28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Mjer virðist, að okkur hv. 2. þm. Reykv. (HjV) greini ekki á um veruleg atriði í þessu máli. Mjer skilst, að það, sem okkar skoðanir skilur, sje það, að jeg álít, að ríkinu beri að taka að sjer rekstur útvarpsins aðeins til þess að útvarpsstarfsemin leggist ekki niður hjer á landi, en hann leggur á hinn bóginn enga áherslu á það atriði.

Til þess að koma þessu í framkvæmd, get jeg vel hugsað mjer þá leið, að ríkið taki lán í því skyni, og jeg fyrir mitt leyti vildi óska, að það væri gert. Því að það er ómótmælanlegt, enda hefir enginn mælt því í gegn, að þetta mál er mjög mikið menningarmál, og þá sjerstaklega fyrir sveitirnar.

Mjer skildist á hv. 2. þm. Reykv., að hann vildi jafnvel heldur, að útvarpið legðist niður um stund en, að h/f „Útvarp“ hefði það með höndum áfram.

Jeg vil aðeins benda hv. þm. (HjV) og öðrum hv. þdm. á það — því jeg veit ekki, hvort öllum er það nægilega ljóst —, að ef svo færi, að útvarpið yrði algerlega lagt niður um hríð, þá mundi vafalaust mikill hluti þeirra 600 manna, sem nú hafa tæki hjer á landi, ekki taka það aftur, er það væri endurreist.

Afstaða hæstv. atvmrh. (TrÞ) til þessa máls líkar mjer yfirleitt vel, en jeg vildi þó frekar undirstrika það sem mína skoðun, að jeg legg mjög mikið upp úr því, að útvarpsstarfseminni verði haldið áfram, og meira en hinu, hvort það yrði ríkið eða h/f „Útvarp“, sem það gerði.

Viðvíkjandi hinu danska radiofjelagi og samningum þess get jeg getið þess, að jeg legg ekki mikið upp úr samningum við það. En annars er það mál ekki til umr. hjer, og jeg álít, að hæstv. atvmrh. eigi að hafa alveg óbundnar hendur um það, hvernig hann hagar samningum við það eða h/f „Útvarp“.

Um það getur þingið engu ráðið öðruvísi en gagnvart hæstv. atvmrh.