21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Mjer finst jeg ekki geta annað, sem 1. þm. Reykv., en þakkað hæstv. stjórn fyrir þetta frv. Okkur Reykvíkingum hefir stundum fundist Framsóknaráttin dálítið lík norðrinu; það hefir ekki altaf andað svo hlýtt þaðan til lýðsins „á mölinni“. En þeim mun þakklátari hljótum við nú að vera. Jeg er ekki þannig að hugarfari, að jeg geti látið fylgi eða andstöðu við stjórnina hamla mjer að þakka það, sem hún gerir vel. Enda býst jeg ekki við, að það verði svo margt, að þakkargerðirnar þurfi að stela frá mjer mjög miklum tíma.

Jeg hefi líka dálitla freistingu til að þakka fyrir hönd vinar míns, Guðjóns Samúelssonar, þann fádæma heiður, sem honum er sýndur með þessu frv. Jeg efast um, að nokkrum húsameistara í heimi hafi hlotnast sá heiður á undan honum, að beinlínis væri tekið fram í lagafrv., að ekki mætti víkja frá mjög svo lauslegum bráðabirgðauppdrætti, sem hann hefir gert að byggingu. — Þótt tvímælalaust væri breytt til hins betra, þá verður að fá Alþingi til að fallast á það með nýjum lögum. Árið 1871 fjekk rómverska kirkjan óskeikulan páfa. En mjer er ekki kunnugt um, að við höfum enn komið okkur upp óskeikulum húsameistara, og á með an mun vera heppilegast fyrir okkur að vera ekki að lögleiða annað eins og þetta.

Þetta er mikið menningarmál, og vil jeg vona, að það fái nú framgang með aðstoð landsstjórnarinnar. En jeg get ekki stilt mig um að benda á hin miklu veðrabrigði í Framsóknarflokknum frá því sem var í fyrra, ef hann stendur nú sem einn maður að því að koma fram þessu máli. Við erum nú raunar ekki orðnir því alveg óvanir að sjá hitt og þetta breytast um afstöðuna; síðan flokkurinn tók við stjórn landsins, sem betur fer sjest ekki bóla á því, að flokkurinn ætli að standa við sína stefnu um margt af því, sem hæst var látið út af, áður en hann tók við stjórninni. — En það, sem jeg vildi minna á var, að í fyrra lá fyrir Alþingi frv. til laga um heimavistir við mentaskólann hjer, einmitt í heimildarlagaformi, eins og þetta frv. En þá reis upp Framsóknarherinn allur, nema hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), — sem þá eins og oftar ljet ekki þrælbindast af flokkssamviskunni —, og taldi öll tormerki á, að frv. mætti ganga fram. Jafnvel var mentmn. klofin um málið. Hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Dal., sem þá var, töldu þetta form, að samþykkja heimildarlög, alveg óverjandi. Háttv. 2. þm. Eyf. talaði um, að með þessu væri Alþingi að afsala sjer fjárveitingarvaldinu í hendur landsstjórninni, og tók jafnvel svo djúpt í árinni, að eins rjett væri að breyta stjórnarskránni og taka fjárveitingarvaldið alveg af Alþingi. Nú er mjer mikil forvitni á að vita, hvort hann getur fylgt því, að fá sinni stjórn þannig fjárveitingarvaldið í hendur. (Dómamrh. JJ: Það er ekki eins hættulegt nú eins og þá). Af hverju? (Dómamrh. JJ: Verður betur farið með það). Hæstv. forsrh. var ekki síður á móti þessu máli í fyrra, og færði það einkum fram, hve ákaflega erfiður fjárhagur ríkissjóðs væri. En nú er hann í stjórn, sem ber fram fleiri en eitt samskonar frv. Mjer þykir vænt um að sjá þetta. Jeg skal ekki lasta, þótt „Framsókn“ hafi skoðanaskifti í sem allra flestum málum; það er altaf gleðiefni, þegar syndari bætir ráð sitt.

Jeg sje ekki ástæðu til að segja fleira að sinni, með því að jeg á sæti í þeirri nefnd, sem málinu verður væntanlega vísað til. Þar vona jeg, að jeg fái tækifæri til að gera aths. við helstu agnúana, sem mjer virðast vera á frv. En jeg vil endurtaka, að jeg er samþykkur aðalefni þess og er ekki hræddur við að samþykkja heimildarlög, jafnvel handa þessari stjórn, sem nú situr.