21.01.1928
Neðri deild: 3. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Magnús Guðmundsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd.

Út af samanburði þeirra hv. þm. Reykv., sem talað hafa um kostnaðinn við byggingu sundhallar hjer og sundlauga úti um land, þá tók jeg það fram áðan, eins og líka hæstv. dómsmrh. viðurkendi, að ríkissjóðsstyrkur sá, sem veittur er samkvæmt fjárlögum til byggingar sundlauga úti um land, er bundinn því skilyrði, að sundlaugarnar sjeu á eftir almenningi til nota. Þetta hefir líka altaf orðið svo í framkvæmdinni; sveitirnar hafa látið í tje laugina og landið umhverfis almenningi til afnota.

Annars þarf ekki lengra að fara í þessum samanburði um hagstæðari kjör Reykjavíkurbæjar á móts við það, sem sveitunum er boðið, en að hlusta á þakklæti allra háttv. þm. Reykv., sem talað hafa, til hæstv. dómsmrh. Þeir vita áreiðanlega, fyrir hvað þeir eru að þakka, og finna jafnframt, að rjettur sveitanna er fyrir borð borinn.

Hæstv. dómsmrh. sagði eitthvað á þá leið, að hann hefði ekki getað komið þessu öðruvísi fyrir. En bágt á jeg með að trúa því. Jeg get ekki trúað, að hann megi sín svo lítils í stjórninni, að hann hefði ekki getað komið því inn í fjárlagafrv. að hækka styrkinn til sundlaugabyggingar úti um land í samræmi við þá upphæð, sem hann leggur til, að Reykjavíkurbær fái til sundhallarinnar. Að minsta kosti hefði honum verið innan handar — eins og jeg drap á áður — að láta þess getið í greinargerð frv., að hann mundi leggja til, að sundlaugastyrkurinn til sveita yrði hækkaður. En úr því hann hefir ekki gert það, virðist mega ætla, að honum hafi ekki verið það mikið áhugamál.

Hann skaut því fram, hæstv. dómsmrh., hvort hægt mundi að taka upp Krossanesmálið aftur. Það þykir nú kannske undarlegt, að dómsmálaráðherra skuli spyrja um slíkt, því líklega ætti engum að standa nær að vita það en einmitt honum. Jeg fyrir mitt leyti held, að það sje ekkert því til fyrirstöðu, að hægt sje að taka upp málið aftur.

Annars mætti benda honum á, ef hann hefir gleymt því, að það hefir fallið dómur í þessu máli í einkamáli, sem höfðað var gegn verksmiðjunni, og hún vann málið. (Dómsmrh. JJ: Ekki landsdómur!). Að vísu hefir það ekki verið rekið fyrir landsdómi. (MJ: Jeg held ráðherrann ætti ekki að nefna landsdóm!). Og það var merkur lögfræðingur og Framsóknarmaður, sem flutti málið fyrir Krossanesverksmiðjuna, og því lauk svo, að hann vann það. Sýnir þetta, að merkur Framsóknarmaður áleit málstað verksmiðjunnar góðan og dómstólar samþyktu það. Jeg held því, að hæstv. ráðherra hefði lítið upp úr að taka málið upp, en svo mikið vil jeg kenna honum í lögfræði, að hann getur það.