13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Þó að jeg hafi ekki kvatt mjer hljóðs fyr en nú, er það ekki af því, að jeg sje ekki fylgjandi þessu máli. En mjer fanst undirtektirnar hjer í hv. deild vera svo einróma góðar, að óþarfi væri að auka við umræðurnar. En nú hafa komið fram tvær brtt., sem mjer finst geta orðið hættulegar fyrir framgang málsins. Jeg verð að leggja eindregið með því, að þær brtt. verði feldar. Um leið verð jeg að gera grein fyrir ástæðunum til þess.

Jeg er alveg sammála hæstv. forsrh. um það, að hjer er mjög merkilegt mál á ferðum. Ef sundhöllin kemst upp, hefir það mikla þýðingu fyrir alt íþróttalíf á öllu landinu. Þó að mál þetta sje aðallega bundið við Reykjavík, hefir það þó þýðingu fyrir alla þjóðina. Jeg hefi tröllatrú á því, að í framtíð skólamálanna, sem eru nú aðalmál þjóðarinnar, muni íþróttir verða miklu meira í hávegum hafðar en þær eru nú. Heilbrigði líkamans er alls ekki gætt eins og skyldi. Jeg er sannfærður um, að sá tími, sem unglingum er ætlað að sitja í skóla, sem eru að minsta kosti 6 klukkustundir daglega, er stórhættulegur fyrir heilsu þeirra. Mjer þykir vænt um, að sjálfur fræðslumálastjórinn, hv. þm. V.-Ísf., heyrir á mál mitt. Jeg vona, að hann láti til sín taka einmitt þetta atriði. Íþróttaiðkanir í skólum ættu að vera sjálfsagðar.

Jeg mun sem sagt greiða atkvæði á móti báðum brtt. Ef þær verða samþyktar, er jeg hræddur um, að áhugi sje ekki nógur hjer í Reykjavík til þess að hrinda málinu bráðlega í framkvæmd, enda ætti sundhallarmálið að vera mál þjóðarinnar yfirleitt og hún öll að láta það til sín taka.