29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1634 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Frv. þetta skýrir sig að miklu leyti sjálft, en þó vildi jeg fara nokkrum orðum um tilgang þess. Það er að vísu rjett hjá háttv. 1. þm. Reykv. (MJ), að þetta er ekkert stórmál. En það er þó fyllilega þess vert að samþykkja það.

Jeg ætla fyrst að minnast á 2. liðinn, sem er um það, að nefndin, fyrir landsins hönd, festi kaup á listaverkum fyrir það fje, sem til þess er veitt. Í þessi kaup ríkissjóðs hefir vantað festu hingað til. En jeg geri ráð fyrir, að hún skapist með þessu, þar sem líklegt er, að slík nefnd, sem hjer er gert ráð fyrir, myndi starfa lengi. Jeg geri og ráð fyrir, að þeir menn, hvort sem þeir væru 3 eða 5, sem þingið kysi til þessara starfa, yrðu ekki háðir stjórnarskiftum, og fáist því meiri festa og samræmi í meðferð þessara mála en nú á sjer stað og verið hefir að undanförnu.

Viðvíkjandi c-liðnum er jeg ekki eins vondaufur eins og hv. 1. þm. Reykv. (MJ), og vil jeg í því sambandi benda á annað frv., sem er síðar á dagskránni í dag. Jeg hugsa mjer, að ákvæði þess liðs geti t. d. komið til greina, þegar erlend smyglaraskip koma hjer til lands og eru gerð upptæk. Mætti það verða til þess, að hjer yrði síðar meir hægt að koma upp listasafnshúsi. Málverkasafn ríkisins er nú á flækingi. Sumt af því er hjer í þessu húsi, sumt í ráðherrabústaðnum, 5–6 málverk hefi jeg lánað til ríkisskólanna og eitt er jeg nú að senda til kennarastofu háskólans.

Þá kem jeg að d-liðnum, sem nefndin hefir ekki getað fallist á óbreyttan. Málurum vorum þykir nú, sem vænta má, ekki gott, að 3. til 4. flokks útlendir málarar skuli vera látnir mála altaristöflur í kirkjur vorar, þó að hinir innlendu menn væru alveg eins eða betur færir um að gera það. Og það varðar miklu í þessu efni, að smekkleysið sje ekki látið ráða. Til dæmis um það vil jeg benda á, að Magnús heitinn á Grund rjeðst í að láta gera þar kirkju og sparaði ekkert til, eyddi í það miklum hluta af auði sínum, en árangurinn varð smekkleysa. Jeg álít jafnvel betra, að engin kirkja væri á Grund en þetta hlægilega víravirki, sem þar er, og er leitt að þurfa að segja þetta, því að það er víst, að Magnús Sigurðsson vandaði bygginguna eftir mætti og af besta vilja. Hjer er einmitt bent á leið til að koma í veg fyrir, að slíkt komi fyrir að því er snertir altaristöflur. Ríkið hefir fullan rjett á að gera kunnugt, að það vilji ekki láta óprýða kirkjur sínar með smekklausum altaristöflum, og koma í veg fyrir, að það sje gert. Meðan þjóðkirkja er, sem ríkið kostar, virðist alveg sjálfsagt, að eftirlit sje haft með þessu. En jeg verð að segja, að frá mínu sjónarmiði er sama að samþ. brtt. nefndarinnar og að fella liðinn.

Þá er e-liðurinn, um úthlutun á námsstyrk. Hann á ekki fremur við stúdentastyrk en annan styrk, sem veittur er til náms erlendis. Jeg hefi þá skoðun, að þingkosin nefnd, skipuð fulltrúum allra stærstu flokkanna á þingi, hljóti að vita betur en til dæmis rektor mentaskólans um það, hvort landið þarfnast margra sjerfróðra manna og á hvaða sviði helst. Með því að gera ráð fyrir, að allir flokkar eigi þarna fulltrúa, má. líka vænta þess, að hugsunarháttur allra þjóðmálastefna fái að njóta sín.

Í sambandi við þessa ráðstöfun get jeg ekki stilt mig um að nefna hið merkilega dæmi Japana, sem gerði þá að vestrænni þjóð á einum mannsaldri. Þar voru valdir úrvalsmenn úr öllu landinu og sendir til Evrónu til að kynna sjer vestræna menningu og læra af henni. Þegar þessir menn komu heim, bygðu þeir upp hið japanska stórveldi. Hjer er ekki til neitt varanlegt vald nema þingið, og sýnist því rjettast, að þessum málum sje stjórnað sem mest í samræmi við það.

Þá er f-liðurinn, um að nefndin skuli úthluta ókeypis fari milli landa til þeirra manna, sem ferðast til alþjóðar gagns. Í því sambandi vil jeg benda á menn eins og Matthías Jochumsson. Hvílíkur fögnuður hefði verið fyrir þann mann að eiga þess kost að komast til útlanda með þeim hætti. Um umráð ríkisins yfir ókeypis fari milli landa hefi jeg það að segja, að jeg tel, að vegna þess mikla styrks, sem ríkissjóður veitir árlega Eimskipafjelagi Íslands, eigi stjórnin og hljóti að hafa ráð á nokkrum farrýmum. Matthías Jochumsson barðist við það; þrátt fyrir mikla fátækt, að komast nokkrum sinnum utan, og það er alveg víst, að þær ferðir áttu mikinn þátt í að gera hann að þeim manni, sem hann varð. Og það er einmitt svipað ástatt um suma okkar bestu menn nú, til dæmis Einar Jónsson myndhöggvara, að þeim er það lífsnauðsyn að komast til útlanda öðru hverju. Við erum oft að reyna að hjálpa listamönnum vorum til þessa, og jeg skal geta þess, að mjer tókst nýlega, í fjelagi við hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh), að hjálpa Kjarval málara, sem nú er í París, til þess að komast utan, með því að útvega honum ókeypis far til Englands. Jeg þykist vita, að hv. 1. þm. Reykv. (MJ), sem sjálfur er listamaður, skilji þetta vel og geti fallist á þetta.

Jeg sje, að ýmsir hv. þdm. munu vera ánægðir með frv., þar sem fram er komin till. til þál., sem gerir ráð fyrir tilveru þessarar nefndar. Það atriði, að nefndarmenn skuli vera 5, en ekki aðeins 3, er auðvitað ekki verra, að öðru leyti en því, að ef nefndin verður launuð, eykur mannfjölgunin kostnaðinn.