29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

1. mál, fjárlög 1929

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg hjelt, að það ætti við mig, sem stendur í vísunni:

Jeg þarf ekki að þakka,

jeg fjekk ekki að smakka

utan vatnið tæra o. s. frv.

Hv. 1. þm. Reykv. hefir nú bætt úr því með því að framkalla mig, og jeg er honum þakklátur fyrir. En jeg vil minna hv. þm. á vísuna og vona, að hann taki eftir:

Þú mátt ígrunda málsháttinn,

málmalundur viskusljór,

að oft á fundum áleitinn

fær illa sundur rifinn bjór.

Jeg ætla í raun og veru ekki að verða til þess að rífa bjórinn á þessum hv. sessunaut mínum (MJ), að minsta kosti ekki til að byrja með. Því er svo farið, að mjer finst það vera mikil misnotkun á dýrmætum tíma þingsins, að hv. Íhaldsmenn gefi tilefni til þess að vera dag eftir dag með tilgangslaust skvaldur um athafnir stjórnarinnar þennan stutta tíma, sem hún hefir setið að völdum. Jeg álít, að miklu fremur sje tilefni til þess fyrir annan flokk að taka til íhugunar starfsemi fyrverandi stjórnar, því að hún fór með völd nálægt 3/4, hluta ársins sem leið, en einmitt sá flokkur er svo viti borinn, að hann sjer, að ekki til neins eintómt orðaskvaldur, sem engan árangur ber. Í hinni löngu ræðu hv. 1. þm. Reykv. var lítið samhengi og fátt, sem máli skifti. Það eina, sem jeg gæti haft ástæðu til að athuga, átti að heita fyrirspurn til mín um afstöðu mína gagnvart gengismálinu, eða öllu heldur verðfestingarmálinu. En jeg verð að segja, að jeg álít, að jeg hafi ekki mikla ástæðu til að fara inn á það mál nú, og allra síst að vert sje að svara þeim fullyrðingum, sem háttv. þm. leyfði sjer að viðhafa. Hv. þm. sagði, að jeg hefði gefið yfirlýsingu um, að jeg væri eindreginn og ákveðinn hækkunarmaður. (MJ: Það sagði jeg ekki). Jú. En hv. þm. er kannske ekki altaf ljóst, hvað hann segir. Hvernig á það að vera með þessu óþrjótandi orðagjálfri?

Jeg skal verða við ósk hv. þm. um að skýra frá afstöðu minni til gengismálsins. Jeg kannast ekki við að hafa nokkurntíma, hvorki í ræðu nje riti, látið uppi þá skoðun, að krónan ætti að hækka hröðum fetum. Ef hv. þm. getur bent á nokkur þau ummæli mín, sem sanni þetta, verð jeg að taka því, en jeg er þess fullviss, að svo er ekki. Hinsvegar verður því ekki neitað, að jeg hefi haft sjerstöðu um það mál, en jeg hygg, að jeg hafi litið fullkomlega heilbrigt á það. Jeg hefi sagt það hjer áður, þegar slík mál hafa verið til umræðu, að það ólán, sem orðið hefir af verðfalli krónunnar, væri að miklu leyti sjálfskaparvíti. Ennfremur hefi jeg komið fram með tillögu í þá átt að koma í veg fyrir, að ólánið magnaðist ár frá ári. Þá var það einmitt þessi hv. þm., sem, eins og endranær, lenti þeim megin, sem ver gegndi, af því að honum þótti það vera hreinasta guðgá að takmarka þann innflutning á allskonar óþarfavarningi, sem keyrði fram úr öllu hófi og var að verða hreinasta þjóðarböl. En það mátti engin bönd leggja á hina marglofuðu frjálsu samkepni. Það fór því svo, að þær ráðstafanir, sem hefðu getað orðið til þess að vinna á móti miklu tjóni, voru drepnar, og átti háttv. 1. þm. Reykv. mikinn þátt í því. Þó að það hljóti í raun og veru að vera öllum nokkurn veginn skynbær um mönnum ljóst, hversu mikið þjóðarböl lággengið var og er enn, er ekki rökrjett að álíta, að ráðið til þess að bæta úr því sje á skömmum tíma að kippa gjaldeyrinum upp í gullgildi. Þesskonar rassaköst mega ekki eiga sjer stað. Það hefir því altaf verið mín stefna að vinna af alefli á móti verðfalli, en varast umfram alt miklar sveiflur. Jeg hefi altaf álitið, að sú gengislækkun, sem varð í ársbyrjun 1924, hafi verið algerlega ástæðulaus og stórkostlegt böl fyrir þjóðina. Enda kom það í ljós, að verðlækkunin hafði verið óeðlileg og að ekki var hægt að halda gjaldeyrinum eins langt niðri og hann var settur. Það hefir aldrei borið á stefnubreytingu hjá mjer, enda hefi jeg ekki haft ástæðu til þess að taka beina afstöðu til gengismálsins. Það, sem fyrir mjer vakir, úr því sem komið er, að orðið hefir hin gífurlega verðhækkun, sem hefir íþyngt atvinnuvegum landsins, er að varna því, að verðfall hefjist á ný. Það má segja, að jeg sje að því leyti ekki lággengismaður. En jeg mun enga leið sjá til þess, að fært sje að vinna að frekari hækkun í náinni framtíð. Af þessum ástæðum hygg jeg, að samstarf hafi getað orðið með mjer og þeim, sem álíta, að nú þurfi að varna örum sveiflum eða frekari hækkun. Jeg býst við, að háttv. 1. þm. Reykv. álíti þetta fullkomna skýringu.

Þá taldi hv. þm. það vera mikið hneyksli eða höfuðsynd, að jeg sem fjmrh. hefði framið það ódáðaverk að skipa nýjan formann í gengisnefndina. Hv. þm. brúkar stór orð, en ekki að sama skapi kraftmikil. Hv. þm. er ekki kunnugt um, að eins og á stóð var engin leið til þess, að fyrverandi formaður gengisnefndarinnar gæti haldið áfram þeim störfum, þegar hann var orðinn bankaráðsmaður og yfirmaður hv. 1. þm. Reykv. Honum var sjálfum ljóst, að það gat ekki átt sjer stað, og þá varð að skipa nýjan formann. En þar sem hv. þm. hefir haldið því fram, að hinn nýi formaður væri langfærasti maðurinn, sem völ var á, get jeg ekki annað sjeð en að jeg hafi framið mjög heppilega ráðstöfun.

Jeg ætla að leiða hjá mjer að fara út í hin margvíslegu smáatriði, sem hv. þm. stiklaði á samhengislítið. Það má vera, að aðrir virði hann svars, en ef ætti að taka upp þann sið að hefja langar umræður um hvert einasta atriði, sem fram kemur, mundi það leiða til hinna mestu vandræða.

Jeg þykist nú hafa skýrt hið óttalega fyrirbrigði, sem hv. þm. þótti vera. Hann álítur, að jeg hafi snúist í stórmálum þjóðarinnar. En jeg álít, að þessi ófrjói svilfiskur, sem sífelt er að veita slefu sinni yfir gömul íhaldshrogn, sem aldrei geta frjófgast, ætti að breyta sinni stefnu og haga sjer í framtíðinni eins og mönnum sæmir.