13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallason):

Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Borgf.

Jeg heyrði ekki upphaf ræðu hans, en skildi hann svo, að hann hjeldi því fram, að það væri ósamræmi hjá stj. að leggja til, að veittur verði styrkur til sundhallarbyggingar annarsvegar og hinsvegar að draga úr verklegum framkvæmdum.

Jeg held, að hv. þm. Borgf. hefði ekki fundið ósamræmi í þessu, ef hann hefði hugsað málið dálítið betur. Hv. þm. veit vel, að landsstjórnin verður að halda sjer við gildandi skattalög, er hún semur fjárlagafrv., og núv. stj. ætlar sjer ekki að bera fram fjárlög með tekjuhalla.

Jeg hefi sagt það við fjvn. — og hv. þm., sem á sæti í þeirri nefnd, veit það —, að tilætlun stj. væri sú, að afla ríkissjóði svo mikilla tekna, að hægt væri að veita ríflegt fje til verklegra framkvæmda, án þess þó að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla. — Þegar hv. þm. var að tala um ósamræmið og stefnubreytingu stj., vissi hann því vel, að það, sem hann sagði um það, hafði ekki við rök að styðjast. Eins og stj. ætlast til, að hægt verði að afla peninga til þess að stofna til myndarlegra sundlauga úti um land, eins er það tilætlun hennar að afla peninga til annara verklegra framkvæmda. En hún fer ekki af stað með þetta í fjárlagafrv. fyr en tryggur er tekjuaukinn.

Þá vjek hv. þm. að hlutföllunum. Jeg er búinn að geta þess, að stj. hefir þegar gert ráð fyrir því, að tillagið til sundlauga úti um land hækki. T. d. er hæsta styrkveitingin til sundlaugar, sem áður hefir verið veitt, ekki heldur 2/5 kostnaðar. Er það til sundlaugarbyggingar í Þingeyjarsýslu. Hjer er því ekki um neina stefnubreytingu að ræða hjá stj. Við Framsóknarmenn höfum ekki áður haft þá aðstöðu eða þau ráð hjer á Alþ., að við höfum getað komið öllu í framkvæmd, sem við gjarnan hefðum viljað koma fram.

Jeg gat ekki annað en brosað, þegar hv. þm. Borgf. var að tala um það sem fyrirmynd og hámark í íþróttamenningu þjóðarinnar, að á öldinni sem leið hefðu örfáir menn á Bessastöðum synt í sjó að staðaldri. Hann má telja það viðunandi, að 10, 20 eða 30 menn fari í sjóinn, en jeg vil vona, að slíkt ástand í íþróttalífi eins og var á þeim tíma, sem hv. þm. vitnaði í, komi aldrei framar í sögu þjóðarinnar, og jeg vona líka, að sundhöllin hindri það, að annað eins ástand komi nokkurntíma aftur.