08.02.1928
Efri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (680)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Háttv. 3. landsk. (JÞ) hefir nú talað langt mál, en jeg býst ekki við, að jeg þurfi langan tíma til að svara honum. Með frv. því, sem hjer liggur fyrir, er gerð tilraun til að láta þingið fá varanlegt vald yfir bessum málum. Það er óneitanlega nokkuð undarlegt, að þm. skuli setja sig upp á móti því, að vald þingsins sje aukið. Nefnd þessi á að vera kosin með hlutfallskosningu, og er því líklegt, að hún verði skipuð trúnaðarmönnum flokkanna. Og það er einkennilegt, að hv. formaður Íhaldsflokksins skuli setja sig upp á móti því, að sá flokkur fái þar fulltrúa.

Jeg get búist við, að það geti valdið nokkru um afstöðu hv. 3. landsk., að hann sje ókunnugur því, hvernig þessum málum er háttað með öðrum þjóðum. Með till. minni er miðað að því að skapa meira jafnvægi í stjórn þessara mála og gera þau óháðari þeim sveiflum, sem tíð stjórnarskifti og pólitísk bylgjuköst valda. Í því sambandi get jeg sagt honum það, að til dæmis í Sviss er það svo, að minni hluti hefir altaf menn í stj., og er það talið holt einmitt af sömu ástæðum og jeg nefndi áðan. Hv. þm. (JÞ) hefir hjer sem oftar reynt að verja skipulagsleysið og núverandi ástand. En til dæmis um það, hvernig þessum málefnum er nú farið, má nefna, að árum saman hefir landið ekkert keypt af okkar mesta og frægasta málara.

Svo að jeg snúi mjer beint að till. hv. 3. landsk., þá er það um þær að segja, að þær mundu, ef samþ. yrðu, verða til þess að eyðileggja grundvallarhugsun frv., svo að hún nyti sín alls ekki í framkvæmdinni. Og þó að ýmsir hafi, ef til vill, ekki enn gert sjer ljósa grein fyrir nauðsyn þess að breyta til um meðferð þessara mála, þá er það spá mín, að bráðlega muni svo fara, að það þyki hyggilegra að koma einhverju skipulagi á í þessum efnum.

Jeg skal geta þess, að till. um altaristöflurnar er komin frá listamönnum landsins og miðar að því, að íslenskir málarar fái tækifæri til að vinna að þessum verkefnum. Undanfarið mun það yfirleitt hafa verið svo, að flestar þær altaristöflur, sem keyptar hafa verið til kirkna, hafa verið verk erlendra málara. Ef engir íslenskir málarar eru til, sem int geta þetta af hendi, er því að svara, að þeir munu koma um leið og þeim er gert mögulegt að stunda list sína. Hitt, að frelsi safnaðanna sje skert um of með þessu, er vitanlega hin mesta firra. Ef hv. 3. landsk. gæfi mjer fje til húsbyggingar hjer í Reykjavík, þá yrðum við báðir, hann sem gefandi og jeg sem þiggjandi, að beygja okkur fyrir byggingarsamþykt Reykjavíkur. Það er þjóðfjelagið sjálft, sem leyfir sjer að hafa þannig eftirlit með athöfnum einstaklinganna, alveg á sama hátt og hjer er til ætlast, og við því er ekkert að segja. Það er nokkuð, sem menn verða að láta sjer lynda.

Þá er námsstyrkurinn. Nú er það á valdi algerlega ábyrgðarlausrar nefndar, hvaða stúdentar fá styrk til náms erlendis, og hún hefir enga aðstöðu til þess að hafa eftirlit með þeim. Hún er nú skipuð 3 mönnum. Einn þeirra er rektor mentaskólans, sem nú er fjörgamall maður og hefir því enga aðstöðu til þess að fylgjast með þróun þjóðfjelagsins og þörfum þess fyrir starfsmenn á ýmsum sviðum. Jeg segi þetta ekki honum til lasts persónulega og vil taka það fram, að hann er hinn mætasti maður og vel lærður í sinni grein. En hann hefir enga aðstöðu til þess að geta dæmt um, hvað landið þarf til dæmis marga verkfræðinga. Svipað mætti jafnvel segja, þótt ungur maður væri rektor. Um stúdentaráðið, sem skipar annan mann í nefndina, er það að segja, að það er ekki rjettur aðili í þessu máli. Sama er að segja um háskólakennarana, sem leggja til þriðja manninn.

Ennfremur er þess að gæta, að þegar kominn er annar mentaskóli, sem ef til vill útskrifar eins marga stúdenta og Reykjavíkurskólinn, þá er það hlutdrægni að láta aðeins annan skólann hafa áhrif á veitingu styrkjanna. Með mínu frv. á að koma í veg fyrir, að úthlutun þessa styrks verði leikur eða dutlungaverk. Það er skylt að sjá svo um, að hún sje framkvæmd samviskusamlega og hlutdrægnislaust, fyrst og fremst með tilliti til þarfa þjóðfjelagsins og jafnframt til verðleika nemendanna. En sleifarlagið í þessum efnum kom berlega í ljós, þegar sú stjórn, sem þessi hv. þm. (JÞ) studdi, veitti öllum stúdentum, sem voru við nám erlendis, styrk, án þess að vita, til hvers átti að nota fjeð. Tel jeg nú fyllilega tíma til kominn að ráða bót á skipulagsleysi því og ráðleysi, sem verið hefir.

Um það, að þessi nefnd geti ekki staðið í sambandi við sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, er það að segja, að sendiherrann svarar brjefum frá fleirum en stj. og þinginu, og engu síður myndi hann svara brjefum frá slíkri nefnd sem þessari, löglega skipaðri af þinginu.

Að því leyti, sem háttv. þm. (JÞ) neitar því, að nefndin geti úthlutað ókeypis farseðlum til útlanda, skal jeg geta þess, að í minni stuttu stjórnartíð hefir stjórnin úthlutað nokkrum slíkum farseðlum. Nú lítur út fyrir, að hún fái nokkurt vald yfir fari til útlanda hjá Eimskipafjelagi Íslands, vegna þess mikla styrks, sem ríkið veitir því. Skal jeg nú nefna eitt dæmi þess, hvernig jeg hugsa mjer, að stjórnin noti þetta vald. Í sumar verða olympisku leikarnir háðir, og mun Íþróttasamband Íslands vilja senda þangað flokk manna, en stærsti útgjaldaliðurinn verður sjálfsagt fargjaldið. Af gömlum vana mun nú þingið líklega leggja nokkurt fje til fararinnar. En sje það engum skilyrðum bundið, geta íþróttamennirnir farið með hvaða skipum sem þeir vilja, dönsku eða norsku skipunum, en íslensku skipin fara þá ef til vill nærri tóm. Hjer er aðeins farið fram á að undirbúa það, sem jeg efast alls ekki um, að verði verulegur sparnaður að, nefnilega að landið spari sjer fje með því að nota þann farkost, sem segja má, að það eigi, þegar litið er á þann mikla styrk, sem ríkið leggur fjelaginu til.

Beiskja sú, sem kemur fram hjá hv. þm. (JÞ) gagnvart 3. gr. frv., er með öllu óverðskulduð. Hv. þm. er beinlínis illa við, að numin sjeu úr gildi lögin frá 1925, ákvæðin um þessa miður hyggilegu ráðstöfun á námsstyrk stúdenta. En jeg verð að benda hv. 3. landsk. á það, að naumast verður á hann litið sem neitt „autoritet“ í þessu efni. Hv. þm. mætti vera þess minnugur, hversu hraparlega honum hefir sjálfum yfirsjest, bæði gagnvart stjórnarskránni og þingsköpunum. Hann þarf ekki að búast við, að vindhögg sín skjóti nokkrum skelk í bringu. Og jeg býst líka við, að hann reki sig á það, að sá kancellistíll, sem gerði það að verkum, að ekki var skoðað hjá sýslumönnum þessa lands nema á tíu ára fresti, getur horfið eins og ýmsir aðrir gamlir stjórnarhættir frá einveldistímanum, og menn verða að sætta sig við það.

Till. hv. þm. (JÞ) um að greiða nefndinni kaup er jeg algerlega mótfallinn. Ef flokkarnir hafa menn, sem vilja gera þetta fyrir ekki neitt, þá er það gott. En sje svo ekki, verður að ákveða einhverja upphæð í fjárlögum, og má fara nærri um, hversu mikil hún þurfi að vera, þegar nefndin hefir starfað um stund.

Jeg hygg, að í þeim stjórnmálaflokki, sem jeg telst til, sjeu menn, sem mundu taka þetta að sjer kauplaust, og að óreyndu hefi jeg ekki ástæðu til ætla annað um flokk hv. 3. landsk. Tel jeg því rjett og sjálfsagt að fresta að ætla nefndinni kaup, en nota tækifærið til að reyna fórnfýsi þeirra manna, er unna menningu þjóðarinnar.