13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Ólafur Thors:

Jeg þarf ekki að vera margorður um þetta mál, og það því síður, þar sem sumir hv. deildarmenn hafa þegar tekið fram margt af því, sem jeg taldi rjett, að kæmi fram í þessari hv. deild í sambandi við frv. þetta.

Það munu nú liðin full 15 ár frá því að tillagan um sundhöll hjer í bæ kom fyrst fram á prenti, frá núverandi formanni Íþróttasambands Íslands, og síðan hafa íþróttamenn barist fyrir þessu máli.

Jeg hafði nú lesið það, sem þessir menn skrifuðu um málið, og taldi það þjóðþrifamál, en hafði aldrei orðið fyrir verulegri hrifningu, svo jeg þess vegna teldi rjett að styðja það fyr eða fremur en margt annað þrifamálið. En svo fór fyrir mjer eins og mörgum öðrum, að sjón verður sögu ríkari. Mjer varð reikað einn fagran sunnudagsmorgun inn í sundlaugar og sá þar smábörn busla í lauginni á svo kölluðu „hundasundi“, fagrar yngismeyjar synda eins og svani á vatni og íturvaxna íþróttamenn, sem „hnituðu hringa marga“ um leið og þeir steyptu sjer úr háalofti af sundpallinum niður í laugina. Jeg fyltist löngun til þess að kasta mjer úr fötunum og fara á hundasundi með krökkunum, en skammaðist mín fyrir það, máske af hjegómagirni, því að jeg kann lítið að synda, en frá þessari stundu skildi jeg nauðsyn þessa máls og sór því fylgi mitt í gegnum þykt og þunt.

Þeir hv. þm., sem hafa orðið til þess að andmæla þessu sundhallarmáli, telja því ekkert mein gert, þó að frv. þetta nái ekki fram að ganga í þeirri mynd, sem það er nú, og benda ennfremur á, að ástæðulaust sje að leggja Reykjavík hlutfallslega meira fje til sundlaugar en öðrum landshlutum. Þessum hv. þm. vil jeg segja það, að það er hvorttveggja, að mjer er ekki grunlaust, að verði framlag ríkissjóðs minkað frá því, er stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir, muni af því stafa tafir á framkvæmd málsins, og hitt, að mjer finst, að Reykjavík hafi lagt og leggi enn svo mikið til almenningsþarfa, að ekki sje gerandi mikið úr því, þó að það komi einu sinni fyrir, að hún beri hlutfallslega meira úr býtum en aðrir landshlutar. Jeg minnist í þessu sambandi ársins 1925, þegar tekjur ríkissjóðs voru alls 16 milj. kr., og þar af innheimt af tollheimtu Reykjavíkur og annara bæja 11 milj. kr. Jeg nefni þessar tölur aðeins til þess að sýna, að Reykjavík á alla sanngirni skilið hvað þessi mál snertir. Af framansögðu verð jeg að halda því fram, að full sanngirni mæli með því, að frv. það, sem hjer er til umræðu, verði samþykt eins og það liggur fyrir.

Eins og kunnugt er, er jeg í Íhaldsflokknum, flokknum, sem hefir það efst á stefnuskrá sinni að miða öll útgjöld við hina raunverulegu getu ríkissjóðs. Þó getur það komið fyrir, að hugsjónirnar beri mig út fyrir þessi takmörk, þegar jeg vil láta eitthvert hugsjónamál ná fram að ganga, eins og t. d. þetta sundhallarmál, sem jeg tel eins þýðingarmikið til líkamlegra þrifa eins og jeg tel hugmynd Kristjáns Albertssonar um ríkisforlag vera til andlegra þrifa.

Jeg skal svo ljúka máli mínu með því að taka undir orð eins merks borgara þessa bæjar. Orð hans voru þessi: „Hafið það hugfast, að ef þið stofnið íþróttaskóla og byggið sundhöll, þá þurfið þið ekki að byggja spítala“. Jeg veit, að ekki ber að skilja þessi orð bókstaflega, en mikill sannleikur er samt í þeim fólginn.