29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla ekki — eins og hv. 1. þm. Rang. (EJ) kemst að orði — að fara að snúa mig og gera mig mannalegan gagnvart þeirri ræðu, sem hv. þm. flutti; hún gefur mjer ekki tilefni ti] að segja mörg orð. Það var af því tilefni, að jeg stóð upp, að hv. þm. viðhafði þau orð, að jeg hefði reynst brigðmáll gagnvart Rangæingum í ákveðnu máli, sem hann nefndi. Jeg efa ekki, að hv. þm. líti svo á frá sínu sjónarmiði, en jeg ætla að gera það ljóst frá mínu sjónarmiði, að þetta er ómakleg ásökun. Hann sagði, að jeg hefði á þingmálafundi haustið 1926 getið þess, að jeg mundi vilja styðja að því að hrinda í framkvæmd því, sem þyrfti til þess að bæta samgöngur fyrir bændur austan fjalls. Síðan hefði jeg greitt atkvæði hjer í deildinni móti máli, sem hv. þm. kallaði járnbrautarmál. Jeg vil segja hv. þm. það, að málið, sem hv. þm. talaði um, dettur mjer ekki í hug að kalla járnbrautarmál. (EJ: Útúrsnúningur!). Það er ekki útúrsnúningur. Það munu hafa verið leidd rök að því, að fjármagnið, sem þarf til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd, verksmiðjurekstrinum í sambandi við það, muni ekki geta orðið minna en 80–100 miljónir króna; og járnbrautin muni kosta einar 6 miljónir. Það er 6–8% af allri upphæðinni; hitt fer í það stórkostlegasta fyrirtæki, sem nokkur maður hefir nokkurn tíma hugsað sjer að koma upp á þessu landi. Það er fjarstæða að kalla þetta járnbrautarmál fyrst og fremst. Það er að langmestu leyti stórvirkjunarmál. Jeg greiddi atkvæði móti málinu á síðasta þingi af því, að jeg hefi áhuga fyrir því að búa að bændum austanfjalls um samgöngubætur með farsælli framkvæmdum en þar var um að ræða.

Háttv. þm. var að álasa bændum í Framsóknarflokknum. (EJ: Vorkenna!). „Álasa,“ sagði hv . þm., þó að hann kannske vorkenni þeim með því að álasa þeim! Jeg þarf litlu að svara til um þetta; en það er enginn vafi á, hver dómur sögunnar verður um það, hverjir eru vorkunnarverðari, þegar gert verður upp, hvernig fulltrúar sveitanna hafa staðið gagnvart málum bænda.

Svo vil jeg að síðustu þakka háttv. þm. í nafni stjórnarinnar fyrir þau orð, sem hann ljet falla til eins ráðherrans (MK), sem jeg get skrifað undir orði til orðs. En svo vil jeg benda hv. 1. þm. Rang. á það um hæstv. fjmrh., sem hann segir, að fari sínar leiðir — og er satt og rjett; — hvaða leiðir hann hefir farið. Hann hefir nálega alla tíð eftir að Framsóknarflokkurinn var stofnaður starfað í þeim flokki með sínum miklu og ágætu kröftum, og nú, þegar Framsóknarflokkurinn myndar stjórn, gekk hann ótrauður inn í ráðuneytið, til mjög ánægjulegs samstarfs við sína flokksmenn. Þannig fer fyrir bestu flokksmönnum. — Má jeg minna hv. þm. á hið forna: Far þú og ger hið sama.