21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil fyrst svara hv. 1. þm. Skagf. (MG). Það er rjett, að telja má ósamræmi í því að ætla hærri styrk hlutfallslega til sundhallar í Reykjavík en sundlauga alment. Það er og rjett, að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir fjárveitingum til sundlauga úti um land með líku sniði og áður. En jeg hefi áður beitt mjer fyrir því í hv. Ed., að hækkaður væri þessi styrkur, og jeg get endurtekið, að það er mín persónulega skoðun, að hann eigi að hækka upp í helming alstaðar. Hann má í raun rjettri ekki minni vera. Þótt jeg sje ókunnugur í kjördæmi hv. þm., þá get jeg sagt honum, að jeg hefi þar augastað á a. m. k. tveim stöðum, þar sem mjer sýndist rjett að koma upp yfirbygðum sundlaugum, og hefi jeg í hyggju að fylgja honum að því að koma þeim málum fram.

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. vil jeg taka fram, að þetta frv. var ekki sjerstaklega borið fram til að gleðja hann, þó gott sje, heldur til þess að gera gagn. Og þótt honum hafi þótt anda heldur kalt til Reykjavíkur frá Framsóknarflokknum, þá vil jeg minna hann á, að fyrir fám árum hjálpuðum við Framsóknarmenn honum og samþm. hans til að koma fram bæjargjaldafrv. fyrir Reykjavík, sem annars hefði sennilega strandað.

Hv. þm. gat ekki á sjer setið að blanda öðru máli inn í þessar umr., óskyldu þó, nefnilega byggingu heimavista við mentaskólann. Það er eins og hv. þm. sje sama, hver tilgangurinn er með fjárframlögum, ef þau aðeins eru af svipaðri stærð, t. d. 100 eða 150 þús. kr. Það er eins og hann ætlist til, að upphæð fjárveitingarinnar muni skapa meðhald eða andstöðu, hver sem hún er. En hjer er ólíku saman jafnað. Af heimavistinni höfðu aðeins sárfáir menn gagn, en hjer er um að ræða gagn fyrir alla Reykjavík og fjölda manna utan af landi, sem hjer dvelja vetrarlangt, t. d. alt aðkomandi námsfólk. Nú eru ennfremur líkur fyrir, að ríkið sleppi við að byggja heimavistir við mentaskólann, en geti á annan og ódýrari hátt greitt fyrir nemendum utan af landi. Þessi tvö mál eru því óskyld og sje jeg ekki, hverja skynsamlega ástæðu hann hefir til þess að bera þau saman nú.