28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. dómsmrh. (JJ) hefir nú talað langt mál og mikið og þykir nú að vonum sinn fugl fagur. Jeg vildi nú samt óska þess, og jeg tel það mjög æskilegt fyrir dómsmrh. sjálfan, að hann gæti tekið sjer í munn orð hæstv. forsrh. (TrÞ), er hann sagði í svarræðu sinni til hv. 1. þm. Skagf. (MG). Hæstv. forsrh. mælti eitthvað á þá leið, að hvað sem liði sinni fyrri stefnu, þá yrði hann að hlýða landslögum. Þetta var vel mælt, þó að það sje ekki annað en það, sem er sjálfsagt og skylt, að hlýða lögum landsins, einkum ef þessi orð hæstv. forsrh. eru borin saman við framkomu hæstv. dómsmrh. gagnvart gildandi lögum.

Jeg ætla aðallega að minnast hjer á eitt mál, sem er mjög mikilvægt og alvarlegt um leið, sem sje meðferð hæstv. dómsmrh. á varðskipalögunum.

Eftir að þingið rjeðst í að láta byggja nýtt varðskip og ári síðar að kaupa „Þór“, þá var næst að undirbúa starfsreglur fyrir skipin og alla framkvæmd landhelgigæslunnar. Þetta mátti heita alveg nýtt fyrirtæki og byrjunarsporið að því, að við tækjum algerlega að okkur framkvæmd landhelgivarnanna. Það var því eðlilegt, að hjer þyrfti að leggja einhvern grundvöll til að starfa á, og var það gert með lögum þeim, sem Alþingi samþykti á síðasta þingi. Frv. mættu bæði talsverðri mótspyrnu, bæði hjer og í hv. Ed., einkum frá núverandi hæstv. dómsmrh. og hv. 5. landsk. (JBald), en þau urðu þó að lögum. Lögin um varðskip landsins og sýslunarmenn á þeim voru afgreidd frá hv. Nd. með 17:6 atkv. og frá hv. Ed. með 9:3 atkv. Þessi lög gengu í gildi strax, en launalögin 1. júlí. Þau voru afgreidd síðast frá hv.

Nd. og samþ. þar með 15:7 atkv., og voru 6 þm. fjarstaddir. Hæstv. dómsmrh., sem veittist gegn lögunum í hv. Ed., eins og áður er sagt, vildi gera skipin að skólaskipum um leið og flutti dagskrártill. um að vísa málinu frá vegna þess að ekki væri hægt, eins og á stóð, að koma hans hugmynd að. — Þetta er í stuttu máli gangur málsins á síðasta þingi.

Svo varð, sem kunnugt er, breyting á eftir síðustu kosningar, og komst hæstv. dómsmrh. þá í þann sess, sem hann skipar enn í dag. Vald sitt og aðstöðu, er hann þá hlýtur, notar hann til þess að brjóta þessi lög, sem hjer um ræðir. Í 5. gr. laganna um sýslunarmenn á varðskipunum er svo fyrir mælt, að skráning skipverja fyrir skráningarstjóra skuli ekki fram fara. Þegar stjórnarskiftin urðu og hæstv. dómsmrh. tók við völdum, stóð svo á, að bæði strandvarnaskipin voru fyrir norðan við síldveiðigæslu. Mun það hafa verið tilætlun fyrverandi stjórnar að skipa menn í stöðurnar, þegar skipin hefðu lokið gæslu. En hvað gerir svo hæstv. dómsmrh.?

Í stað þess að hlýða lögunum, lætur hann skráningu fram fara, þvert ofan í fyrirmæli laganna. Það, sem mest var um deilt hjer á þingi, var það, hvort skipverjar ættu að vera undir lögunum frá 1915, sem banna sýslunarmönnum ríkisins að gera verkfall. Þeir, sem hjeldu því fastast fram í báðum deildum, að skipverjum væri heimilt að gera verkfall, voru jafnaðarmenn, og fylgdi hæstv. dómsmrh. þeim þar nokkuð að málum, þótt hann að vísu gengi ekki eins fast fram um þetta og þeir. ( Dómsmrh. JJ: Þetta er alt ósatt). Allir vissu, hvað undir lá hjá hv. 5. landsk. um þetta atriði, sem auðvitað vildi hafa skipverja undir sama númeri og aðra sjómenn, svo að hægt væri að láta þá gera verkfall, ef svo bæri undir.

En þegar hæstv. dómsmrh. er búinn að brjóta lögin, þótti honum nauðsyn að breiða yfir lögbrot sitt. Stjórnarblaðið Tíminn er látið skýra frá því í opinberri tilkynningu, að ástæður núverandi stjórnar fyrir „frestun“ á veitingu embættanna byggist á því, að það sje óheppilegt, eins og fjárhag ríkisins sje varið, að binda landið við að veita tveimur af þessum starfsmönnum 3000 kr. uppbót hvorum æfilangt ofan á frumlaun, sem eru miklu hærri en laun sýslumanna, prófessora og annara starfsmanna í „sambærilegum“ stöðum. Þetta er Tíminn látinn birta, 17. sept. — Þegar hæstv. ráðh. hefir brotið lögin, lætur hann stjórnarblaðið gera tilraun til að blekkja landsmenn og villa þeim sýn í máli þessu, með því að segja, að hann hafi „frestað“ að framkvæma lögin. Þessar eru þær ástæður, sem hæstv. ráðh. færir fyrir þessu þagabroti sínu, því að jeg geri ráð fyrir, að eigna megi honum þessa tilkynningu. Hann vill láta þjóðina skilja þetta svo, að hann hafi ekki treyst sjer til að skipa þessa menn af því að þeir hefðu átt að fá 3000 kr. uppbót æfilangt ofan á laun, sem væru miklu hærri launum sýslumanna o. s. frv. Til þess að magna þetta, bætir hann við útreikningi, hvað þessi upphæð geti orðið há á 30 árum!

Í lögunum um laun skipverja á varðskipunum er stjórninni heimilað að greiða hvorum skipstjóra 12000 kr. á ári, eins og þeir höfðu haft hjá fyrri húsbændum sínum. Hæstv. ráðh. vill láta líta svo út, að þessi heimild hafi verið bindandi og hann sje skyldugur að greiða skipstjórum þessi laun. En svo var ekki; hann hafði þar alveg óbundnar hendur. Þau laun, sem ákveðin eru eftir lögunum, átti hann að borga. Um þessar 3000 kr. fram yfir er það að segja, að þótt stjórnin hefði ekki greitt þær, var ekki hægt að segja, að hún hefði brotið lögin. Hitt mátti segja, að hún hefði virt að vettugi loforð fyrirrennara sinna og samþ. Alþingis á þeim. Lögin ákváðu skipherrunum 7200 kr. hámarkslaun, og svo fremi sem stjórnin hefði greitt þau ásamt dýrtíðaruppbót, var ekki hægt að saka hana um lagabrot. Hvort hún hefði notað sjer heimildina til þess að greiða 12000 kr. til skipherranna, sýndi aðeins hug hennar til þeirra manna, sem í hlut eiga, og vilja hennar til að standa við loforð fyrirrennara sinna. En það er ekki einungis, að hæstv. dómsmrh. hafi breytt þvert ofan í vilja þingsins í þessu efni, heldur beitir hann landslýð blekkingum, þegar hann er að reyna að afsaka þetta lagabrot í augum landsmanna.

Síðan hefir stjórnarblaðið haldið áfram sömu blekkingunum um þetta mál. Síðast 14. jan. þ. á. er alið á því í blaðinu frá stjórnarinnar hálfu, að það, sem stjórnin hafi gert í þessu máli, sje aðeins að halda áfram gerðum fyrverandi stjórnar.

En það er svo fjarri því, að hægt sje að segja, að aðferð hæstv. dómsmrh. sje lík gerðum fyrv. stjórnar. Það er þvert á móti. Fyrverandi stjórn hefir fengið lögin samþykt um þetta atriði, er að undirbúa skipun mannanna og farin að greiða þeim laun samkv. lögunum, er hún fer frá. Núverandi stjórn brýtur ekki aðeins lögin um varðskip ríkisins með því að láta skráningu fram fara, heldur brýtur hún einnig lögin um laun skipverja á varðskipunum. Það var altaf látið klingja við hjá hæstv. dómsmrh. í fyrra, þegar hann var að mótmæla þessum lögum, að hjer væri verið að stofna 4050 lífstíðarembætti. Var þá sýnt fram á, að þetta er algerlega rangt. Í þessum lögum eru eindregin ákvæði, sem heimila stjórninni að víkja sjerhverjum þessara sýslunarmanna frá, ef ástæður eru fyrir hendi. Þetta ákvæði náði ekki aðeins til þeirra, er skipaðir voru af ráðuneytinu, heldur var stjórninni og heimilt að víkja þeim frá með 6 mánaða fyrirvara, sem ekki voru skipaðir af ráðuneytinu. Úr þessum lífstíðarembættum varð þá það, að sumum mátti segja upp hvenær sem var og öðrum með fyrirvara. Auk þess var það greinilega ákveðið í lögunum, að ef nokkur sýslunarmanna framkvæmdi ekki skyldu sína, hafði stjórnin fult vald til þess að láta þann mann fara frá tafarlaust. Það er því ljóst, að allar fullyrðingar hæstv. dómsmrh. um þessi 40–50 lífstíðarembætti voru algerlega út í bláinn. En ef svo hefði verið, að hæstv. dómsmrh. hefði litið svo á í raun og veru, að þessir menn væru óhreyfanlegir í embættunum, þótt í lögunum sje skýrt ákvæði um hið gagnstæða, þá gat hann breytt þessu án þess að traðka vilja þingsins. Hann gat látið nægja að setja mennina, í stað þess að skipa rá í embættin, þangað til honum hefði hepnast á þinglegan og lagalegan hátt að koma öðru skipulagi á þessi mál, með því að láta þingið samþykkja ný lög. Á meðan gátu menn þessir verið settir, enda gera lögin ráð fyrir, að setja þurfi mennina í embættin og að þeir sjeu sýslunarmenn landsins eins þótt þeir sjeu settir.

En hæstv. dómsmrh. þótti þessi krókur of langur; hann var svo áfram um að hnekkja þessu máli, að honum þótti sú keldan betri að brjóta lögin, í stað þess að koma fram eins og þeim manni sæmir, er á að framkvæma vilja Alþingis.

Það urðu ýmsir undrandi, þegar það frjettist, að hæstv. dómsmrh. hefði hreint og beint brotið þessi lög, og einkum varð mönnum erfitt að skilja ástæður hans, þar sem auðsjeð var, að önnur fullkomlega lagaleg leið var honum opin til þess að koma sínum vilja fram.

Því var þá haldið fram, að hæstv. dómsmrh. hafi gert þetta vegna þess, að á eftir honum hafi verið rekið af sósíalistum. Hvað sem hæft er í því, þá er það staðreynd, að svona fór um framkvæmdir hæstv. dómsmrh. á lögum þessum.

Þá ætla jeg að víkja að framkvæmdum hæstv. ráðh. á launalögunum, því að þau standa í nánu sambandi við þetta mál. Launakjör manna á varðskipunum voru skýrt ákveðin í lögum frá síðasta þingi, en þó var stjórninni heimilað að gera hlut sumra skipverja nokkru betri en fastákveðið var.

Fyrir Alþingi liggur nú erindi frá skipstjórum varðskipanna, og með því erindi fylgir brjef, er hæstv. dómsmrh. sendi þessum tveim sýslunarmönnum landsins, dags. 8. des. 1927.

Vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það fyrir hv. deild. Það er svo hljóðandi :

„Eftir stjórnarskiftin síðustu var yður, herra skipstjóri, tilkynt munnlega, að laun þau, sem þjer hingað til hafið haft sem skipstjóri á varðskipinu, væru að áliti stjórnarinnar í ósamræmi við laun starfsmanna ríkisins yfirleitt. Jafnframt var tekið fram, að launin myndu þó haldast óbreytt til áramóta, en þá verða færð til samræmis við laun virðulegustu starfsmanna í þjónustu landsins.

Í áframhaldi af þessu samtali er yður hjer með tilkynt, að frá byrjun janúar næstkomandi verða laun yðar ákveðin jöfn launum skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og aldursuppbót reiknuð frá þeim tíma, er þjer hófuð skipstjórn í þjónustu landsins.

Núverandi landsstjórn lítur svo á, að starfi skipstjóranna á varðskipunum fylgi engin risna, og að það sje beinlínis skaðlegt fyrir starf skipstjóranna sem löggæslumanna landsins, að þeir bindi með risnu kunningsskaparbönd, sem fremur geta veikt en styrkt aðstöðu þeirra við starf sitt í þjónustu landsins.“

Svo mörg eru þau orð, sem hæstv. dómsmrh. sendir þessum tveim starfsmönnum ríkisins, sem búnir eru að starfa árum saman við eftirlit landhelginnar og björgun og sem bjargað hafa tugum mannslífa á hafinu. Þetta er orðsendingin, sem hæstv. ráðh. sendir þeim í jólamánuðinum, og lækkar um leið laun þeirra um 6000 kr. á ári, þrátt fyrir að landslög ákveða þeim hærri laun.

Jeg veit ekki, hvað er meira gerræði en framkoma hæstv. dómsmrh. að því er snertir framkvæmd beggja þessara laga. Hæstv. dómsmrh. tekur sjer það vald að skera með nokkrum pennadráttum niður laun embættismanna ríkisins, þvert ofan í gildandi lög. Um leið tekur hæstv. ráðh. það fram við þessa menn, að hann líti svo á, að þeirra stöðu þurfi engin risna að fylgja. Hún geti komið af stað kunningsskaparböndum, er veikt geti aðstöðu þessara manna til framkvæmda á sínum skyldustörfum. Mjer þykir hlýða að minna á nokkur ummæli, er fjellu frá hæstv. ráðh. sem þingmanni, þegar þetta mál var til umræðu hjer í þinginu í fyrra. Hann segir svo: „Jeg hefi ekki nokkra löngun til að kasta skugga á þá menn, er nú stýra þessum skipum, fremur en þá, sem þar verða í framtíðinni.“ Og ennfremur segir hann: „Jeg skal taka undir með hv. þm. Vestm., að fyrir mjer vakir ekki nein löngun til að spara á kaupi þessara manna.“ Og þriðja setningin, er jeg hefi skrifað úr ræðu hæstv. dómsmrh. frá þessum umræðum, er þessi: „Jeg er gjarnan með því að borga sæmilega skipstjórum og stýrimönnum, aðeins ef maður gerir alt, sem er skynsamlega hægt að gera, til þess að tryggja það, að þeir í nútíð og framtíð gætu leyst sitt vandasama starf vel af hendi.

Jeg álít, að það sje nauðsynlegt, að það sjeu á hverjum tíma á þessum skipum allra bestu og duglegustu menniírnir, sem völ er á.“

Þetta eru ummæli hæstv. dómsmrh. frá síðasta þingi. Jeg get fyrir mitt leyti sagt, að jeg er honum alveg sammála um alt, er hann þarna hefir sagt.

En það, sem jeg lendi í vandræðum með, er að skilja aðferð hans nú gagnvart þessum embættismönnum, samanborið við ummæli hans um þessi atriði, og hvernig hann ætlar að samræma gerðir sínar við þau ummæli, sem jeg hefi skrifað upp eftir honum.

Nú hefir hæstv. dómsmálaráðh. eða stjórnin lagt fyrir þetta þing frv., sem á að gera nýja skipun á launum þessara manna. Í frv. er þessum tveim skipherrum ætluð 5000 kr. frumlaun, sem hækki upp í 6000 kr. eftir níu ár, og auk þess er þeim ekki ætluð dýrtíðaruppbót. (Dómsmrh. JJ: Jú, það á að vera). Þess er hvergi getið í frv., enda hafa flokksbræður ráðh. í Ed. sjeð sig knúða til að bera fram brtt. á þskj. 326 um dýrtíðaruppbót, vegna þess að þeir sáu eins og jeg, að það atriði vantaði í frv.

Hæstv. ráðh. hefir haldið því fram, og heldur því fram í brjefinu til skipherranna, að laun þeirra sjeu of há, samanborið við laun sýslumanna, prófessora o. s. frv. Það vita allir, og jeg býst við, að hæstv. ráðh. viti það líka, að það er engin sanngirni að bera saman laun skipstjóranna, sem nær því ávalt eru á ferðum á höfum úti, og laun manna, sem starfa í skrifstofum í landi, þegar verið er að tala um laun sambærilegra manna. Jeg held, að blað hæstv. ráðh. sje eitthvað að tala um það, að þeir hafi of há laun, samanborið við laun sambærilegra manna, og þá eru það laun skrifstofustjóra í stjórnarráðinu og prófessora, sem hæstv. ráðh. og blað hans hafa fyrir augum; en hvers vegna skýst hæstv. ráðh. yfir að sjá það, að sambærilegir eru aðeins skipstjórar, og þá er hægur nærri að bera saman laun skipstjóra á skipum ríkisins og á skipum Eimskipafjelags Íslands við þau laun, sem ákveðin eru í lögum handa skipherrum varðskipanna. Skipstjórarnir á eimskipum ríkissjóðs og skipum Eimskipafjelags Íslands hafa nú 10½ þúsund krónur, eða rúmlega það, í laun. Þeir höfðu yfir 11 þús. kr. árið sem leið, og við þetta bættist svo ágóðaþóknun, sem þessir skipstjórar eiga rjett á að fá. Hún er auðvitað ekki altaf jafnmikil; það fer eftir því, hvernig útgerðin gengur, en hún hefir þó tvö síðustu árin, t. d. á Gullfossi og Goðafossi, verið hátt á annað þús. kr. á ári. Þessir skipstjórar hafa því, þegar alt kemur til alls, mikið yfir 12 þús. kr. laun, og það eru mennirnir, sem maður getur kallað, að hægt sje að bera skipherra varðskipanna saman við. En að bera þá saman við menn, sem vinna í landi, nær engri átt, hvorki skrifstofumenn eða aðra. Hvort sem maður lítur á þá hliðina, hvort sje hættumeira eða slitmeira fyrir manninn, eða hvort heppilegra sje fyrir hann að vinna fjær eða nær sínu heimili, verður samanburðurinn ólíkur. Nei, það sem fyrir hæstv. dómsmrh. vakir, er það, að fá einhverja átyllu til að fá þetta til að líta bærilega út. Hæstv. ráðh. segir hjer við umræðurnar á síðasta þingi, þegar verið er að ræða um laun þessara manna, að hann hafi ekki nokkra löngun til að kasta, skugga á þessa menn. Hann segir ennfremur, að hann hafi enga löngun til að spara á launum þessara manna. En hvað hefir þá vakað fyrir hæstv. ráðh. við framkvæmd hans á lögunum um laun þessara manna og við framkvæmd hans á lögunum um varðskipin yfirleitt, ef maður á að taka trúanlegar þær yfirlýsingar, sem hv. 1. landsk. (JJ) gaf á síðasta þingi? Nú ætlar hæstv. ráðh. þessum mönnum 5 þúsund króna laun; það er svona nærfelt það sama og matsveinn á öðru ríkissjóðsskipinu hefir nú sem stendur. Það er líka skip sem er landsins eign, þótt það heyri ekki undir hæstv. dómsmrh., en þeir, sem á því eru, eru líka í landsins þjónustu, þótt þeir teljist ekki sýslunarmenn, eins og þeir, sem á varðskipunum eru. Hæstv. ráðh. hefir lýst yfir því, að hann hefði ekki neina löngun til að kasta skugga á þessa tvo menn, sem hjer er um að ræða. Þetta þykir mjer ósköp eðlilegt, því að jeg veit ekki, hvað þeir hafa til þess unnið. En þegar maður sjer, að hæstv. ráðh. notar sitt vald, eftir að hann er kominn í ráðherrasess, til að skera niður laun þeirra um helming, án þess að nokkur sennileg ástæða verði fyrir því færð, verður varla annað sagt en að kastað sje skugga á þessa tvo menn.

Þá heldur hæstv. ráðh. því fram, og hjelt því líka fram á síðasta þingi, að það væri svo ákaflega nauðsynlegt, að þessir menn, sem stjórna varðskipunum, bindi ekki kunningsskaparbönd við neina menn í landi, vegna þess að það geti haft þau áhrif, að þeir yrðu ekki eins sjálfstæðir í sínu starfi. Og í brjefi því, sem hæstv. ráðh. skrifar þeim í desember síðastl., kemst hann aftur inn á það, að þessi risna kunni að verða til að tengja kunningsskaparbönd og geti veikt aðstöðu þeirra. Þegar þetta mál var hjer til umr. í fyrra, gat hann ekki bent á neinn sjerstakan kunningsskap við nokkurn útgerðarmann, því að það er ekki vitarlegt. Hæstv. ráðherra benti á mig, að jeg mundi vera kunningi þessara manna. Það er að vísu satt, að jeg er þeim vel kunnugur, og er ekkert undarlegt við það, þar sem jeg var framkvæmdarstjóri fyrir „Þór“ á meðan Björgunarfjelag Vestmannaeyja átti hann, og þeir voru þá annaðhvort skipstjórar eða stýrimenn á honum. En látum nú svo vera, að þessi hugsunarháttur hæstv. ráðh., þótt kotungslegur sje og hljómi illa í íslenskum eyrum, hefði nú við rök að styðjast; gerum ráð fyrir, að þessir menn myndu vera svo lítilsigldir, að kaffiboð og annað þess háttar hefði áhrif á þá við framkvæmd skylduverka sinna. Við skulum láta gott heita, að hæstv. ráðh. líti þannig á, — en hvernig verður það þá með sjálfstæði þessara manna, eftir hans eigin hugsunargangi, þegar hann vill skera svo niður laun þeirra, að þeir geta ekki verið fjárhagslega sjálfstæðir, því að þeir menn, sem hafa svo virðulegar stöður, sem hjer er um að ræða, þeir geta tæplega lifað svo sparlega, að þeir geti verið fjárhagslega sjálfstæðir með þeim launum, sem hæstv. stjórn ætlar þeim með þessu frv. Þetta tvent rekur sig því algerlega á, og rökrjett afleiðing af þeirri hugsun hæstv. ráðh., að jafnvel risnan gæti bundið þessa menn kunningsskaparböndum við aðra landsmenn, ætti að vera sú, að hann segði: Það þarf að launa þessa menn svo vel, að engin hætta sje á því, að þeir geti ekki orðið fjárhagslega sjálfstæðir.

Í lögunum um laun þessara manna og annara á varðskipunum var það ákvæði ennfremur sett, að sjerhver maður, sem starfaði á varðskipunum, skyldi njóta þess þjónustutíma, sem hann var búinn að vera á Þór meðan hann var í eigu Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Alþingi fjelst á það, að rjett væri að skoða þjónustutíma skipverja á Þór eins og að skipinu hefði verið haldið úti af ríkisins hálfu; var það aðallega afleiðing þess, að Alþingi leit svo á, og fjelst á það í framkvæmdinni, að starf Björgunarfjelagsins með Þór þessi sjö ár, sem hann var í þess eigu, hefði verið þjóðlegt og gagnlegt og verið fyrsti vísirinn að íslenskri, sjálfstæðri landhelgivörn. En hæstv. dómsmrh. dettur ekki í hug að taka heldur neitt tillit til þess ákvæðis; það fer alveg sömu leiðina hjá honum eins og sjálft ákvæðið um lágmark og hámark launanna, og í frv. því, sem nú liggur fyrir þinginu frá stjórninni, er ekki að sjá, að nein tilhneiging sje hjá hæstv. landsstjórn til að líta sömu augum á þetta og Alþingi gerði í fyrra.

Mjer finst þetta vera ákaflega athugaverð framkoma hjá hæstv. dómsmrh., og með því að framkvæmdir hans viðvíkjandi launagreiðslu til skipherranna koma algerlega í bága við yfirlýsingar hans frá síðasta þingi, þá finst mjer, að hæstv. ráðh. vaði hjer eitthvað í villu og svima um þetta mál. Hæstv. ráðh. heldur því fram, að það sje alveg óþarfi, að skipherrarnir á varðskipunum hafi nokkra risnu, en þetta, sem hann kallar risnu, skilst mjer, að muni yfir höfuð vera það, að þeir geti gert gestum gott. Nú er það vitanlegt öllum, að þessir menn verða oft, stöðu sinnar vegna, að taka á móti ókunnugum mönnum, og stafar þetta ekki síst af því, þegar verið er að senda skipin með farþega til og frá, og ætti hæstv. ráðh. þó ekki að vera ókunn sú hlið málsins, því að hann hefir ekki svo lítið notað skipin í snattferðir hjer við land, þar sem segja má, að Óðinn hafi í haust verið hálfgert strandferðaskip. Auk þess tíðkast það hjá eftirlitsskipum allra þjóða, að skipherrarnir heimsækja hverjir aðra í kurteisisskyni, þegar skipin af tilviljun hittast, og verða skipherrarnir þess vegna að vera ávalt við því búnir að fá slíka heimsókn. Jeg veit til þess, að danskir foringjar hafa heimsótt þá íslensku, og verða þeir svo vitanlega að gera það sama aftur. Á Seyðisfjörð kom enskt herskip í fyrra, og kom yfirmaður skipsins þá í heimsókn um borð í gamla Þór, því að hann leit svo á, að það væri stjórnarskip. Held jeg, að sú heimsókn hafi orðið okkur til talsvert mikils góðs, því að íslenski skipherrann notaði tækifærið til þess að ræða við stjettarbróður sinn um landhelgigæsluna, og þá um leið til þess að útskýra fyrir Bretanum ýms atriði, sem hann hafði misskilið í hinni íslensku löggjöf um strandvarnir. Staða skipherranna á varðskipunum er þannig vaxin, að þeim er nauðsynlegt að hafa einhverja þá risnu, sem hæfir þeirra stöðu; en að hún þurfi alls engin að vera, það get jeg ekki fallist á. Þetta er sú íslenska löggjöf, sem harðast og sárast kemur við erlendar þjóðir, og það er aðallega hætt við, að deilur og ýmsar ásteytingar í sambúðinni við aðrar þjóðir kunni að rísa út af framkvæmdum langhelgilaganna og ýmsum öðrum ráðstöfunum, sem standa í mjög nánu sambandi við frelsi þjóðarinnar. Og þeir menn, sem hafa þau mál með höndum og eiga að koma fram fyrir Íslendinga gagnvart útlendingum, verða að vera vel valdir, og alveg eins og hæstv. dómsmrh. sagði í Ed.: „Það verður að sjá svo um, að á hverjum tíma sjeu til þess starfs valdir þeir allra bestu og duglegustu menn, sem völ er á.“ Þessir menn hafa svo mikið vandaverk að leysa af höndum, og er það bæði að því er snertir landhelgigæslu og björgunarstarfsemi. Þeir verða að vera viðbúnir á hverjum tíma, hvort sem það er á nóttu eða degi, til að fara út í hvaða veðri sem er, til þess að leita að bátum og bjarga mannslífum. Á sjálfa jólanóttina síðastliðnu — það hygg jeg þó að hæstv. ráðh. muni vera eins kunnugt og mjer — var Óðinn sendur af stað til þess að leita að bát, og fór þá með svo stuttum fyrirvara, að það mátti segja, að væri aðdáunarvert, hve fljótt var við brugðið, enda ríður að sjálfsögðu mikið á slíku. Þessa menn og starf þeirra álítur hæstv. dómsmrh., að helst sje hægt að bera saman við starfsmenn í stjórnarráðinu. Það eiga að vera mennirnir, sem standa eiginlega næst þeim, að dómi hæstv. ráðherra, að því er snertir ýmsa verðleika. Jeg skil nú ekki í því, að þjóðin, eða að minsta kosti sá hluti hennar, sem helst nýtur góðs af starfi þessara manna, sje sjerlega þakklát hæstv. dómsmrh. fyrir aðgerðir hans í þessu máli; jeg held þvert á móti, að margur muni finna sárt til þess, hve þessir tveir menn hafa verið sárt leiknir af hæstv. dómsmrh. Þeir hafa, eins og einn greinarhöfundur sagði í blaði hjer á dögunum, verið þannig leiknir, að sú aðferð, sem hefir verið viðhöfð gagnvart þessum mönnum, verður varla nefnd öðru nafni, en að hún sje smánarleg í þeirra garð; en það er óvirðing, sem þessir tveir menn eiga alls ekki skilið. Þeir hafa leyst vel af hendi starf sitt, sem nú má heita, að sje orðið þeirra lífsstarf, eftir sjö ára undirbúning á varðskipinu Þór, og það má líka heita, að þeir eigi varla aðgang að öðrum störfum; þeir hafa árum saman unnið við björgun og landhelgieftirlit með stakri skyldurækni og trúmensku. Má hví til sönnunar benda á, að Óðinn hefir nú síðan um áramót dregið í landhelgisjóð í beinum peningum eitthvað um 130 þús. kr. Frá því að Þór byrjaði sitt úthald, hefir hann handsamað 86 skip, sem öll hafa verið sektuð meira eða minna.

Hvað virðist nú hv. þdm., að verði úr rjettarörygginu í landinu, þegar hæstv. dómsrnrh. leyfir sjer að þverbrjóta þau lög, sem hann kann að hafa einhverja andúð á, og hreint og beint hefir af sýslunarmönnum ríkisins þau laun, sem þeim bera samkvæmt landslögum? Þetta eru eiginlega þau undur og ósköp, sem ekki eiga sinn líka hjer á landi, og má það ekki vera óátalið. Það er eins og hæstv. dómsmrh. hafi ætlað sjer að fara að leika þarna einhvern Estrup eða Mussolini og hafi sjerstaklega gaman af hví að sýna þessum tveimur landsins þjónum sína miklu „makt og veldi“.

Það mun hafa verið ofarlega í hæstv. ráðh. að ráðast sömuleiðis á vjelamennina með launalækkun. Sjálfur veit hann best, hvers vegna hann hefir heykst á því. En mjer þykir sú skýring líklegust, að það hafi verið af því, að hæstv. ráðh. veit, að utan um þá stendur stór starfsbræðrahringur, sem hann hefði þá fengið á móti sjer, en að skipstjórunum stendur ekki neinn fjelagsskapur, og hefir hann því búist við, að þar yrði fátt um eftirtölumenn. Þannig hygg jeg, að hæstv. dómsmrh. hafi hugsað. En jeg veit, að margir verða eftirtölumenn skipstjóranna í þessu máli, bæði karlar og konur víðsvegar um land. Það er áreiðanlegt, að ef nokkrir menn hafa unnið fyrir launum sínum, þá eru það þessir menn, sem með dugnaði og trúmensku hafa um margra ára skeið rækt landhelgivarnir og björgunarstarf á sjó.

Framferði hæstv. dómsmrh. er með öllu óverjandi, hrottalegt og ósvífið lagabrot, og gersamlega ómakleg meðferð á þeim mönnum, sem fyrir því hafa orðið.

Hæstv. forsrh. (TrÞ) sagði í kvöld, að hvað sem stefnu sinni liði, yrði hann að hlýða lögunum. Hæstv. dómsmrh. vílar hinsvegar ekki fyrir sjer að brjóta landslög, er honum býður svo við að horfa. Það er náttúrlega gott að skreyta sig með lánuðum og fundnum fjöðrum í áfengismálinu, en betra væri að gefa ekki sjálfur fordæmi með stórkostlegum lögbrotum. „Vörður laganna“ hefir í þessu máli þverbrotið landslögin og „vörður rjettlætisins“ hefir beitt saklausa menn hinu stakasta órjettlæti.