21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Jón Ólafsson.:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að tala á þessu stigi málsins, en orð hv. 2. þm. Reykv. urðu þess valdandi, að jeg kvaddi mjer hljóðs.

Jeg vil þá, áður en jeg sný mjer að ræðu hv. 2. þm. Reykv., þakka hæstv. dómsmrh. fyrir flutning þessa máls. Að svo stöddu hefi jeg enga ástæðu til að halda, að honum gangi annað en gott eitt til með flutningi frv. Þess vegna vona jeg, að flokksmenn hæstv. dómsmrh. styðji þetta mál, svo að Reykvíkingar og aðrir landsmenn megi líta slíka menningarbót höfuðstaðar síns fullgerða árið 1930.

Það var ekki rjett, sem hv. 2. þm. Reykv. vildi láta skína í gegnum orð sín, að við íhaldsmennirnir í bæjarstjórn hefðum beitt okkur móti þessu máli. En hitt er satt, að við höfum alla jafnan haldið því fram, að hjer væri um svo mikið vandamál að ræða, að ekki mætti að því flana að órannsökuðu máli, eins og börn, sem við öllu gleypa án þess að gera sjer ljóst, hvað gera þarf fyrst. Fyrir okkur vakti altaf, að heita vatnið yrði fyrst leitt til bæjarins í þeim tilgangi aðallega að hita með því stórhýsi bæjarins, og frá þeim rynni svo vatnið aftur í sundhöllina. Að þessu vildum við láta rannsóknina miða, en það var þvert á móti því, sem hv. 2. þm. Reykv. og hans samherjar í bæjarstjórn hjeldu fram. Þeir vildu flana að öllu órannsökuðu í þessu máli, eins og þeirra er venja í allflestum málum.

Nú í vetur hafa fyrst legið fyrir endanlegar upplýsingar um þetta mál. Og þá stóð ekki heldur á fjárhagsnefnd bæjarstjórnar að taka málið upp og leggja til, að bærinn gengist fyrir byggingu Sundhallarinnar. Hitt þykist jeg mega segja, að bæjarstjórn muni ekki veita fje til byggingar sundhallar úr bæjarsjóði. Að minsta kosti erum við íhaldsmennirnir í bæjarstjórn þeirrar skoðunar, að bærinn geti ekki veitt til Sundhallar 200 þús. kr., en leggjum fremur til, að tekið verði lán í þessu skyni, enda telja flestir hugsandi menn það heppilegra.

Jeg þykist nú ekki þurfa að hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að hv. deild geti fallist á frv. og viðurkenni, að hjer sje um hagsmunamál að ræða, ekki aðeins fyrir Reykjavíkurbæ og borgara hans, heldur nái það og til fjölda manna víðsvegar af landinu, sem dvelja hjer að vetrinum. Og þó að hjer sje farið fram á allháan styrk úr ríkissjóði, þá vona jeg, að hv. þdm. sjái, að hjer er ekki um neina ósanngirni að ræða, enda eru það ekki stórar upphæðir, sem ríkissjóður hefir hingað til látið af höndum rakna til bæjarins, og þetta, sem frv. fer fram á, þá fyrsti styrkurinn, sem um munar.