14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

8. mál, ríkisrekstur á útvarpi

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Jeg álít, að það liggi fullkomlega í hendi stj. að ákveða, hversu myndarlega stöð hún byggir. Að því leyti var fyrirvari hæstv. dómsmrh. (JJ) óþarfur. Hæstv. stjórn ræður því alveg sjálf samkv. frv., hvort hún lætur byggja stöð fyrir t. d. ½ miljón eða 700 þús. kr. En það er ætlunin, að stj. geti í bili tekið að sjer þá stöð, sem hjer er nú. Útvarpsfjelagið er alveg að þrotum komið. Ef það hættir ekki í dag eða á morgun, sem svo má kalla, þá hlýtur það að gera það á næstunni. Það hefir ekki fjárhagslegan mátt til að halda áfram, og eins eru tæki þess ófullkomin. Það er a. m. k. mín ætlun, að stj. snúi sjer sem bráðast að byggingu nýrrar stöðvar. Það er hugsanlegt, að nokkur tími líði milli þess, að ný stöð komist á fót, og hins, að útvarpsfjelagið gefst upp; og verður að taka því, þétt hlje verði á starfrækslu útvarpsins, meðan stj. undirbýr framkvæmdir í málinu.

Um nánara fyrirkomulag stöðvarinnar verður annars að fara eftir tillögum sjerfræðinga. Það mun vera erfitt að fá stöð, sem nær til allra staða á landinu, sakir þess, hvernig landslagi er hjer háttað. En þar fyrir getur stöðin verið svo sterk, að hún dragi um alt landið, t. d. til staða í þröngum fjörðum, sem há fjöll liggja að. En það er alveg á stj. valdi að ráða fram úr málinu. Þetta eru heimildarlög, sem Alþingi afgreiðir til hennar og hún notar svo sem lögin veita heimild til. Alþingi lætur hana á sínum tíma vita, hvort hún hefir gert rjett eða rangt, að dómi þess.