28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Pjetur Ottesen:

Það er nú svo um þetta mál, að á því eru tvær hliðar. Önnur er þau fjárhagslegu not, sem þjóðin getur haft af víðvarpi, en hin er hin menningarlegu not, sem þjóðin hefir af því.

Sú reynsla, sem fengist hefir af víðvarpinu erlendis, og síðar hjer fyrir þá ófullkomnu tilraun, sem hjer hefir verið gerð, sýnir, að ekki kemur til mála að láta útvarpsstarfsemina falla niður. Hjer á landi eru alveg sjerstakar aðstæður, strjálbygð og erfiðleikar á samgöngum og fleira, sem gerir víðvarp hjer sjerstaklega nauðsynlegt.

Þá kemur sú spurning, hvaða leið sje líklegust til framkvæmda í þessu máli, og virðist það hafa komið fram í umr., sem hjer væri ekki um aðra leið að ræða en þá, að ríkið tæki að sjer rekstur útvarps. Mjer skilst, að þessi skoðun muni aðallega byggjast á því, hvað miklir erfiðleikar hafa orðið á vegi þess fjelags, er brotið hefir ísinn og haft forgöngu að því að hrinda málinu í framkvæmd. En það lætur að líkum, þó að fjelaginu reyndist þetta erfitt, þar sem hjer er um nýmæli að ræða, og í slíkum tilfellum eru byrjunarörðugleikarnir jafnan miklir.

Nú vil jeg spyrja: Eru ekki líkindi til þess, að þetta fjelag geti eflt svo fjárhagsaðstöðu sína, að við það mætti hlíta?

Samkvæmt útreikningum nefndar þeirrar, sem skipuð var til að rannsaka og undirbúa útvarpsmálið, sem fljótt á litið virðast ekki ógætilegir, þá á þetta fyrirtæki — að minsta kosti þegar nokkuð líður frá — að geta borið sig fjárhagslega.

Jeg er þess fullviss, að þær áætlanir, sem nefndin hefir gert um notkun víðvarps, muni standast, þegar frá líður, og jeg er sannfærður um, að notkunin verður síst minni en nefndin hefir gert ráð fyrir. Og því finst mjer ástæða til að halda, að hægt sje að stofna fjelag til að framkvæma málið á öruggum fjárhagslegum grundvelli. Hitt finst mjer ekki óforsvaranlegt, meðan notkun víðvarps er að fá útbreiðslu og fjelagið á við fjárhagslega erfiðleika að stríða, þó að ríkið veiti styrk til að hrinda málinu áfram á þeim grundvelli. Jeg vildi benda á það, að framkvæmd málsins er alveg eins hugsanleg á þennan hátt, því að jeg fyrir mitt leyti vil alls ekki slá því föstu, að það sje eina lausnin á málinu, að ríkið taki við rekstri útvarpsins. En ef það er rjett, sem jeg býst við að sje, að rekstur á víðvarpi falli vel saman við starfsemi landssímans, eru sjerstakar ástæður fyrir hendi, þó að hin sjerstaka aðstaða landssímans gæti vitanlega líka komið að liði, ef útvarpsreksturinn væri í höndum einkafjelags. En að slá því fram órökstuddu að öðru leyti, að eina leiðin sje að starfrækja víðvarp með ríkisrekstri, vil jeg ekki fyrir mitt leyti samþykkja, þó að jeg greiði atkv. með frv. Og jeg vil skjóta því til hæstv. stj., sem jeg býst við að verði falið málið, að taka þessa möguleika til athugunar. Jeg efast ekki um, að víðvarpið muni hafa mikla fjárhagslega þýðingu fyrir landsmenn og sömuleiðis mikið menningargildi: Af því að jeg hefi heyrt því haldið fram, að það sje nauðsynlegt fyrir sveitirnar að geta notið þeirra menningarstrauma, sem gert er ráð fyrir að streymi frá Reykjavík, er það athugandi, hvað menn telja menningarstrauma. Og jeg fyrir mitt leyti vil alls ekki slá því föstu, að allir straumar frá Reykjavík sjeu menningarstraumar. Hitt er auðsætt og beint fjárhagsatriði, að þegar menn hafa tileinkað sjer víðvarp alment, þá má t. d. fækka prestunum. Það leiðir af sjálfu sjer, að í strjálbygðum sveitum er betra að vetrarlagi að hlýða messu heima hjá sjer en að sækja um langan veg til kirkju, auk þess sem þeir munu fengnir til að prjedika í víðvarp, sem bæði hafa tök og hæfileika til að hrífa hjörtu manna, en í jafnfjölmennri stjett sem prestastjettinni eru ekki allir færir til þess.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg greiði atkv. með frv., en vil leggja áherslu á það, að stj. athugi jafnframt, hvort ekki eru tök á að reka víðvarpið áfram á grundvelli einka- eða fjelagsrekstrar.