21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla ekki að fara út í neinar stórpólitískar hugleiðingar út af þessu máli. En jeg saknaði þess, að hæstv. dómsmrh. færði rök að því, af hverju hann vill gera Reykjavík svo mikið hærra undir höfði um framlag til sundhallar heldur en öllum öðrum kaupstöðum og sveitarfjelögum landsins, er aðeins hafa fengið 1/5 hluta greiddan úr ríkissjóði. En í þessu frv. er farið fram á, að Reykjavík fái helming frá ríkinu. Auðvitað er hjer um hærri upphæð að ræða en alment gerist, en hjer eru líka fleiri til að bera kostnaðinn heldur en í sveitum landsins. Og jeg vil segja, að Reykjavík á áreiðanlega ekki verra með að byggja þessa sundhöll af eigin ramleik heldur en ýms sveitarfjelög eiga með að koma upp smærri sundlaugum. Því vil jeg spyrja hæstv. ráðh., af hverju þessi mismunur stafar, eða hvort hann hefir hugsað sjer að bera fram tillögur um að hækka framlögin til sundlauga í sveitum. Jeg minnist ekki að hafa enn rekist á neina tillögu í þá átt, og man ekki betur en í fjárlagafrv. því, sem stjórnin hefir nú lagt fyrir þingið, sje gert ráð fyrir 1/5 hluta kostnaðar, eins og að undanförnu.