28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Magnús Guðmundsson:

Það er alveg rjett hjá hæstv. atvmrh. (TrÞ), að þótt nefndin hafi komist að sömu niðurstöðu, þá hefir hún ekki komist að henni með sömu forsendum.

Jeg fyrir mitt leyti vildi, að stjórnin hefði sem óbundnastar hendur í þessum efnum, og þar sem hún vildi fá þessa heimild, taldi jeg sjálfsagt, að hún fengi hana.

Við yfirlýsingu hæstv. atvmrh. hefi jeg ekkert að athuga. Mjer þykir það ekki nema vonlegt, að hæstv. stjórn hafi enn ekki tekið endanlega afstöðu til þess, hvernig þessi vandamál verða leyst í framtíðinni. Jeg vil því skjóta því til hæstv. atvmrh., að þótt jeg greiði atkvæði með því, að þessi heimild verði veitt, þá liggur ekki í því nein ósk frá mjer til hæstv. stj. um það, að heimildin verði notuð, nema því aðeins, að hæstv. stj. sýnist það rjett. Jeg veit, að hæstv. stjórn mun hafa í mörg horn að líta á næstunni, og vil engan veginn, að þingið leggi hart að henni um að nota þær stóru heimildir til framkvæmda, sem það mun gefa henni, nema því aðeins, að hún sjái, að fjárhagsafkoman leyfi það.

Hinsvegar álít jeg þetta mál svo mikið menningar- og framfaramál, að jeg álít, að það væri mjög æskilegt, að undinn væri eins bráður bugur að framkvæmd þess og hægt er.

Hvað það atriði snertir, að fyrirhuguð stöð væri höfð svo stór, að hún dragi um alt land, þá vil jeg aðvara hv. þdm. um það, að það eru alstaðar til svo kallaðir „dauðir punktar“, þar sem ekkert heyrist. Og reynslan hefir sýnt, að þessir staðir eru sjerstaklega margir hjer á landi. Er það talið vera vegna hinna mörgu og háu fjalla. Jeg er því ekki viss um, að hægt sje að fá svo öfluga stöð, að til hennar heyrist á hverju býli á landinu, eins og hjer hefir verið til orða tekið. Jeg vil taka undir með hv. frsm. (GunnS) um það, að það beri að leggja megináhersluna á það, að útvarpið leggist ekki niður hjer á landi. Jeg mundi álíta það mjög misráðið, jafnvel þótt menn hafi verið talsvert óánægðir með starfsemi þess fjelags, sem hingað til hefir með það farið.

Jeg hefi það eftir formanni milliþinganefndarinnar, að það muni taka um eitt ár að koma upp nýrri stöð, og ef hlje ætti að verða á útvarpsstarfseminni allan þann tíma, þannig að engu væri útvarpað hjeðan, þá held jeg, að það sje óhætt að telja það fullvíst, að þá mundi óánægjan með það verða engu minni en hún er nú með h/f „Útvarp“.

Jeg vil að lokum aðeins undirstrika það, að þótt þessi heimild verði samþ., þá ætlast jeg ekki til þess, að hún verði neitt band á hæstv. stj. til framkvæmda í þessu efni, frekar en hún sjálf vill vera láta.