13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mentmn. hefir komið sjer saman um að leggja til, að brtt. verði feldar. Jeg veit þó ekki með vissu um afstöðu eins nefndarmanns, en hinir fjórir eru ákveðið á móti báðum brtt.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, telur mentmn. Sjálfsagt að breyta hlutfallinu milli fjárframlaga úr ríkissjóði og annarsstaðar frá, þannig að það verði hið sama úti um landið og þetta frv. gerir ráð fyrir hjer í Reykjavík. Hjer er því um það hlutfall að ræða, sem verða mun á öllu landinu framvegis. Úti um landið er full ástæða til að styrkja Sundlaugar miklu meira en gert hefir verið. Í Reykjavík er aðstaða betri en víða annarsstaðar til framkvæmda í þessu efni, meðal annars vegna fjölmennisins. En jeg hygg, að eftir gangi þessa máls í bæjarstjórn hingað til, muni lækkun þess styrks, sem gert er ráð fyrir í frv., geta orðið hættuleg. Þó að íþróttamenn og ýmsir aðrir hafi sýnt töluverðan áhuga fyrir sundhallarmálinu, er jeg hræddur um, að ekkert geti orðið úr því nema með ríflegum fjárstyrk. Hv. þm. ættu að samþ. frv. með glöðu geði, því að það verður öllum landslýð til gagns. Hjer í Reykjavík dvelja menn af öllu landinu einmitt á þeim aldri, þegar þeir læra helst að synda. Ef menn læra ekki að synda á unglingsárunum, er hætt við, að þeir geri það aldrei.

Jeg er alveg sammála hv. þm. Dal. um það, að æskilegt væri að efla íþróttalíf í skólum. En það má ekki gera með því að draga að mun úr bóknámi, að minsta kosti ekki í barnaskólunum. Það tekur oft ekki nema 1/5–½ þess tíma, sem til þess fer í skólum annara þjóða. En hin óhjákvæmilega aukning skólatímans á að fara til íþrótta og handavinnu. Í hinum nýja barnaskóla Reykjavíkur verður sundlaug, sem á að nægja skólanum. En sú laug er ætluð aðeins til að kenna byrjendum. Hinsvegar bætir þetta frv. úr vöntun á sundlaug, þar sem menn geta iðkað sundíþróttina, auk almennrar sundkenslu, sem þar fer fram.

Jeg hefi áður bent á, að Reykjavík er ef til vill sá bær á Norðurlöndum, þar sem allra erfiðast er að iðka íþróttir á vetrum. Á sumrin kemur það oft fyrir, að Reykjavíkurbær er nær tómur; það sjest varla mannsbarn á götunum. Allir, sem vetlingi geta valdið, fara burtu úr bænum, á hestum, bílum eða fótgangandi eitthvað upp í sveit til þess að njóta þar náttúrunnar. Aftur á móti sjer maður aldrei mannlausa borg hjer á vetrum. En dvelji maður að vetrarlagi t. d. í Osló, eða öðrum borgum í Noregi og Svíþjóð, þá getur komið fyrir, að maður sjái bæina alveg mannlausa. Allir, sem tök hafa á, eru fyrir utan þá við íþróttaiðkanir, skauta- og skíðahlaup o. fl. Hjer hagar ekki þannig til, að menn geti alment stundað útiíþróttir á vetrum, enda þótt það sje öllum nauðsynlegt. Og úr því verður ekki bætt nema með Sundhöllinni.

Auk þess er sundhöllin nauðsynleg vegna heimilisþrifnaðar fyrir almenning, því að það er ekki nema í tiltölulega fáum íbúðum bæjarins, að hægt er að framkvæma hinn nauðsynlegasta þrifnað hvað líkamsþvott snertir. Þeir, sem hafa ráð á baðherbergi, eru hjer kallaðir, ríkismenn. Úr þessu er skylt að bæta.

Með frv. þessu er Alþingi að ýta undir framkvæmdir Reykjavíkurbæjar um sundhallarbyggingu, og heiður þess verður þeim mun meiri, sem það á meiri þátt í framkvæmd þessa nauðsynlega fyrirtækis, og einmitt með þessu frv. er og verið að ákveða að styrkja sundlaugar úti um land ríflegar en verið hefir. Nú er styrkurinn til þeirra 4 þús. kr., en eigi hann að miðast við helming kostnaðar, þarf hann að hækka upp í 10 þús. kr.