21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta mál hefir legið fyrir Alþingi nokkrum sinnum áður, þótt það hafi ekki verið borið fram í frumvarpsformi fyr en nú, og hefir stjórninni verið falið að rannsaka skilyrðin fyrir því, að því mætti hrinda í framkvæmd. Einnig hafa íþróttamenn gert mikið á síðustu missirum til þess að koma málinu áleiðis. — Í frv. er stj. veitt heimild til að leggja fram 100 þús. kr. til sundhallarinnar, en það er þeim skilyrðum bundið, að Reykjavíkurbær leggi fram jafnmikið fje, ókeypis lóð undir húsið nálægt barnaskólanum nýja og kosti viðhald fyrirtækisins og rekstur. Borgarstjóri, sem er máli þessu mjög hlyntur, hefir álitið það heppilegustu leiðina, að samvinna ætti sjer stað milli landsins og Reykjavíkurbæjar um þetta mál. Það sýnist og sjálfsagt, með því að bæði ber landinu skylda til að styrkja almenna framfaraviðleitni hjer sem annarsstaðar, og einnig munu mjög margir utan af landi njóta góðs af því, ef sundhöllin verður reist.

Þótt Alþingi samþykki þetta frv., er ekki hægt að fullyrða, að það komist til framkvæmda á þeim tíma, sem til er skilið. Bæði er það bundið því skilyrði, að bærinn sjái sjer fært að leggja fje á móti og fullnægja að öðru leyti þeim skyldum, sem Sundhöllin mundi leggja honum á herðar, og auk þess verður það vitanlega undir fjárhag ríkissjóðs komið, hvort hægt verður að byrja á byggingunni. Hjer er aðeins um heimild að ræða.

Það má segja, að hjer sje farið fram á allmikið fje, 200 þús. kr. frá ríkinu og bænum; en þegar það er aðgætt, að ríkissjóðs hluti er ekki nema 4 kr. á hvern íbúa höfuðstaðarins, þá er það ekki svo tilfinnanlegt, er menn hugsa til þess, að auk annara menningaráhrifa, sem slíkt fyrirtæki mundi hafa, mundi það og breyta heilsufari íbúa höfuðstaðarins til hins betra. Það er vafasamt, hvort nú sem stendur er hægt að gera nokkurn hlut eins mikilsverðan hjer í bæ til þess að koma í veg fyrir sjúkdóma eins og það að byggja Sundhöll. Og þegar athuguð eru hin ljelegu húsakynni, sem margir eiga við að búa, og hinar erfiðu aðstæður til að halda uppi hreinlæti, þá hlýtur mönnum að skiljast, hve mikilsvert það er, að bæði ungir og gamlir geti átt kost á því að baða sig og synda daglega. En þó býst jeg við, að engum hefði dottið í hug að leggja út í þetta fyrirtæki, ef ekki hefði staðið svo á, að náttúran hefir öll þessi ár, sem hjer hefir verið mannabygð, veitt heitu vatni úr skauti sínu upp á yfirborð jarðarinnar svo að segja við bæjarvegginn hjá Reykvíkingum. Nú fyrst er vaknaður skilningur manna á því, hvers virði þetta er fyrir bæinn, og er svo komið, að á næstunni mun vatninu verða veitt til bæjarins til að hita nýja barnaskólann, landsspítalann og stúdentagarðinn, sem sennilega verður byrjað að byggja nú í vor. — Nú hafa verkfræðingarnir gert ráð fyrir, að vatnið úr barnaskólanum verði nægilegt handa hinni fyrirhuguðu sundlaug, en það verður orðið of kalt til þess að veita því í aðrar byggingar til hitunar.

Aðrar þjóðir telja góðar sundhallir mjög mikilsverðar. Norðmenn eru t. d. nýbúnir að reisa eina í Osló, og er verið að byggja aðra. Það sýnist því einsætt, að við ættum að nota okkur þessa sjerstöku aðstöðu: að hafa nóg af volgu vatni, sem ekki verður notað til gagns á annan hátt en þennan.

Jeg ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en vænti þess, að málinu verði vísað til hv. mentmn. að umr. lokinni.