13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

9. mál, menntamálaráð Íslands

Frsm. meiri hl. (Erlingur Friðjónsson):

Jeg hefi ásamt 2. þm. N.-M. leyft mjer að bera fram brtt. við b-lið 2. gr. frv. þessa, sem er á dagskrá. Hún er í því fólgin, að liðurinn er gerður fyllri og inn í hann aukið, að mentamálaráðið leggi samþykki sitt á uppdrætti af kirkjum þjóðkirkjusafnaða, bæði nýbyggingum og breytingum, svo og hvar kirkja skuli standa. Ennfremur er farið fram á, að orðalagi verði breytt lítið eitt á sama lið, þannig að þetta „ef óskað er“ falli burt. Því það liggur í augum uppi, að ekki verða keyptar altaristöflur, nema hlutaðeigandi söfnuðir óski þess. Annars er ekki ástæða til þess að fjölyrða um þessa brtt. En jeg og hv. meðflutningsmaður minn lítum svo á, að það sje nauðsynlegt, að mentamálaráðið hafi hönd í bagga með uppdráttum af kirkjum, bæði ef bygðar eru nýjar kirkjur og ef kirkjum er breytt. Einnig er þess full þörf, að ráðið hafi íhlutunarrjett um það, hvar kirkjur eru settar.

Jeg býst nú að vísu við, að um þetta geti verið skiftar skoðanir. En af því að mjer fanst eðlilegt og sjálfsagt, að þessum ákvæðum væri bætt í frv., þá leyfði jeg mjer að koma fram með þessa brtt., ásamt meðflutningsmanni mínum. Og meðan henni hefir ekki verið andmælt, sje jeg ekki ástæðu til þess að fara um hana fleiri orðum.