28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Hjeðinn Valdimarsson:

Það má vel vera, að jeg hafi ekki gert nægilega skýra grein fyrir skoðun minni á bráðabirgðaákvæðinu í fyrri ræðu minni, og skal jeg því reyna að gera það nokkuð ítarlegar.

Mín skoðun er í stuttu máli þessi: Ef megináhersla er lögð á það, eins og hv. frsm. nefndarinnar gerir, að útvarpið megi með engu móti leggjast niður, og ef stj. líst ekki af einhverjum ástæðum rjett að nota lántökuheimildina til þess að kaupa nýja og stóra stöð, en vill hinsvegar taka að sjer rekstur útvarpsins með minni stöð til bráðabirgða, þá fæ jeg ekki annað sjeð en að stj. sje til neydd að semja við h/f „Útvarp“ um að kaupa eða taka að sjer á annan hátt hina litlu og ófullkomnu stöð þess.

Byggi jeg þetta á orðalagi bráðabirgðaákvæðisins, þar sem segir, að stj. sje því aðeins heimilt að taka að sjer bráðabirgðarekstur með minni stöð, að „það komi ekki í bága við rjett þess fjelags, sem nú hefir einkarjett á rekstri útvarps“.

Jeg sje enga ástæðu til þess að hjálpa því fjelagi með því að kaupa stöð þess, nema því aðeins, að það verði gert ríkinu að skaðlausu. En það álít jeg, að ekki verði, nema stj. sje viss um það, áður en hún festir kaup á hinni litlu stöð, að hún geti komist að þeim samningum við það fjelag, sem mundi selja stóru stöðina, að hin litla mætti ganga upp í verð hennar.

En ef svo væri ekki, álít jeg betra að hætta við útvarpið um hríð en að eiga það á hættu að verða að hafa enn um mörg ár þessa alt of litlu stöð, sem aðeins er fyrir Reykjavík og nágrenni, en alls ekki fyrir sveitirnar.

En jeg álít, að fyr sje útvarpinu ekki komið í gott horf en það nær um land alt, jafnvel þótt einhversstaðar kunni að vera „dauðir blettir“, eins og hv. 1. þm. Skagf. (MG) var að vara menn við.

Jeg ber hið besta traust til hæstv. forsrh. (TrÞ) í þessu máli, en tel það ekki óeðlilegt, þegar stj. er veitt slík víðtæk heimild, að einstakir nefndarmenn láti í ljós skoðun sína á því, hvort henni skuli beitt eða ekki, eða hvenær henni skuli beitt.

Jeg er ekki eins hræddur og hv. 2. þm. Rang. (GunnS) um, að þótt útvarpið legðist niður nokkra stund, þá mundu menn eyðileggja tæki sín og mundu ekki byrja að hlusta aftur, er það væri tekið upp af nýju. Menn eru ekki svo áfjáðir í að ónýta eignir sínar, þó að þeir geti ekki notað þær í bili. Enda er það kunnugt, að allmörg þeirra tækja, sem hjer eru til, eru svo stór, að með þeim heyrist frá útlöndum, og geta menn því notað þau, þótt útvarpsstöðin hjer legðist niður.