10.02.1928
Efri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

16. mál, búfjártryggingar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það ræður að líkindum, að jeg mun ekki gera brtt. hv. 2. þm. N.-M. (PH) að ágreiningsatriði. Háttv. frsm. meiri hl. landbn. (EÁ) tók það vel fram í ræðu sinni við 2. umr., að alla varfærni bæri að hafa um þetta atriði, og tók jeg vel undir það. En þessi heimild yrði ef til vill ekki notuð á þeim tíma, sem liði þar til endurskoðun færi fram. Þótt jeg nú geri þetta ekki að neinu ágreiningsatriði, þá held jeg samt fast við þá skoðun mína, sem jeg ljet í ljós við 2. umr. þessa máls, að engin hætta geti stafað af þessari heimild. Í reyndinni yrði útkoman sama. En það er auðheyrt, að hv. flm. till. gengur einlægni til, og því er ekki rjett að leggjast á móti, með því að brtt. er meinlaus og getur aldrei skaðað.