29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (75)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla, að jeg hafi aðeins átt fimm mínútur í hinni löngu ræðu hv. 1. þm. Reykv. ( MJ). Það voru aðeins tvö atriði, en jeg vil ekki fresta því að kvitta fyrir.

Fyrra atriðið skiftir litlu máli. Það er út af leyfi, sem sótt var um og veitt, til að fá hingað útlenda sjerfræðinga við smíðar. Jeg skal segja það, út af orðum háttv. 1. þm. Reykv., að jeg er ekki viss um, að rjett hafi verið að veita leyfið. Það var mjög vandasamt að skera úr, hvort svo átti að gera eða ekki. Og jeg hafði meiri tilhneigingu til að vera á móti, og hefði neitað, ef beðið hefði verið um að fá að flytja inn almenna verkamenn. Jeg skal játa, að það hafði töluverð áhrif, að fjelagið, sem bað um leyfið, stóð í viðskiftum við stjórnina og keypti olíu og bensínleifar landsverslunarinnar, sem við þannig gátum selt á hagkvæman hátt og allar í einu. Það var leyft að flytja inn sjerfræðinga, og það komu aðeins tveir. En einn mun hafa komið til hins fjelagsins. Jeg játa, að mjer þykir gott að fá aðhald í þessum efnum, þó að jeg hafi meiri tilhneigingu til að vera strangur.

Aðalatriðið, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín, var út af Titan. Hann ásakaði mig fyrir að vefja málið inn í eilífar umsagnir. Nú er um að ræða eitthvert stærsta mál þjóðarinnar, um það, hvort hleypa eigi inn í landið erlendu fjármagni, sem getur vaxið þjóðinni yfir höfuð. Og svo er verið að draga dár að mjer fyrir að vilja leita umsagnar sjerfræðinga um málið og sýna varfærni. Jeg verð að segja það, að mjer finst það ósamboðið manni, sem fer með umboð þjóðarinnar á Alþingi, að draga dár að varfærni í slíku máli. Jeg vil fyrst benda á það, að sjálfsagt er að beita varfærni í slíkum málum gagnvart öllum útlendingum, og ekki síst gagnvart þessu fjelagi, sem vill flytja hingað meira fjármagn en tífaldar árstekjur ríkissjóðs eru. Jeg er altaf varfærinn. Og jeg tel það skyldu mína að vera varfærinn og þykir vænt um, að sá maður situr ekki í þessu sæti, sem hefir skap í sjer til að draga dár að varfærni í slíku stórmáli sem þessu.