29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Auðunn Jónsson:

Það munu sumir mæla, að jeg hafi nokkra ástæðu til að víkja orðum til hæstv. dómsmrh. (JJ), — en mun þó hafa það minna en honum bæri, vegna þess hverja ráðningu hann fjekk hjá flokksmönnum sínum út af hví máli, sem jeg ætla að minnast hjer lítillega á. En það er kosningin í Norður-Ísafjarðarsýslu, eða öllu heldur úrskurður á gildi þeirrar kosningar.

Það var vitað, að hæstv. dómsmrh. ætlaði að höggva hjer stórt og hafði allan viðbúnað til þess. En það fór eins og oftar, að það varð lítið úr hví högginu, sem hátt var reitt. Og sannast að segja vorkenni jeg svo hæstv. ráðh. fyrir afdrif þessa máls, að jeg mun verða miklu mildari og draga úr þeim ummælum, sem hans framkoma í málinu annars ætti skilið frá minni hálfu og kjósenda minna.

Vegna þeirra ummæla, sem hjer fóru fram bæði af hans hálfu og annara, verð jeg að lengja umr. með ofurlitlum inngangi og skýra hetta mál að nokkru frá minni hálfu og minna kjósenda.

Er þá fyrst að minnast á þann undirbúning, sem jeg hafði fyrir þessar kosningar. Hann er í því fólginn, að jeg skrifaði fylgismönnum mínum, 2–3 í hverjum hreppi, áður en jeg fór heim af þingi, og spurði þá um, hvernig þeir álitu, að minn málstaður stæði í hjeraðinu. Reyndar var mjer það kunnugt áður, en jeg vildi vita vissu mína hjá þeim mönnum, sem um það voru allra fróðastir og höfðu tíma til að athuga allar ástæður. Og svörin voru þau, að jeg mundi hafa 350-400 atkvæða meiri hluta í sýslunni. Þegar svona var ástatt, — eins og líka öllum var kunnugt um, sem til þektu, — þá fann jeg enga ástæðu til þess að gera neitt sjerstakt eða leggja í nokkurn kostnað fyrir utan þingmálafundaferðalög og það, að kosta 3 mótorbáta á kjördegi til þess að flytja kjósendur á kjörfund, þar sem erfiðust er fundarsókn. Það var svo, að mjer fanst ekki einu sinni ástæða til þess að halda flokksfundi með fylgismönnum mínum í sýslunni. Aðra fundi hafði jeg því ekki en hina opinberu þingmálafundi, sem við hjeldum frambjóðendur báðir saman.“

Það hefir verið sagt af hæstv. dómsmrh., að þær kosningafalsanir, sem hafa fram farið þar vestra, hafi verið mjer í vil. Þetta er nokkuð tvírætt; að minsta kosti gat sá verknaður alls ekki orðið mjer til þæginda eða til þess að styðja minn málstað, þegar vitað var, að jeg hafði slíkan meiri hluta atkvæða í kjördæminu. Og jeg verð hreinskilnislega að játa, að mjer hefði aldrei komið í hug, að nokkur af mínum fylgismönnum væri sá bjálfi að beita slíkum meðulum í kosningu; því að sannarlega var það mjer til óþurftar. Hinsvegar varaði jeg menn á kjósendafundum við öllu, sem komið gæti í bága við kosningalögin eða gefið minstu átyllu til að kæra kosninguna. Einnig sendi jeg kjörstjórnum í hinum nýju kjördeildum, þar sem hreppum hafði verið skift í fleiri kjördeildir, útdrætti úr kosningalögunum, því að ekki var hægt að fá sjerprentanir kosningalaganna neinstaðar, en flestar kjörstjórnir hinna nýju kjördeilda hreppanna voru ókunnar kosningalögunum og aðferð við kosningar. Jeg tók það sjerstaklega fram í þessum brjefum, að menn yrðu að varast alt, sem leitt gæti til þess, að hægt væri að kæra kosninguna vegna formgalla á framkvæmd kosningarinnar, því að það var jeg búinn að heyra áður en kosningahríðin byrjaði, að jafnvel þó að kosningin væri mjer viss í sýslunni, þá væri aldrei víst, að kosningin yrði tekin gild, því að kosningin yrði kærð, ef þess yrði nokkur kostur að finna formgalla á henni. Það kom mjer því allra hluta vegna mjög á óvart, þegar upp kom sá kvittur, að fölsuð hefðu verið atkvæði og að hreppstjórinn í Hnífsdal og skrifari hans hefðu verið settir í gæsluvarðhald, grunaðir um kosningasvik.

Það má hæstv. dómsmrh. sjá, að jeg hefi gert það, sem jeg gat, til þess að haldið yrði áfram þeirri rannsókn með fylstum krafti þá þegar. Einmitt daginn eftir að þetta kom fyrir, var jeg á fundi í Álftafirði, og sögðu fylgismenn mínir mjer, að verið væri að dreifa út kviksögum um það, að ekki væri vert að sækja fast þessa kosningu, því að sennilega yrði hún ógild ger vegna atburðanna í Hnífsdal. Meðfram af þessu, en sjerstaklega vegna þess, að jeg taldi, að mestar líkur væru til að fá það rjetta í málinu upplýst, ef gengið væri fast að rannsókninni þegar í stað, var það, að jeg fór tvisvar sinnum til bæjarfógetans á Ísafirði og óskaði, að rjettarhöldum, sem höfðu verið hafin, en látin niður falla þá um stund, yrði haldið áfram. Síðar, þegar jeg fjekk frjettir um, að reynt var að draga úr kjörfundasókn með sömu brögðum norðan úr norðurhreppunum, og þar kom fyrir atvik, sem virtist benda í þá átt, að rannsókninni þyrfti að hraða, fór jeg enn á ný til bæjarfógeta og sagði, að ef hann gæti ekki haldið rannsókninni áfram, gæti jeg ekki látið við það sitja, mjer þætti málsins vegna svo mikil nauðsyn, að rannsókn yrði hraðað, að jeg yrði þá að snúa mjer til stjórnarráðsins. Það gerði jeg. Sama dag sendi jeg símskepti til dómsmálaráðuneytisins –og skildi eftir afrit hjá bæjarfógeta —, þar sem jeg krafðist þess, að rannsókn yrði haldið áfram tafarlaust og með fullum krafti.

Þetta er það, sem jeg hefi gert til þess að hrinda því fram, að rannsókn yrði framkvæmd sem ítarlegust og sem allra fyrst. Og það munu fleiri vera þeirrar skoðunar, að það hafi ekki minsta þýðingu, að mál sjeu tekin fyrir tafarlaust og rannsókn fari fram með fullum krafti einmitt fyrstu dagana eða vikurnar.

Hæstv. dómsmrh. hefir sagt svo margt í þessu máli, að jeg mun ekki eltast við að tína öll þau spörð og kasta þeim tjl baka. Það eru aðeins alvarlegustu aðdróttanirnar að mjer og mínum kjósendum, sem jeg mun hjer lítillega minnast á. Hann hefir sagt á einum stað eða fleirum, að „Íhaldsforkólfarnir vestra“ hafi hreint og beint með „organiseruðu“ ofbeldi gert rannsóknardómaranum sem erfiðast fyrir á allan hátt, t. d. við að fangelsa Hálfdán og tengdason hans, og ennfremur, „Íhaldsmenn í Hnífsdal hindruðu handtöku Hálfdánar og Eggerts“ Já, jeg býst nú máske við, að hæstv. dómsmrh. hafi verið bornar þessar frjettir; en það er jafnvíst, að þetta er ekki satt. Þegar rannsóknardómarinn hafði ákveðið að fangelsa þessa menn og fór þangað út eftir í þeim erindum, þá voru á heimili Eggerts skrifara Hálfdánar staddir þrír eða fjórir frændur hans af Ísafirði og einn maður, sem hafði verið í vinnu hjá Hálfdáni. Jeg heyrði nú ýmsar kviksögur um kvöldið, eftir að rannsóknardómarinn kom aftur til Ísafjarðar án þess að hafa framkvæmt varðhaldsúrskurðinn. Jeg heimtaði einn af þessum mönnum til viðtals og fjekk sama kvöldið skýrslu um það, sem fram fór, og skrifuðu þessir menn undir þá skýrslu. Þessa skýrslu vilja þeir staðfesta með eiði. Þeir geta þess í skýrslunni undir eiðstilboð, að þeir hefðu ekki hótað neinu og ekki sýnt neitt ofbeldi. En hinsvegar, að þeir hefðu neitað að aðstoða rannsóknardómarann, og það af þeim sökum, að þeir töldu ekki varlegt eða hættulaust að flytja Eggert í fangelsi eins og á stóð um heilsufar hans. En á undan þessu var annað gengið. Rannsóknardómarinn hafði lögregluþjóninn af Ísafirði — eins og sjálfsagt var — sjer til aðstoðar í öllu þessu, en lögregluþjónninn vildi heldur ekki verða við þessum tilmælum um að klæða Eggert skrifara Hálfdánar og flytja hann út í bíl, sennilega vegna þess, að Eggert hafði læknisvottorð, þar sem það var tekið fram, að það gæti verið hættulegt heilsu hans að flytja hann nokkuð burt af heimilinu, og jafnvel það, að honum væru ekki hættulausar snöggar geðbreytingar. Enda var öllum kunnugt, að þessi maður hafði verið berklaveikur fleiri ár; hann hafði verið á Vífilsstöðum og átti að vera kominn þangað aftur; hann átti aðeins að vera heima litla hríð til þess að sjá, hvort honum versnaði eða ekki. Einmitt þessa daga minnir mig ekki betur en hann hefði sótthita 38,4° og upp í 38,9°.

Að Hnífsdælir hafi sýnt nokkurn mótþróa eða „organiseraða“ uppreisn, eru ósannindi. Enginn Íhaldsmaður í Hnífsdal hreyfði hönd eða fót í þá átt, og heldur ekki aðrir íbúar þorpsins eða aðkomumenn þar. Rannsóknardómarinn leitaði til fleiri manna þar í þorpinu um þetta sama, en enginn þeirra, hvorki jafnaðarmenn eða Íhaldsmenn — hinir síðarnefndu eru fáir í þorpinu — urðu við þessum tilmælum að aðstoða við fangelsun Eggerts. En það var hvorki „organiseruð“ eða „óorganiseruð“ uppreisn, enda væri dómsmrh. hin mesta skömm, ef hann hefði látið uppreisn í þessu tilfelli óátalda. Slík ummæli um kjósendur mína — og enda um kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu alment — get jeg ekki látið standa óhrakin. Hæstv. dómsmrh. hefir kastað þeim hjer fram algerlega órökstuddum og ósönnum, sennilega til þess að svala sinni alkunnu mannskemdafýsn.

Þá hefir hæstv. ráðh. orðið tíðrætt um einn mætan mann, Pjetur Oddsson, og fleirum sinnum kallað hann uppreistarforingja. Hann hefir gefið í skyn a. m. k., að þessi maður mundi hafa kúgað alþýðu manna vestur þar. Hann sagði svo um Pjetur Oddsson: „Aðstaða hans er sú, að erfitt er fyrir fátæklinga að standa móti boði hans og banni.“

Það er auðheyrt, að hæstv. dómsmrh. er ókunnugur högum manna og lyndiseinkunnum þar vestra. Jeg get fullvissað hann um það, að Norður-Ísfirðingar eru þannig skapi farnir, að þeir láta ógjarnan kúgast; og það á jafnt við þá fátæku sem aðra. Ef hæstv. dómsmrh. vill hafa fyrir að líta í stórmál, sem var þar á ferð árið 1895–6, þá mun hann sjá þess glögg merki, að Norður-Ísfirðingar eru ekki gjarnir að láta kúgast, jafnvel þó að valdboð komi frá hærri stöðum. Og það er auðsjeð, að hæstv. dómsmrh. hefir ekki haft fyrir því að kynna sjer, hvað hæft er í þessum áburði hans á hjeraðsbúa, ef nokkur hefir haft orð á þessu í hans eyru eða ef þetta er ekki uppspuni frá hans eigin brjósti. Því að hann mundi fljótt hafa heyrt almannaróminn vestur í Bolungarvík, að Pjetur Oddsson er ennþá talinn einn af betri eða bestu mönnum, sem þau hjeruð byggja, stórgjöfull og hjálpsamur maður á allan hátt, þar sem hann getur við komið. Enda er það svo, að þessi maður var sjálfur sárfátækur með stóran barnahóp fram yfir fertugsaldur og veit ósköp vel, hvað það er að eiga bágt. Auk þess hefir hann — eins og allir, sem til þekkja, vita — orðið fyrir meiri raunum en alment gerist, mist konu sína ágæta og tíu mannvænleg börn úr hvíta dauða. Hann er jafnframt mikill skapfestumaður og lætur ógjarnan hlut sinn nema fyrir rjettlætinu einu.

Mjer finst, að það sje heldur brugðið út af reglunni um „fair play“ hjá hæstv. dómsmrh., þegar hann er að reyna að hnýta að þessum manni, sem hann hefir skipað rannsókn á hendur á, og það einmitt nú, meðan málið er undir rannsókn. Það hefir ekki hingað til verið venja, að dómsmálaráðherra landsins hefji ofsóknir á hendur þeim mönnum, sem hann hefir skipað rannsókn á. Slíkt er líka óhæfa, því að það veikir aðstöðu sakbornings að vera að kasta að honum hnútum og getsökum, meðan á rannsókn stendur. Þetta er ekki „fair play“; það er lubbamenska.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að það hefði frjetst úr Bolungarvík, að það hefðu verið samantekin ráð margra þorpsbúa að hrekja rannsóknardómarann fram á brimbrjótinn og einangra hann þar, að minsta kosti eina nótt. Jeg vil nú spyrja, — er þetta upplýst við rannsókn málsins? Ef svo er ekki, þá er það mjög ósæmilegt af hæstv. ráðherra að koma með svona hviksögur inn í þingið, enda þótt hann vilji losna við einn andstæðing sinn af þingbekkjum um stundarsakir. Það er örþrifaráð hins ógæfusama manns, sem er að verja ósannan og illan málstað. Annars get jeg sagt hæstv. ráðh., að ef hann heldur, að hann geti kúgað Norður-Ísfirðinga, þá er það misskilningur. Þeir láta hvorki hann eða aðra kúga sig. Þetta er það, sem jeg vil alveg sjerstaklega átelja fyrir hönd kjósenda minna og allra Norður-Ísfirðinga í framkomu hæstv. ráðherra, og það er þess eðlis, að ekki er hægt annað en fara um það hörðum orðum.

Hitt læt jeg mjer í ljettara rúmi liggja, sem hann segir um blaðið Vesturland. En um það segir hann: „Og svo ósvífnir gerast þessir íhaldsburgeisar vestur frá, að þeir láta blað sitt „Vesturland“ fara með vísvitandi ósannindi og blekkingar.“ Það eina, sem hægt er að gera til þess að hnekkja þessu og leiða í ljós, hvort „Vesturland“ skýrir rjett frá eða ekki, er að fara í mál við blaðið og reyna að fá ummælin dæmd dauð og ómerk. En er nú ekki málstaður ráðherrans sá, að hann þori ekki í mál við blaðið og viti, að best er að hafa þessi ummæli innan þinghelginnar eingöngu? Annars skal jeg geta þess, að blað þetta er einkaeign þriggja manna, og jeg býst við, að hæstv. ráðherra yrði erfitt að fá ábyrgðarmann þess til að skifta um stefnu eða skrifa annað en það, sem hann sjálfur vill, í blaðið, enda, á svo að vera, að hver ritstjóri skrifi aðeins eftir sinni eigin sannfæringu, en ekki eftir annara. Hvað tekjur þessa blaðs snertir, þá er mjer ekki kunnugt um, að þær sjeu aðrar en áskriftargjöld og auglýsingagjöld, eins og margra annara blaða. Að vera að gefa mjer og öðrum flokksmönnum mínum sök á því, hvað ritstjóri þessa blaðs skrifar, er hreinasta fjarstæða. Það er jafnóhæfilegt eins og ef farið væri að saka ýmsa menn úr Framsóknarflokknum fyrir allar þær blekkingar og öll þau ósannindi, er hæstv. dómsmrh. hefir skrifað í „Tímann“. Standa þeir þó beint og óbeint að því blaði. Nei, þetta, sem hæstv. ráðh. víkur að „Vesturlandi“, er máttlaust nart, sársaukakend stuna út af rjettmætum aðfinslum blaðsins við framkomu ráðherrans í öðrum málum.

Þeim svigurmælum, sem fjellu hjá öðrum þm. við þessa umr., ætla jeg ekki að svara nema lítið eitt, því að jeg vil ekki ganga svo langt til andsvara að þessu sinni, enda þótt margt af því, sem þar var sagt, væri ýmist orðum aukið, misskilningur eða bein ósannindi. Það er í fyrsta skiftið, sem jeg hefi heyrt, að eitthvað hafi verið athugavert við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu 1923. Jeg get varla trúað því, að menn í raun og veru haldi þessu fram, heldur sje þar málum blandað og háttv. 2. þm. Reykv. (HjV) hafi átt við kosninguna á Ísafirði þetta sama ár. Til þess að sýna hv. deildarmönnum, að hjer hlýtur að vera um misskilning að ræða, vil jeg geta þess, að þegar búið var að telja atkvæðin úr Norður-Ísafjarðarsýslu að Vatnsfirði 1923, þá kom hinn drengilegi keppinautur minn til mín og óskaði mjer til hamingju með sigurinn og sagði um leið, að drengilegri framkomu í kosningabaráttunni hefði varla verið hægt að hugsa sjer. Jeg læt mjer nægja hans dóm um mig og kjósendur mína í því tilfelli.

Þá vil jeg snúa mjer að háttv. þm. Ísaf. (HG). Það var eitt, sem fram kom í ræðu hans, sem hneykslaði mig. Hann sagði, að enginn hefði borið jafnaðarmönnum á Ísafirði það á brýn, að þeir hefðu aðhafst neitt grunsamlegt í sambandi við kosninguna þar 1923. Út af þessum ummælum hv. þm. vil jeg benda honum á eitt dæmi, sem sýnir, að þau eru ekki á rökum bygð. Við kosningar þessar sendu báðir flokkarnir, bæði borgaraflokkurinn og jafnaðarmannaflokkurinn, fulltrúa frá sýsluskrifstofunni ásamt umboðsmönnum sínum til þess að aðstoða við heimakosningar. Borgaraflokkurinn ljet lækni fylgja umboðsmönnum sínum, til þess að gefa þeim mönnum vottorð, sem sökum veikinda gátu ekki sótt kjörfund. Læknirinn skoðaði hvern þann mann, sem hann gaf vottorð, og mjer er kunnugt um, að hann neitaði að gefa að minsta kosti tveimur mönnum slík vottorð. Áleit þá ekki svo veika, að þeir gætu ekki mætt á kjörþingi næsta dag. Aftur á móti höfðu jafnaðarmenn þá aðferð, að þeir höfðu fyrirframskrifuð læknisvottorð, sem umboðsmenn þeirra tíndu upp úr vösum sínum eftir þörfum. Það gerði ekkert til, þó að læknirinn hefði ekki sjeð sjúklinginn í fleiri vikur, nema ef til vill á götu. Þannig skipuðu þeir t. d. konu einni að kjósa, sem stóð við þvottabalann sinn, og annari, sem var við fiskvinnu úti á reit. Atkvæðasmalinn hefir líklega sagt eða hugsað svo: „Þið getið verið lasnar á morgun“. Að jeg fór að nefna þetta hjer, er fyrir þá sök, að hv. þm. Ísaf. var svo djarfur að halda því fram, að jafnaðarmenn á Ísafirði hefðu ekki verið bendlaðir við neitt grunsamlegt í sambandi við þessa kosningu.

Þá var það háttv. 2. þm. Reykv. (HjV). Hann sagði, að fölsuðu atkvæðin úr Norður-Ísafjarðarsýslu væru 10 úr Hnífsdal og eitt úr Ögurhreppi. Um þetta held jeg, að ekkert sje hægt að fullyrða, þar sem rannsókn málsins er ekki lokið enn. En því mótmæli jeg alveg eindregið, að nokkurt atkvæði hafi verið falsað í Ögurhreppi.

Þá sagði hann, að flestöll þessi atkvæði hefðu gengið í gegnum skrifstofu Íhaldsflokksins á Ísafirði. Jeg hefi nú ekki sjeð þessa seðla eða rjettarbókina, en þó veit jeg, að þetta getur ekki verið rjett, því að fjögur þeirra atkvæða, sem talin voru fölsuð, voru tekin hjá kærendunum, eða þeim, sem opnuðu atkvæðin, tvö send norður í hreppa og þrjú er talið, að verið hafi hjá hreppstjóranum, þegar hann var fangelsaður. Þetta hlýtur því að vera missögn eða misskilningur hjá þessum háttv. þm., og þá sennilega óvart. Annars ber mjer ekki að halda uppi svörum fyrir kosningaskrifstofu Íhaldsmanna á Ísafirði, því að jeg naut ekki annarar aðstoðar þaðan en að tekið var þar á móti 2–3 atkvæðum hjeðan úr Reykjavík og 2 innan úr Djúpi. En auðsæjar blekkingar, þó af misskilningi sjeu fluttar, tel jeg mjer skylt að leiðrjetta.

Þá sá jeg, þegar jeg las yfir ræðu hv. 1. þm. Árn. (JörB), að hann hafði ekki leiðrjett misskilning, sem kom fram hjá honum, sem stafað hefir af ónákvæmri frásögn hv. þm. Ísaf. (HG). Hann segir, að byrjað hafi verið á því í Hafnakjördeild, þegar kosningarathöfnin átti að byrja, að búa til kjörskrá fyrir kjördeildina, og eftir þeirri kjörskrá hafi verið kosið. Þetta er alrangt. Tilefnið til þess, að kjörstjórnin fór að búa þessa kjörskrá til, var það, að hún sá, að marga vantaði af þeim, sem á kjörskrá áttu að standa. Gerði hún þetta til þess að sýna yfirkjörstjórninni ónákvæmnina. Eftir þessari nýju kjörskrá var alls ekki kosið, heldur eftir þeirri einu, sem í gildi var og búin var til af hreppsnefnd og legið hafði frammi fyrirskipaðan tíma, og mjer er kunnugt um, að tveir kjósendur, sem á hinni nýju kjörskrá stóðu og komnir voru á kjörfund, fengu ekki að kjósa, enda þótt þeir hefðu kosningarrjett og hefðu með rjettu átt að vera á skránni. Að ekki var þegar í byrjun samin sjerstök kjörskrá fyrir hverja kjördeild út af fyrir sig, var af þeirri ástæðu, að ekki var búið að kjósa kjörstjórnir fyrir hinar nýju kjördeildir áður en frestur til að leggja fram kjörskrá var útrunninn. Samdi því hreppsnefndin eina kjörskrá fyrir allan hreppinn, en merkti l, 2 og 3 við nöfn manna, eftir því í hvaða kjördeild hver kjósandi var.

Mjer er úr minni liðið, hvað hæft er í því, að 1 eða 2 kjósendur, sem áttu að standa á aukakjörskrá í Grunnavíkurhreppi, hafi fengið að kjósa. En það er rjett, að kona ein þar í hreppnum kaus heima hjá sjer. En af því að mjer var knnnugt um, að hún kaus keppjnaut minn, þá vildi jeg ekki, af því jeg vissi, hvernig á stóð, fara að gera neitt veður út af þeim smámunum.

Hæstv. dómsmrh. var einu sinni sanngjarn í þessu máli, og það var þegar hann sagði, að misfellur, sem stöfuðu af gleymsku eða vanþekkingu, væru afsakanlegar, og nefndi sem dæmi gleymsku hreppstjórans í Bolungarvík, þegar honum láðist að votta það á fylgibrjefið, að hann hefði aðstoðað tvo kjósendur við utankjörstaðarkosningu. Aftur á móti tók hv. þm. Ísaf. hart á þessu. Hann segir í öðru sambandi, þegar hann minnist á þennan hreppstjóra: „Og þetta er maður, sem hefir gefið falskar skýrslur“. Það er nú alls ekki vanalegt að taka svona til orða út af ekki meiri misfellum en hjer er um að ræða, því að hjer er ekki um neinar falsanir að tala, heldur vanþekkingu eða gleymsku. Mjer er annars óskiljanlegt, hvers vegna hann og hans fylgismenn reyna svo mjög að svívirða þennan hreppstjóra. Má vera, að þeim hafi verið óþægilegt, að hann reyndist saklaus. Blað jafnaðarmanna á Ísafirði hefir reynt að læða inn grun um einhverja sekt þessa heiðvirða manns, sem allir vita, að er alsaklaus af þeim ákærum, er á hann voru bornar um stund. Jeg veit, að víða eiga sjer stað „formellar“ misfellur á framkvæmd kosningalaganna, og jeg verð að segja, að þær sjeu fyllilega afsakanlegar, þegar þess er gætt, hversu mjög menn yfirleitt eiga erfiðan aðgang að kosningalögunum, þar sem kjörstjórnum eru ekki einu sinni sendar sjerprentanir af þessum þýðingarmiklu lögum. Það látið nægja, að senda hreppstjóra og oddvita þessi lög í Stjórnartíðindunum; en sje hreppi skift í þrjár kjördeildir, er ekkert eintak fyrir kjörstjórnina í einni deildinni. Á bæði núv. og fyrv. stjórn sök á þessu. Annars hafði jeg hugsað mjer að koma með brtt. í þessa átt við frv. til laga um atkvæðagreiðslur utan kjörstaða, sem nú liggur fyrir þinginu, en úr því, sem komið er, læt jeg mjer nægja að benda stjórninni á, að nauðsynlegt er, að minst 5 eintök kosningalaganna sjeu send í hvern hrepp á landinu. Til þess að sýna fram á, að víðar eiga sjer stað misfellur á kosningunum en í Ísafjarðarsýslu, vil jeg nefna dæmi.

Í Suður-Þingeyjarsýslu kom það fyrir, að oddviti kjörstjórnar einnar kom með þrjá atkvæðaseðla í vasanum, þegar kosningaathöfnin var í fullum gangi, og stakk þeim niður í atkvæðakassann. Þegar hann svo var spurður að, hvers vegna hann gerði þetta, svaraði hann: „Ó, þeir vildu nú heldur kjósa úti þessir karlar“. Jeg er nú alls ekki að drótta neinu sviksamlegu að hreppstjóranum, sem þetta gerði, en það sýnir, hve menn eru yfirleitt illa að sjer í hinum „formellu“ atriðum kosningalaganna.

Þá skal jeg nefna annað dæmi; það er úr Strandasýslu. Þar kom það fyrir í einum hreppi, að oddvitinn samdi einn kjörskrána og skrifaði nöfn meðnefndarmanna sinna undir hana, og sumir hreppsnefndarmennirnir sáu hana ekki fyr en á kjördegi. Slíkar misfellur sem þessar eru algengar, því miður, en jeg álít, að koma megi í veg fyrir þær með því að senda sjerprentun af kosningalögunum í hverja kjördeild á landinu. Þess er líka full þörf, því að víða þarf að hafa hina mestu nákvæmni í framkvæmd kosningalaganna, því að það er vitanlegt, að tortryggni sumra manna gengur alveg úr hófi fram í þessum efnum. Sem dæmi um það, hvað hún getur orðið ægileg, vil jeg nefna atvik, sem kom fyrir á. Ísafirði við alþingiskosninguna í sumar. Kona nokkur, sem stödd var utan síns kjörstaðar, kaus hjá hreppstjóra þess hrepps, sem hún var stödd í. Hreppstjórinn sendi Sigurði Kristjánssyni ritstjóra atkvæðaseðilinn, en hann afhenti hann Íhaldsskrifstofunni á Ísafirði til geymslu, en skrifstofan afhenti hann daginn fyrir kjördag bæjarfógeta, ásamt öllum þeim atkvæðaseðlum öðrum, er henni höfðu borist. Nóttina fyrir kjördaginn sendu jafnaðarmenn mótorbát, sem eflaust hefir tekið 100 kr. fyrir ferðina, til þess að sækja konu þessa. Og um morguninn heyrðist það svo út um allan Ísafjarðarkaupstað, að seðill hennar myndi hafa verið falsaður. Var hún svo á kjördegi látin heimta atkvæðaseðil sinn aftur, og var hann svo opnaður með mikilli viðhöfn í skrifstofu bæjarfógeta, en þá stóð nafn Haralds Guðmundssonar á seðlinum, skrifað með hennar eigin hendi, og kannaðist hún við rithönd sína á atkvæðaseðlinum, að því er bæjarfógeti hefir tjáð mjer. En út af svona greinilegum og ákveðnum tortryggnitilraunum er áríðandi, að undirkjörstjórnir sjeu sem best undirbúnar, og því verður auðveldast komið fyrir á þann hátt að gera þeim kunn kosningalögin og aðrar reglur þar að lútandi.

Þá er það ein fyrirspurn, sem jeg vildi leyfa mjer að beina til hæstv. dómsmrh., og hún er á þessa leið: Ætlar hæstv. dómsmrh. engu að sinna kæru þeirri, er honum hefir borist frá hreppstjóranum í Bolungarvík út af rannsóknaraðferð Halldórs Júlíussonar á hendur honum? Jeg vildi mælast til, að ráðh. svaraði þessari fyrirspurn strax. — Hann vill það ekki, og þykist jeg þá mega draga af því þá ályktun, sem mjer raunar kemur ekki á óvart, að hann ætli ekkert að sinna kæru Kristjáns Ólafssonar. (Dómsmrh. JJ: Jeg svara seinna í nótt) . Jeg verð að segja það, að mjer finst ekki mikið samræmi hjá hæstv. dómsmrh. í máli þessu, ef hann er staðráðinn í að sinna að engu kæru hreppstjórans, en fyrirskipar um leið rannsókn á hendur Pjetri Oddssyni og öðrum mönnum í Bolungarvík. Hvar er þá rjettlætið, sem hann er altaf að guma af og segir, að ráða eigi í þessu máli. Nei, sannleikurinn er sá, að öll rannsóknaraðferðin er hápólitísk. Ekkert rannsakað, er snýr að jafnaðarmannaflokknum, ekki svo mikið sem rannsakað, af hvaða ástæðum einn af foringjum þeirra segir ósatt fyrir rjetti.

Í sambandi við þetta mál Pjeturs Oddssonar og annara Bolvíkinga dettur mjer í hug dálítil saga, sem gerðist vestra. Á Ísafirði hafði verið verkfall í nokkra daga, en útgerðarmenn þar þurftu að skipa út fiski sínum. Þessu tóku verkamenn illa, neituðu að vinna að útskipuninni og höfðu í hótunum að hindra það, að fiskinum yrði skipað út af þeim, sem vildu vinna að útskipuninni. Útgerðarmenn leituðu þá aðstoðar bæjarfógetans, og kom hann á vettvang. Þetta var illa sjeð hjá verkfallsmönnum, og fjekk bæjarfógeti fyrst daufar undirtektir, er hann kvaddi menn til aðstoðar til þess að skapa vinnufrið fyrir þá, sem vildu vinna að útskipuninni. Þó fór svo, að bæjarfógeti fjekk nokkra menn sjer til aðstoðar. En þá skeði það, að einn af verkamönnum í flokki verkfallssinna rjeðist á aðstoðarmann bæjarfógeta, er var að gegna skyldu sinni, og varpaði honum niður. Maður skyldi nú hafa haldið, að maður, sem þannig sýndi lögreglunni ofbeldi, hefði verið látinn svara til saka. En það var eitthvað annað. Verkamannafjelagið fann upp á því snjallræði, að það ljet slá minnispening og hengja á þennan fjelaga sinn sem verðlaun fyrir það að hafa sýnt lögreglunni ofbeldi, og eftir því, sem jeg best veit, hefir ekkert frekar verið gert í þessu máli.

Út af þeim tilraunum, sem hæstv. dómsmrh. hefir gert til þess að sakfella mig og kjósendur mína, vil jeg gera honum tilboð. En áður verð jeg þó að lesa upp dálítinn kafla úr ræðu hans, þar sem jeg tel mjög ósæmandi af manni í hans stöðu að viðhafa slík ummæli um kjósendur landsins. Honum hefir sýnilega komið það illa, að samherjar hans lýstu yfir, að þeir hefðu enga ástæðu til þess að drótta því að mjer, að jeg væri viðriðinn þessi fölsunarmál. Þessi ummæli ráðherrans hljóða svo:

„Það, sem jeg tel sanna sektarfulla aðstöðu J. A. J. í þessu, er aðallega þrent.

Í fyrsta lagi, að kosningasvikin eru framin J. A. J. í vil.

Ennfremur, að það er sannað, að á Ísafirði, Hnífsdal, Bolungarvík og Reykjavík er af fylgifiskum hans og samherjum yfirleitt alt gert, sem hægt er, beitt ósannindum, rógi, hótunum og blaðaskömmum af Íhaldsmönnum til þess að hindra rannsókn málsins, og síðast en ekki síst, að frambjóðandinn J. A. J. gerir beinlínis uppreisn gegn rannsóknardómaranum, þegar hann er kallaður til þess að bera vitni í málinu fyrir rjetti“.

Og inn í ræðuna hefir hæstv. dómsmrh. skotið þessari klausu, eftir að þingskrifarinn hafði gengið frá henni:

„Tilefni hinnar ósvífnu framkomu J. A. J. fyrir rjetti er það eitt, að rannsóknardómarinn leggur fyrir báða frambjóðendur sömu spurningarnar um tölu heimagreiddra atkv. í sýslunni. Finnur Jónsson kemur fram eins og vitni sæmir, Jón Auðunn eins og sekur ofstopamaður“.

Nú ætla jeg að láta hæstv. dómsmrh. vita, að jeg ætla ekki að þessu sinni að skýra frá, hver ástæðan var til þess, að jeg ljet rannsóknardómarann bóka eftir mjer ummæli þau, er svo hafa komið við skap ráðherrans, að hann hefir ekki lengur stjórn á orðum sínum. Vegna þess að málið er undir rannsókn, þá tel jeg ekki rjett að deila svo á rannsóknardómarann og alla aðferð við rannsóknina, þó hún væri þannig, að einsdæmi sje í rjettarsögu landsins, en ástæðuna til þessarar einsdæma aðferðar rannsóknardómarans tel jeg þá, að hann hafði daglega fundi, stundum líka jafnvel næturfundi, með foringjum jafnaðarmanna, sem svo stóðu í sífeldu símtalssambandi við hæstv. dómsmrh.

En tilboð mitt til hæstv. dómsmrh. hljóðar svo:

Jeg býð hjer með hæstv. dómsmrh. — eða öllu heldur heimta af honum, ef það ekki álítst of freklega að orði komist við dómsmálaráðherra landsins —, að hann láti fram fara opinbera rannsókn á því. hvern þátt jeg hefi átt í kosningafölsunarmáli því viðkomandi kosningunni í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem um hríð hefir verið undir rannsókn. Rannsóknardómara ráði ráðherrann sjálfur og sjeu rjettarhöldin opinber og almenningi heimiluð nærvera þar.

Jeg borgi allan kostnað, sem af rannsókn þessari leiðir, ef jeg af dómstólunum finst sekur við kosningalögin eða hegningarlögin, elli borgi ráðherrann sjálfur allan þann kostnað. Eins og gefur að skilja, legg jeg niður þingmensku, ef jeg reynist sekur, en ráðherrann leggi niður þingstarf og fari úr ráðherrasætinu, ef jeg ekki reynist sekur.

Þetta er mitt tilboð og þetta kalla jeg „fair play“! (Dómsmrh. JJ: Ætlar ekki Hálfdán að gera tilboð líka?). Ef hæstv. dómsmrh. getur ekki gengið að þessu, þá tel jeg, að hann hafi rent ljúflega niður öllum þeim fullyrðingum, er hann hefir viðhaft um mig og kjósendur í Norður-Ísafjarðarsýslu. (MJ: Ráðherrann telur kannske Hálfdán sjer samboðnari mótstöðumann. — Dómsmrh. JJ: Ætli það sje ekki rjettara, að þjófar og falsarar ættu að fara að ráða í landinu?).