hjer í ræðu það, sem þar er sett fram, og get þess vegna verið stuttorður um málið að svo komnu.

Frv. þetta, ef samþykt verður, er heimildarlög, sem segja má, að sjeu hliðstæð gömlu lögunum um vátrygging sveitabæja, og þetta frv. er að mörgu leyti bygt upp mjög líkt þeim lögum.

Það kann að vera, að það verði færðar fram einhverjar ástæður fyrir því, að ekki sje tímabært að samþ. þetta frv. eða setja lög um það, að búfjáreigendur í sveitum geti komið sjer upp búfjártryggingasjóði.

Það er í raun og veru ekkert nýtt, að meiri hl. manna í sveitarfjelagi sje gefið vald til þess að láta minni hl. hlíta þeim reglum, sem fyrirskipaðar eru eftir heimildarlögum. Og þó að það verði ef til vill talið ósanngjarnt, að meiri hl. geti neytt vissum reglum upp á minni hl., þá er það engin röksemd móti þessu frv. út af fyrir sig, af því að þetta er töluvert algengt í löggjöfinni.

Þessu frv., sem hjer um ræðir, er skift í þrjá kafla, og ræðir þá fyrsti kaflinn um vátryggingarsjóði í sveitum og bæjarfjelögum. Frv. ræðir aðallega um vátryggingar nautgripa alment, og svo á kynbótahestum og hrútum. Við þetta eru ákvæði frv. aðallega miðuð, þó að í 5. gr. frv. sje gefin sjerstök heimild um það, að líka megi falla undir þetta bæði sauðfje og hestar. Meiri hl. hefir við athugun sína á frv. líka að mestu leyti lagt þar þetta til grundvallar, að vátryggingin nái aðeins til nautgripa og kynbótahesta og hrúta.

Jeg skal strax geta þess sem minnar persónulegrar skoðunar, en ekki sem frsm. nefndarinnar, að jeg álít heimild þá, sem gefin er í 5. gr. frv., dálítið vafasama, eða að minsta kosti sje full ástæða fyrir viðkomandi ráðherra að ganga úr skugga um það, að það sje ekki nein hætta á ferðum fyrir vátryggingarsjóðinn um leið og hann gefur það leyfi, sem þar er gert ráð fyrir. Jeg álít sem sje, að það sje enn ekki kominn tími til þess að láta vátryggingu ná til sauðfjár og hesta alment.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara að skýra hverja einstaka grein í frv. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þdm. hafi kynt sjer frv., svo að þeim sje fullkomlega ljóst, hvert stefnt er. Um einstök atriði frv. ætla jeg ekki fyrirfram neitt að deila. Jeg geri ráð fyrir, að sumir kunni að segja, að einhver ákvæði sjeu í þessu frv., sem orki tvímælis. En meiri hl. nefndarinnar lítur þó svo á, að frv. sje það vel undir búið í öllum aðalatriðum, að það sjeu lítil líkindi til, að þingið breyti þar til hins betra. Vitanlega eru það ákvæði væntanlegrar reglugerðar, sem eru aðalfyrirmæli um framkvæmd laganna. Og það er sjálfsagt að vanda til þeirrar reglugerðar.

Meiri hl. nefndarinnar flytur hjer eina brtt. við 10: gr. í 1. kafla frv. Nefndin leit svo á, að fyrirkomulagið um virðingu á gripum til vátryggingar væri nokkuð umfangsmikið og gæti orðið töluvert vafningasamt verk, sem yki nokkuð kostnað við framkvæmd laganna. Því flytur meiri hl. brtt. í þá átt að gera framkvæmd laganna að því er verðlagningu gripanna snertir miklu einfaldari og óbrotnari, og þar af leiðandi ódýrari en gert er ráð fyrir í frv. En hinsvegar vildi nefndin ekki fella niður ákvæði frv. um þetta, heldur hafa hvoratveggja leiðina opna, þannig að þeir, sem eiga hlut að máli, geti valið um, hverja aðferð þeir noti.

Annar kafli laganna fjallar um búfjártryggingasjóð Íslands, þar sem gert er ráð fyrir, að stofnuð sje einskonar baktrygging gagnvart sjóðum sveitarfjelaganna, og ríkissjóður leggi þá nokkra fjárhæð árlega í 20 ár. Þessi ákvæði eru samskonar og eru í gildandi lögum um vátryggingu sveitabæja. Meiri hl. leggur áherslu á, að slíkur baktryggingarsjóður verði stofnaður sem fyrst og að stofnun hans verði að ganga á undan stofnun sveitavátryggingasjóðanna sjálfra.

Þriðji kafli er um almenn ákvæði, þar sem nánar er tekið fram um þau atriði, sem í reglugerð þurfa að standa, einnig viðurlög fyrir brot og þess háttar.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. minni hl. geri grein fyrir sinni till. um þetta efni, en það eru tvö atriði í áliti minni hl., sem jeg vildi þegar minnast nokkuð á. Því er slegið fram, að undirbúningur þessa frv. sje svo slæmur, að ekki sje forsvaranlegt að gera það að lögum. Í rauninni eru þessi ummæli ekki neitt rökstudd í nál. En jeg vildi aðeins láta þess getið, að frv. er samið af tveimur ráðunautum Búnaðarfjelags Íslands, og þeir hafa kynt sjer mjög nákvæmlega lög og reglur, sem gilda í nágrannalöndunum um þessi efni, og hafa reynt — eftir því sem hægt var — að samræma þær reglur og lög við staðhættina hjer á landi.

Um formið á frv. verð jeg að segja, að meiri hl. sjer ekkert við það að athuga. Hjer gæti vitanlega verið um fleiri en eina leið að ræða um tryggingu búfjár. Það mun vera í Noregi, að til eru fjelög, sem jafna niður á gripina á eftir því gjaldi, sem þarf eftir hvert ár. En til þess að slík leið sje fær, verður að ganga út frá því, að fjelagslegur þroski sje það mikill, að það verði ekki til óánægju og vafninga, ef iðgjöldin eiga að borgast eftir á. Álít jeg rjettari leið valda, að iðgjöldin greiðist fyrirfram.

Jeg býst við, að með undirbúningsleysi eigi hv. minni hl. við það, að það sje ekki ákveðið í lögunum, hvað iðgjaldið eigi að vera hátt. Um það er fyrst og fremst það að segja, að slíkt er alls ekki rjett að gera, og er heldur ekki svo jeg viti nokkurntíma gert, að setja í lögin sjálf, hvað iðgjald skuli vera hátt, heldur heyrir það undir reglugerð.

Meiri hl. lítur svo á, að langt geti orðið að bíða framkvæmdanna í þessu efni, ef finna á ábyggilegan grundvöll fyrir iðgjöldin, áður en lögin öðlast gildi.

En þar sem hjer er aðeins um heimildarlög að ræða, er enginn skyldugur að ganga undir þau, fyr en vitað er, hvað iðgjaldið er hátt. Annars skal jeg engu spá um, hver reynslan yrði um lög þessi á næstu árum. Gæti eins búist við, að alment yrði það ekki, að menn gengju undir þau til að byrja með. En með því að koma heimildarlögum fram, er auðveldara að finna grundvöllinn til þess að byggja á iðgjöldin. Og þegar hann er fundinn, þá á að stofna þá baktryggingu, sem nauðsynleg er í þessu efni.

Jeg hefi þá minst á þau atriði, sem jeg hnaut sjerstaklega við í nál. hv. minni hl. En í nál. okkar meiri hl. er að nokkru gerð grein fyrir þeim ástæðum, er við teljum mæla með því, að frv. þetta verði samþ. Get jeg þá með þessu látið lokið máli mínu að sinni, og legg á vald hv. deildar, hvernig fer um frv.