21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Hv. 2. þm. Eyf. var frsm. minni hl. um frv. um heimavist við mentaskólann og lagði ásamt sínum flokki, að undanteknum hv. þm. V.-Ísf., á móti frv. Hann sagði þá — með leyfi hæstv. forseta — : „Það neitar víst enginn því, að þetta hefir verið gert. En jeg er þeirrar skoðunar, að þetta sje óheppilegt og alls ekki forsvaranlegt, og síst, þegar fjárhagur ríkissjóðs er jafnörðugur eins og nú“. Þetta var ástæðan þá. Annars sagði bæði hann og háttv. þm. str., núverandi forsrh., að þeir væru í sjálfu sjer fylgjandi frv. Það var fyrst, er frv. var komið til Ed., að hv. 1. landsk. kvað upp úr um virkilega mótstöðu gegn frv.

En þar sem þeir bygðu andstöðu sína þá á erfiðleikum ríkissjóðs, þá má spyrja: Halda þeir afkomu hans betri nú? Ekki virðist fjárlagafrv. nú benda á, að þeir álíti, að svo sje. Og hið sama virðast þær greinar benda á, sem núverandi dómsmrh. hefir skrifað í kjallaradeild Tímans og hann nefnir „Úttekt“. Það virðist því lítið hafa breytst til batnaðar í þessu efni frá því, sem var í fyrra. Þá sagði sami hv. þm. ennfremur, að það „að veita svona lagaðar heimildir fyrir alla skapaða hluti“ væri „með öðrum orðum: að gera fjárlögin alveg óþörf. Það má altaf segja svo um allar framkvæmdir, að þær geti orðið fljótari, ef stjórninni er gefin heimild til að taka fje úr ríkissjóði, án þess það standi í fjárlögum. Kannske hv. frsm. meiri hl. (MJ) vilji flytja þá till. t. d. til breytingar á stjórnarskránni, sem liggur fyrir, að fjárlög sjeu alls ekki samin, heldur hafi stjórnin ríkissjóðinn í sínum höndum og megi nota hann eins og hún vill. Þetta er í raun og veru alveg í samræmi við hans skoðun“.

Þetta var hans skoðun í málinu þá.

Þá var hv. þm. hræddur um, að jeg væri að vekja andstöðu gegn þessu máli. Ekki þarf hann að vera svo mjög hræddur um það, þar sem jeg bað hv. þingdeildarmenn um að samþykkja frv. og þakkaði stjórninni fyrir að flytja það.

Hæstv. ráðh. sagðist hafa miðað við teikningu Guðjóns Samúelssonar, til þess að slá því föstu, hvað kostnaðurinn mætti verða mikill við byggingu Sundhallarinnar. Já, það er undarlegt um þennan hæstv. ráðherra, sem oft er svo hugkvæmur, að hann getur haldið ræður klukkustundum saman og skrifað óþrotlegar greinar í blöð — að það er stundum eins og alveg lokist fyrir hans gáfnaljós, eins og þar sje ekkert inni fyrir annað en andleg fátækt og óþrjótandi ládeyða. Má í því sambandi minna á varðskipamálið. Þar hugkvæmdist honum ekkert annað en lagabrot, þótt hægt hefði verið að ná fullkomlega sama marki á alveg löglegan hátt. Eins er hjer. Það hefði fullkomlega dugað að taka það fram í aths. við frv., að fjárframlagið væri miðað við svipaða byggingu og þá, er sjest á teikningu húsameistara, en í frumvarpinu þurfti ekkert að nefna nema fjárupphæðina, sem heimila átti. Þessa sjálfsögðu leið gat hæstv. ráðherra ekki fundið.

Þá segir hæstv. ráðh., að mismunur sje á sundhöll og heimavistum. Er það rjett. Munurinn er sá, að heimavistirnar voru ætlaðar utanbæjarmönnum, þar á meðal sveitapiltum, er hingað sækja nám, en sundhöllin verður aðallega handa Reykvíkingum. Get jeg glaðst af þeirri ást, sem hæstv. ráðh. virðist orðið bera til Reykvíkinga fram yfir alla aðra. Þar er ekki lengur Grímsbylýður.

En þar sem við erum sammála um þetta mál í aðalatriðunum, þá orðlengi jeg þetta ekki meira.