08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1598 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

16. mál, búfjártryggingar

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Jeg þarf ekki að tefja umræðurnar lengi. En það er ekki rjett, að jeg hafi misskilið hæstv. forsrh. Það, sem okkur ber á milli, er það, að mjer finst, að byrjað sje á öfugum enda í þessu máli. Þau nýmæli, sem frv. fer fram á, þurfa öruggan undirbúning. Yfirleitt er það bráðnauðsynlegt í öllum málum, að undirstaðan sje góð. Ef málin eru sæmilega rannsökuð í byrjun, þarf ekki altaf að vera að breyta ákvæðum laganna. En því er nú ver og miður, að mestöll löggjöf okkar hingað til hefir verið fálm út í loftið, af því að oftast skortir nægilegan undirbúning. Því betur sem lögin eru undirbúin, því betri verða þau.

Af því, hve lítið er vandað til mála, kemur það, að lagabreytingar eru óhóflega tíðar. Mjer er satt að segja óskiljanlegt, hvernig lögfræðingar fara að vita, hvað eru lög hjer í landi og hvað ekki. En þrátt fyrir sífeldar breytingar verða lögin ávalt gölluð. Það er með illa samin lög eins og um vansniðna flík. Flíkin eða fatið ber altaf keim þess, að hún hefir í fyrstu verið illa sniðin, og úr því verður aldrei bætt.

Þetta er það, sem mjer og hæstv. forsrh. ber á milli. Jeg játa, að lögin sjeu nauðsynleg, en þá vil jeg ekki hraða þeim svo mjög, að hroðvirkni til tjóns eigi sjer stað.

Jeg þarf ekki að gera margar aths. um einstök atriði, er hæstv. atvmrh. tók fram. Þó skal jeg geta þess, að mjer þykir 5. gr. frv. einna athugaverðust. Það er ákaflega óhyggilegt að leggja eins mikið vald í hendur eins manns, atvmrh., og þar er gert. Jeg er sannfærður um, að margt af því, sem frv. gerir ráð fyrir að skjóta til ráðh., mætti eins vel og jafnvel betur gera heima í sveitum.

Jeg hefi hlaupið yfir eitt atriði, sem jeg þarf áð gera grein fyrir. Í fyrri ræðu minni talaði jeg um skyldutryggingar. Það hefir ef til vill verið ófimlega að orði komist. En jeg skal skýra með dæmi það, sem jeg átti við. Gerum ráð fyrir, að smábændur í Mosfellssveit samþykki með einföldum meiri hluta atkvæða að stofna búfjártryggingarsjóð hjá sjer. Nú gæti skæð fjárpest komið upp á einhverju stórbúinu. Það er augljóst, að greiðsla vátryggingargjaldsins mundi verða mjög tilfinnanlegur baggi fyrir smábændurna.

Jeg geri ráð fyrir því, að þessi rökst. dagskrá mín muni verða feld. En þrátt fyrir það mun jeg ekkert hatur leggja á frv. og gera þvert á móti það, sem í mínu valdi stendur, til þess að greiða fyrir því góða máli, sem í því felst.

Hefi jeg svo ekki fleira að segja að þessu sinni.