28.02.1928
Neðri deild: 34. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1664 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Bjarni Ásgeirsson:

Mig langar til að andmæla hv. 2. þm. Árn. (MT), vegna þess, að það kvað við hjá honum í öðrum tón en öðrum þeim, sem talað hafa í þessu máli. Jeg er honum mjög ósammála og er sannfærður um, að útvarpið er hið mesta nytja- og menningarmál, sjerstaklega fyrir sveitirnar.

Það er nú svo í mörgum sveitum, að fjöldi manns er vikum og jafnvel mánuðum saman slitinn úr sambandi, ekki aðeins við umheiminn, heldur einnig við sveitunga sína. Fyrir þá menn er þetta mál reglulegur fagnaðarboðskapur. Hv. 2. þm. Árn. sagði, að rekja mætti hina frægu draugasögu á Litlu-Þverá frá útvarpinu. (MT: Mjer var sagt það). Jeg lít svo á, að hjer sje haft hausavíxl á hlutunum. Hjátrú og hindurvitni þróast best hjá þeim, sem slitnir eru út úr sambandi við þjóð sína og landa. Ef menningarstraumar þeir, sem veita má í gegnum útvarpið, geta ekki kveðið slíkar bábiljur niður, veit jeg ekki, hvað ætti að geta það. Jeg viðurkenni, að ekki er hægt að fullyrða, að alt, sem frá Reykjavík kemur, sje til bóta. Við, sem lesum blöðin, með öllum sínum ósannindum, vitum best, að svo er ekki. En jeg er sannfærður um, að þetta getur orðið hið mesta menningarmál fyrir þjóðina, ef rjett er á haldið, og því er nauðsynlegt, að ríkið taki málið að sjer og reki það til fræðslu og menningar. Að því leyti er jeg algerlega andvígur hv. þm. Borgf. (PO). Það getur ekki komið annað til greina en að ríkið reki útvarpið. Ella mætti alveg eins fela einhverju gróðafyrirtæki barnafræðslu í landinu og kirkjumálin. Jeg vil taka undir með hv. 2. þm. Reykv. (HjV), að þetta getur orðið framtíðarmál, og því má til að koma því á fastan grundvöll, svo að þjóðin verði ekki aftur fyrir vonbrigðum. Það verður að leggja meiri áherslu á það en þó að starfsemin falli niður í nokkra mánuði. Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að menn ættu erfitt með að eignast tækin, vil jeg benda á það, að ef stöðin verður nógu stór, er það trygt, að allir geti eignast tækin. Og jeg vil skora á hæstv. atvmrh. (TrÞ) að beita sjer svo fyrir þessu máli, að tækin verði komin inn á hvert heimili í landinu, og þá sjerstaklega í sveitunum, áður en á löngu líður.